Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:43:54 (4753)

1996-04-15 18:43:54# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þarna er um að ræða lauslegt mat á þeim fyrirsjáanlega rekstrarkostnaði sem við stöndum frammi fyrir. Fyrir utan að þetta er stofnkostnaður við upplýsingakerfið sem gæti verið um 20 millj. kr. ef ég man rétt.

Ég minni aftur á varðandi fíkniefnamálin, sem ég tek undir með hv. þm. að er eitt mikilvægasta atriðið sem við þurfum að horfa á í þessu sambandi, að þó að persónuskoðunin falli niður heldur tollskoðunin áfram óbreytt eins og verið hefur. Það er því enginn tilslökun á henni í tengslum við þessa samninga. Þó að það geti verið um samspil að ræða milli persónuskoðunar í vegabréfaeftirliti og tollskoðunar heldur tollskoðunin áfram og það er auðvitað hún sem er kjarni málsins. Í þeim starfshópi sem er að vinna núna að tillögum og athugunum á úrræðum til þess að styrkja okkur í baráttunni gegn fíkniefnavörnum eru að sjálfsögðu fulltrúar frá fíkniefnalögreglunni því að slíkur hópur starfaði að sjálfsögðu ekki á vegum dómsmrn. án þess að sú mikilvæga deild í réttarvörslukerfi okkar kæmi þar að málum. Ég vona að skoðun okkar á þessu efni, og það er meira en von, hún verður að liggja fyrir áður en við tökum lokaákvarðanir í þessu efni. Ég tek undir það með hv. þm. að þetta er mikilvægur þáttur og minni líka á að samstarfsþjóðir okkar hafa lagt á þennan þátt mjög ríka áherslu og munu gera það þannig að ég held að það muni ekkert skorta á samstarf Norðurlandaþjóðanna í þessu efni í þeim samningum sem fram undan eru.