Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:45:52 (4754)

1996-04-15 18:45:52# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég bjóst ekki við öðru en að mat á fíkniefnavörnum lægi fyrir áður en lokaákvörðun er tekin um aðild okkar að Schengen. Þó það nú væri. Ég kallaði eftir því hvort ráðherrann væri tilbúinn til að beita sér fyrir því að flýta þessari athugun þannig að við gætum a.m.k. fengið eitthvert mat þó það væri ekki nema bráðabirgðamat á því hvað þetta þýddi. Það er mikilvæg forsenda örugglega hjá mörgum hér í þinginu fyrir því að styðja aðild að Schengen, að við getum treyst því að við séum ekki að veikja fíkniefnavarnir okkar. Ég spyr því hæstv. ráðherra aftur hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að þessi mikilvægi þáttur verði skoðaður alveg sérstaklega og reynt að flýta honum meira en svo að hann liggi bara fyrir rétt áður en við þurfum að taka lokaákvörðun í þessu máli. Helst hefði ég viljað að við hefðum fengið lauslegt mat á því við þessa umræðu, en ég sé fram á að það er því miður er ekki hægt. Ég spyr ráðherrann að þessu. Mér finnst varla hægt að bíða lengur með að fá mat á þessu. Þar má ekki skipta örfáum vikum, hvað þá mörgum mánuðum.