Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:13:35 (4789)

1996-04-16 15:13:35# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er eftirtektarvert við upphaf umræðunnar hversu mikill ótti virðist hafa gripið um sig í hjarta hæstv. fjmrh. um að ítarleg efnisleg umræða skuli fara fram um kosti og galla við þær ýmsu leiðir, þá ýmsu valkosti sem til greina koma við upptöku skatts af þessum toga. Öðruvísi mér áður brá. Einhvern tímann tel ég mig hafa heyrt það af vörum hæstv. ráðherra og ráðherrum þessarar ríkisstjórnar að þeir hefðu það styrkan þingmeirihluta fyrir 20 þingmenn af 63, að þeir þyrftu ekki að skríða undir sængina hjá hv. stjórnarandstöðu og njóta atbeina hennar við að koma málum fram í þinginu. Væntanlega er þessi nýi tónn í hæstv. ráðherra tilvísun á það að við megum eiga von á breyttum vinnubrögðum í þinginu í samstarfi og samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu. Út af fyrir sig er ég tilbúinn til þess að taka í þá útréttu sáttarhönd og koma t.d. að því verkefni með hæstv. ráðherra að kasta út af borðinu frv. til breytinga á vinnulöggjöf og fleiri bastörðum sem hér hafa gengið aftur í þinginu á síðustu vikum. Ég vil taka undir það með ráðherra. Ég tel hins vegar alveg nauðsynlegt að allrar sanngirni sé gætt um það mál sem hér um ræðir. Ég fagna því mjög einlæglega að frv. um upptöku fjármagnstekjuskatt skulu nú loks vera komin á vettvang hins háa Alþingis því það er að sönnu alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra í framsöguræðu hans að menn hafa alloft og um alllangt skeið gert tilraunir til þess að undirbúa frv. til laga sem miðar að þessu en gengið hægar en ella. Hann rifjaði upp tilraunir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar í þeim efnum og síðan ítrekaðar tilraunir fráfarandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, samstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl, í þessa sömu veru. Og það eitt út af fyrir sig, sem er auðvitað ekki svo veigalítið, að þessi mál skulu nú komin hér á borð þingmanna og það horfir til þess vonandi að menn sjái fyrir endann a.m.k. tímabundið á því að við bætum hér úr og skattleggjum vaxtatekjur en undanþiggjum þær ekki eins og verið hefur um alllangt skeið, er stórt skref í rétta átt. Það vil ég undirstrika mjög rækilega og mun koma nánar að því á eftir, sem sýnir kannski þau heillegu og sanngjörnu vinnubrögð sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar sýndu í þessari margnefndu nefnd um fjármagnstekjuskatt.

[15:15]

Þannig er að almennu launafólki finnst skattarnir of háir, almennu launafólki finnst skattsvikin of mikil. Almennt launafólk hefur ekki áttað sig á réttmæti þess að ein tegund tekna, vaxtatekjur, er einhverra hluta vegna undanþegin skattskyldu og að þeir sem njóta þar í sumum tilfellum verulegra tekna þurfa allt í einu ekki að standa skil á þeim tekjum sínum í eðlilegu afgjaldi til samfélagsþjónustu. Þetta er ósköp skiljanlegt. Almennur launamaður á erfitt með að láta enda ná saman og finnur því verulega fyrir því þegar verulegur og stór hluti launa hans er af honum tekinn og notaður til samneyslunnar, til að reka spítalana, til þess að reka velferðarþjónustuna í heild og breidd. Þess vegna er þrátt fyrir allt mjög víðtæk sátt í samfélaginu um þennan svokallaða fjármagnstekjuskatt. Það er með öðrum orðum beinlínis krafa á okkur stjórnmálamenn að við látum hendur standa fram úr ermum og gerum nú eitthvað í því loksins að koma böndum á þessar tekjur og að þeir sem hafa umtalsverðar tekjur af vöxtum verði látnir eins og aðrir greiða sinn sanngjarna skerf til samfélagsþjónustunnar. Það er lykilatriði þessa máls, virðulegi forseti, sem við verðum að halda mjög rækilega til haga.

Þess vegna er það beinlínis röng framsetning af hálfu hæstv. ráðherra að tala sýknt og heilagt um að niðurstöður nefndarinnar margumræddu hafi verið málamiðlun, málamiðlun sem m.a. tók mið af því að svo og svo margir, hugsanlega í nefndinni eða a.m.k. í þingflokki hæstv. ráðherra, væru í andanum á móti því að leggja þennan skatt á. Þessi nefnd átti ekki að taka afstöðu til þess heldur þvert á móti var það í skipunarbréfi nefndarinnar að hún ætti að koma með tillögur um fyrirkomulag á þessum skatti. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin, hæstv. ráðherra hafði tekið um það pólitíska ákvörðun að það ætti að leggja þennan skatt á. Þannig að þessi nefnd átti ekki að þurfa að standa í neinum málamiðlunum innbyrðis, ég skildi það a.m.k. aldrei þannig, gagnvart einstökum nefndarmönnum eða einstökum þingmönnum hugsanlega Sjálfstfl. hvort þessi skattur ætti yfirleitt að vera á lagður eða ekki. Það er því beinlínis röng framsetning af hálfu hæstv. ráðherra að menn hafi í þessari nefnd verið að kaupa friðinn hjá hugsanleg einhverjum andstæðingum þess að leggja á vaxtaskatt.

Að sönnu hef ég eyru eins og hæstv. ráðherra og hef auðvitað lagt við hlustir þegar einstakir þingmenn Sjálfstfl. eru að lýsa hinum fjölmörgu vanköntum sem þeir sjá á því að leggja þennan skatt á og vilja sannarlega innst inni ekkert frekar en að þetta frv., og þá ekki síður frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna, dagi uppi í skúffum og verði aldrei eitt né neitt. Það er auðvitað sú hótun, virðulegi forseti, sem hér vomir yfir. Það er ekkert flókið að lesa úr orðum hæstv. ráðherra þegar hann kemur hér aftur og aftur í upphafi þessarar umræðu og segir: Gott fólk, hér er um málamiðlun að ræða og ef það er þannig að einhverjir þingmenn ætli að hlaupast undan merkjum og fara að styðja einhverjar aðrar útfærslur en nefndin segir til um þá veit ég ekkert hvað verður. Þá er ekkert hægt að fullyrða um það hver niðurstaða mála verður. Þannig að ég hlýt að spyrja beint að því, virðulegi forseti. Er það einlægur ásetningur hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar, þingmeirihlutans, 40 af 63, að ljúka lagasetningu um vaxtaskatt á yfirstandandi þingi? Eða ber að taka þá hótun hæstv. ráðherra alvarlega, að ef stjórnarandstaðan leyfir sér að leggja fram tillögur til breytinga um hvernig þessi skattur skuli á lagður, þá sé hættan mjög verulega sú að hinir hörðu andstæðingar skattsins í flokki þingflokks sjálfstæðismanna --- hugsanlega framsóknarmanna, þeir eru náttúrlega ekki við þessa umræðu frekar en fyrri daginn --- þá bara verði ekki neitt úr neinu. (GMS: Hvar flokkarðu mig?) Ég bið hv. þm. margfaldrar afsökunar. Gunnlaugur Sigmundsson situr hér og ætlar að leggja ... (Gripið fram í: Einn fyrir alla.) einn fyrir alla, og ætlar að leggja gott orð til þessarar umræðu á eftir ef ég veit best.

Það er auðvitað nauðsynlegt, virðulegi forseti, að við glöggvum okkur á pólitískri stöðu málsins, þessum ytri merkjum í málinu. Í nefndarstarfinu spurði ég sérstakan fulltrúa ráðherra í nefndinni, þ.e. formann nefndarinnar, þráfaldlega hvort að hann vissi hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlaði að höndla þann afrakstur sem nefndin skilaði frá sér. Formaður nefndarinnar fór margfaldlega til hæstv. ráðherra að beiðni nefndarmanna og spurði að því hvort menn ætluðu að gera eitthvað með þetta eða hvort að hér yrði um að ræða enn eina skýrsluna, enn eina samantektina um þá valkosti sem til greina kæmu þegar upptaka fjármagnstekjuskatts væri annars vegar. Þeir eru dágóðir, pappírarnir, sem þegar hafa verið teknir saman um þetta mál. Í maí 1992 varð til heilmikill doðrantur þar sem menn lögðu til ákveðna útfærslu. Sú útfærsla var að sumu leyti ekki ólík því sem gengur nú aftur í frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að gert yrði ráð fyrir því að samræma skattlagningu allra tekna. Meðal þessara tillagna var að vaxtatekjur yrðu skattlagðar eftir að raunvaxtaþáttur hafi verið einangraður og hann látinn mynda skattstofn. Og til þess að draga úr áhrifum þessarar skattlagningar á smærri sparendur var gert ráð fyrir sérstökum skattafrádrætti vegna vaxtagreiðslna. Þannig hefði um fjórðungur tekjuhæstu skattborgaranna greitt í reynd þessa skattahækkun sem þar var gerð tillaga um. Það er ekkert launungarmál að um þessar útfærslur, um þessa skýrslu náðist ekki samkomulag í þáverandi ríkisstjórn og í raun og sanni heldur ekki um þá nefndarniðurstöðu sem birtist okkur þann 14. október 1993 og var raunar útskrifuð í frv. til laga og var eins og ráðherra gerði réttilega grein fyrir framhald af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í maí það sama ár gagnvart aðilum vinnumarkaðarins þar sem kveðið var á um það að þessi skattlagning skyldi upp tekin. Það var ekki síst vegna þess að menn sáu ákveðna mjög alvarlega vankanta á þessari útfærslu sem hér gengur eftir í frv. hæstv. ráðherra. Að sumu leyti er raunar gengið þar miklu lengra sem gerir það að verkum að þessi meginmarkmið skattlagningar vaxtatekna, þ.e. réttlætissjónarmiðin, jafnræðissjónarmiðin, aukinn möguleiki til tekjujöfnunar í samfélaginu, þeim möguleika er tapað. Þá er ég að vísa til þess, virðulegi forseti, fyrst og síðast að menn fóru að kroppa í arðinn. Menn fóru að kroppa í leigutekjurnar og söluhagnaðinn en það var út af fyrir sig ekki í upphaflegu skipunarbréfi þessarar nefndar. Nefndinni var ekki gert, eins og segir raunar núna á titilblaði þessa nefndarstarfs, að samræma skattlagningu fjármagnstekna. Það segir ekki neitt um það í skipunarbréfi hæstv. ráðherra, þannig að það var seinni tíma mál.

Eðlilega hafa menn í upphafi þessarar umræðu staldrað eilítið við það hvernig menn stóðu að nefndarstarfinu. Ég skal segja það bara eins og það kom fyrir af skepnunni. Það kom auðvitað mjög til álita strax á fyrstu vikum og mánuðum þessa nefndarstarfs hvort það væri nokkur grundvöllur til sameiginlegrar niðurstöðu og menn tókust mjög hart á um þær grundvallarleiðir sem til álita komu. Það var hins vegar mitt mat og ég tel og trúi því að það hafi verið rétt mat, að ef einhverjir einstakir fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu á þeim tímapunkti sagt sem svo að þær meginhugmyndir sem uppi væru og meiri hluti nefndarinnar, þar á meðal fulltrúar stjórnarflokkanna og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, ætluðu að knýja í gegn væru óaðgengilegar þá hefði nefndarstarfinu verið skellt ofan í skúffu. Með öðrum orðum, ég er sannfærður um það og raunir vofir sú hætta yfir enn þá eins og ég gat um í upphafi, virðulegi forseti, að áhugi stjórnarflokkanna á því þegar til kastanna kemur að koma þessum nýja skatti á, burt séð frá aðferðum og leiðum, er ekki meiri en svo að þeir taka sumir hverjir mjög fagnandi ef þeir geta sagt og það munu þeir reyna hér í þessum umræðum: Sjáiði stjórnarandstöðuna. Nú ætlar hún að bregða fæti fyrir það og rjúfa þá sátt og samstöðu um þá málamiðlun sem um þessi mál náðist í umræddri nefnd. Ég hlýt hins vegar að gagnálykta og spyrja ráðherrann beint á sama hátt: Ef þetta frv. ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra er málamiðlun, hvaða valkostir eru það þá aðrir í þessu frv. sem hann mælir fyrir sem hann vill sjá? Hvar hefur hann dregið í land? Hvaða viðhorf hefur hann þurft að bakka með til þess að ná þessari svokölluðu málamiðlun? Hvernig hefði hann viljað sjá þetta frv. öðruvísi en hér birtist okkur í hans eigin frv.? Ég hef ekki heyrt eitt aukatekið orðu um það og ég bið hæstv. ráðherra að leggja við hlustir og svara mér ef hann getur. Hvar hefur hann þurft að slaka til? Hvaða sjónarmið hans er ekki að finna í frv. hans? Og hvaða sjónarmið eru það önnur í hópi þingmanna hans sem menn hafa hér selt?

Ég skal hins vegar, virðulegi forseti, upplýsa að það eru einstök atriði sem inn í þetta komu vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sumir hverjir marghömruðu á nauðsyn þess að reyna að lagfæra verstu brestina í frv. M.a. nefni ég það að sérstaklega kom þar inn fyrir tilverknað þeirra að sveitarfélögum þyrfti að bæta þann skaða sem þetta frv. mun valda. Og einnig hitt sem er ekki svo lítilvægt því að það var eitt grundvallaratriðið af hálfu okkar stjórnarandstæðinga í þessu nefndarstarfi, að til þess að verja fermingarpeningana, til að verja þessa smápeninga sem framkalla einhverjar krónur eða hundraðkalla í vaxtatekjur hjá hinum smáu, þá yrði í fyrsta lagi og sem æskilegast væri að hafa þar frítekjumark eins og við getum um okkar greinargerð. En niðurstaðan var sú að formaður nefndarinnar lagði til, sem er skref í rétta átt þó aðeins sé um hænufet að ræða, að nýta mætti ónýttan hluta persónuafsláttarins til þess að greiða þessar smáu upphæðir. Það er auðvitað dæmi um það sem ekki hefði gerst hefðu fulltrúar stjórnarandstæðinga farið út úr nefndinni strax þegar skarst í odda um hin stóru grundvallaratriði.

Ég vil líka árétta það sem ég gat um í stuttu andsvari, virðulegi forseti, að í byrjun október var það sem spásögn fjmrh. birtist okkur hv. þm. í formi þess að hann sagði fyrir um að niðurstaða þessa álits yrði eins og raun hefur orðið á. Nú heitir það orðið spásögn. Á sama tíma engu að síður var í nefndinni og raunar mörgum vikum síðar, m.a. skrifstofustjóri hæstv. ráðherra sjálfs, skrifstofustjóri fjárlaga- og tekjuskrifstofu, ef ég man rétt heiti þess kontórs, með hugmyndir sem gengu í allt aðra átt. Og hv. þm. muna hver varð niðurstaða þeirra mála. Þeim ágæta embættismanni var hreinlega sparkað út úr nefndinni af hæstv. ráðherra. Þau viðhorf voru ekki talin æskileg í þessu nefndarstarfi þó auðvitað hafi hinir kjörnu fulltrúar haldið þeim mjög á lofti allt frá byrjun og gerðu þá enn, hvað sem leið spásögn hæstv. ráðherra í fjárlagafrv. hans sjálfs.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað fjöldamargt kúnstugt við þetta mál. Ég hef því miður ekki haft til þess tíma í þessari stuttu ræðu, sem auðvitað væri æskilegt, að fara mjög rækilega ofan í efnisatriði frv. nákvæmlega þ.e. hvernig að þau birtast skattgreiðendum, hvernig þau koma misjafnlega við þá eins og útfærslan er. Ég verð að árétta það, virðulegi forseti, því það virðist vera svo að hæstv. ráðherra skilji það ekki eða geti ekki lesið að fulltrúar stjórnarandstæðinga skrifa undir þetta nál. með vísan til bókunar, samanber bókun. Þessa bókun er að finna sem fylgiskjal með frv. ráðherrans sjálfs og ég verð að fara þess á leit við hæstv. ráðherra að hann lúslesi hana og reyni að skilja hvað þar stendur. Þar stendur eitt fyrst og síðast að við teljum mikilvægt að þessi skattur verði á lagður og við höfum líka í okkar nefndarstarfi og okkar vinnubrögðum freistað þess að ná um það víðtæku samkomulagi og sátt um niðurstöður. Það hefðu hins vegar ákveðin tilgreind atvik sem hér eru rakin komið í veg fyrir að svo gat orðið. Og að lyktum í ljósi þessa var það niðurstaða okkar, þar sem þessi útfærsla sem meiri hluti nefndarinnar kemst að nær ekki þeim meginsjónarmiðum sem við stóðum fyrir og stöndum fyrir, þá hlutum við að áskilja okkur allan rétt í þessu máli sem og þeir flokkar sem við vorum fulltrúar fyrir, til að styðja breytingar sem til bóta gætu horft varðandi þau mál. Hvort það er í formi brtt. við þetta frv. ráðherra sérstaklega eða í formi sjálfstæðra frv. er algjört aukaatriði þessa máls. Miklu hreinlegra er á þessu stigi málsins að það séu tiltölulega skýrar línur. Ég vil segja það, virðulegi forseti, strax hér og nú af því að hæstv. ráðherra kvartar yfir því að fá ekki þessar brtt. sem hann kallar eftir. Þær munu væntanlega, ef svo fer sem ég sannarlega vona að þetta mál fái frekari framgang í þinginu, birtast við 2. umr. þannig að brtt. fær hæstv. ráðherra væntanlega af því að hann hefur kallað eftir þeim sérstaklega. (KHG: Styður þingmaðurinn málið?) Styður þingmaðurinn málið? Þetta gengur út yfir gröf og dauða. Það er ekki aðeins að hæstv. ráðherra sem kann ekki að lesa heldur einnig hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Ég bið Kristin H. Gunnarsson að lesa sér til í þessari bók. Ef hann á hana ekki getur hann fundið hana. Ég styð þær breytingar sem stjórnarandstaðan og formenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram um þessi mál og er að finna í frv. sem verður til umræðu í þinginu annað kvöld. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson verður náttúrlega viðstaddur sem og hæstv. ráðherra. Þá ætti mönnum að vera það algerlega ljóst skilji þeir það ekki núna.