Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:12:29 (4810)

1996-04-16 17:12:29# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði að þessi niðurstaða væri ekki nógu góð og ég get tekið undir margt af því sem hann kom með á móti þessu, t.d. að það skuli yfirleitt vera til að borga 1% vexti á almennar sparisjóðsbækur og þaðan af lægra í 2% verðbólgu, þ.e. meðan menn eru að tapa skuli bankarnir ekki sjá sóma sinn í því að borga þá a.m.k. þá vexti sem gefa 0% raunvexti. Þetta er vandamálið. Það eru stórar fúlgur inni á þessum reikningum og ég hygg að skattlagning þessara vaxta muni þá a.m.k. hrista upp í þeim mönnum sem ráða vöxtunum að þeir hækki þá upp í verðbólguna og kannski 10% umfram þannig að menn séu þá sléttir. Það getur verið afleiðing af svona skattlagningu að kröfurnar um arðsemi aukast, líka hjá þeim sem eru með fé í hlutafé.

Hv. þm. sagði að hagsmunum sparifjáreigenda væri fórnað fyrir hlutabréfaeigendur. Ég nefndi þetta þannig að hægt sé að stýra sparifé inn í bankana, það er hægt að stýra fólki, sparifjáreigendum, þetta er allt saman fjármagnseigendur, það er hægt að stýra þeim frá hlutabréfum og inn í bankana. Það er hægt og ef mönnum sýnist að hlutabréfamarkaðurinn gefi meiri og betri vexti er þeim að sjálfsögðu frjálst að setja sitt sparifé þar. Reyndar er það þannig með eldra fólk að það getur að sjálfsögðu ekki tekið ríka áhættu en ég get alveg séð fyrir mér að börn mundu geta keypt hlutabréf og tekið áhættu því þau eiga allan vinnuferilinn eftir.