Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:23:15 (4830)

1996-04-16 18:23:15# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:23]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. staðfesti það sem fram hefur komið áður í umræðunum að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki nægilegt samráð við Samtök sveitarfélaga þegar frv. þetta var á undirbúningsstigi. Hann staðfesti einnig að Samtök sveitarfélaga hefðu kvartað yfir því mikla tekjutapi sem sveitarfélögin yrðu fyrir og hét því að hann mundi láta kanna þessa hlið málsins nánar og þá um leið hversu mikið tekjutapið væri. Ég þakka honum fyrir þessa yfirlýsingu sem ég tel að hafi verið mjög gott og gagnlegt að fá og treysti honum vel til þess að láta rannsaka þessa hlið málsins ofan í kjölinn.

En varðandi yfirlýsinguna sem hann vitnaði í þá hefði ég nú óskað eftir því að hann læsi hana alla en sliti hana ekki úr samhengi eins og hann gerði áðan. Auðvitað er alveg ljóst að þeir sem gengu frá þessari bókun þegar nefndaráliti var skilað, voru að koma því sjónarmiði á framfæri að önnur leið væri skynsamlegri, þó þeir vissulega láti um leið koma fram að betri sé einhver fjármagnstekjuskattur en enginn og að þessi leið hafi orðið sú sem víðtækust samstaða í nefndinni varð um. Sem sagt þeir kusu aðra leið og komu sínum fyrirvara og sínum athugasemdum alveg skýrt og greinilega á framfæri með bókunum sínum.