Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:28:27 (4833)

1996-04-16 18:28:27# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:28]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Þau frumvörp sem hér eru til umræðu fjalla í aðalatriðum um tvö efnisatriði. Annars vegar er um að ræða nýjan skatt á vaxtatekjur og hins vegar er um að ræða lækkun á sköttum og samræmingu annarra fjármagnstekjuskatta. Samkvæmt frumvörpunum er gert ráð fyrir því að hinn nýi vaxtatekjuskattur muni skapa ríkinu tekjur upp á 800 millj. kr. og til viðbótar því munu koma 300 millj. kr. vegna breytinga á skattlagningu félagssamtaka, en að lækkun á sköttum á aðrar fjármagnstekjur vegna samræmingarinnar muni leiða til 200 millj. kr. minni tekna hjá ríkissjóði. Í allt eru þetta því tæpur milljarður kr. sem ríkið ætlar sér í nýjar og auknar tekjur af völdum þessarar skattheimtu.

Ég er fylgjandi því að annað efnisatriðið sem ég nefndi nái fram að ganga, að við lækkum skatta á fjármagnstekjur og efast reyndar um að það verði um 200 millj. kr. tekjulækkun að ræða hjá ríkinu vegna þess að ég geri ráð fyrir því að lækkun á þessum sköttum muni örva viðskipti á verðbréfamarkaðnum og ýta undir frekari vöxt í okkar efnahagslífi og það muni verða um meiri arð að ræða sem verði skattlagður og að skil muni verða betri á öðrum fjármagnstekjum, svo sem húsaleigutekjum, en raun ber vitni í dag. Þess vegna tel ég að það ætti að vera hægt að lækka aðrar fjármagnstekjur en vaxtatekjurnar um þá upphæð sem hér er að ræða án þess að til lækkunar kæmi á tekjum ríkissjóðs. Ef svo yrði, væri ásættanlegt að mínu mati að til að bæta upp það tekjutap yrðu skattendurgreiðslur vegna kaupa á hlutabréfum lækkaðar þar á móti því að þær endurgreiðslur eiga að þjóna sama tilgangi og ég tel að lækkunin á sköttunum muni þjóna, þ.e. að örva viðskipti með hlutabréf, örva verðbréfamarkaðina og verðmætasköpun í fyrirtækjum þjóðarinnar. Ég er hins vegar, herra forseti, ósammála því að við leggjum skatt á vaxtatekjur.

Áður en lengra er haldið er ekki hægt að sleppa því að fjalla aðeins um tilurð þessa máls og málsmeðferðina. Af þeim málum sem ég hef komið að og fjallað um á Alþingi á undanförnum árum eru þau ekki mörg þar sem leitað hefur verið eins víðtæks samstarfs á milli flokkanna, stjórnar og stjórnarandstöðu, til að fá niðurstöðu sem hefði víðtækt og breitt fylgi. Þetta starf hófst á síðasta kjörtímabili þegar Sjálfstfl. og Alþfl. sátu við stjórn og fengu stjórnarandstöðuna að borðinu og það hélt áfram eftir að Sjálfstfl. og Framsfl. voru komnir í stjórn og Alþfl. hélt starfinu áfram ásamt Alþb. og Kvennalistanum og Þjóðvaka sem þá var nýr flokkur á Alþingi. Um þetta náðist samstaða sem kom fram í skýrslu sem er grundvöllur frumvarpsins. Það var því á grundvelli þessa víðtæka samkomulags sem ég lagðist ekki gegn því innan þingflokksins að frv. yrði lagt fram þótt ég sé andsnúinn því að það sé lagður skattur á vaxtatekjur.

Kannski kom það ekki mjög á óvart að stjórnarandstaðan skyldi leggja fram nýtt frv. í kjölfarið á framlagningu frv. ríkisstjórnarinnar. Menn gátu kannski sagt sér það af bókuninni, þótt það kæmi ekki fram þar, að menn gætu átt von á einhverju frá stjórnarandstöðunni. Menn áttu kannski ekki von á því strax. Maður átti frekar von á því að þeir gripu til þess ráðs strax og þeir hefðu til þess tækifæri, stjórnarandstöðuflokkarnir, Alþfl., Alþb., Þjóðvaki og Kvennalistinn, að hækka fjármagnstekjuskattana, eins og þeir reyndar boða í bókuninni, en að þeir legðu fram nýtt frv. í kjölfarið á frv. ríkisstjórnarinnar sem þeir höfðu þó allir samþykkt. Ég sé því enga ástæðu til þess af minni hálfu að sýna þessu frv. nokkurt umburðarlyndi eða þeim þáttum þess sem ég er andsnúinn og mun ég aðeins í örfáum orðum ræða hverjar eru ástæður þess að ég er á móti því að lagður verði á vaxtatekjuskattur. (GÁS: Ertu hættur að styðja ríkisstjórnina?) Nei, hv. þm. Ég er ekki hættur að styðja ríkisstjórnina.

Þessi vaxtatekjuskattur hefur verið réttlættur með því að það þurfi að vera réttlæti í skattlagningu og vaxtatekjuskattur sé sérstakur réttlætisskattur. Í því sambandi er ekki spurt um hvað varð um sparifé þeirra landsmanna sem brann upp á dögum verðbólgunnar. Hvar var réttlætið þá? Og ef við ætlum að leggja sérstakt réttlæti til grundvallar vaxtatekjuskatti, þurfum við þá ekki að fara í gegnum allt skattkerfið hjá okkur og leggja réttlætið til grundvallar við hvern einasta skatt sem við höfum lagt á? Ég er viss um að það yrði erfið endurskoðun á skattalögunum ef við ættum alltaf að leggja fullkomið réttlæti til grundvallar.

Því hefur líka verið haldið fram að það sé nauðsynlegt að leggja á þennan skatt til þess að afla aukinna tekna til að lækka aðra skatta. En hið raunverulega verkefni sem við stöndum frammi fyrir er að lækka útgjöld ríkissjóðs til þess að geta lækkað heildarskattana. Það er það sem skiptir mestu máli, ekki endilega innbyrðis skipting á þeim sköttum sem við greiðum.

Hvers vegna er ég á móti þessum vaxtatekjuskatti? Það er ekki grundvallaratriði af minni hálfu að vera á móti vaxtatekjuskatti. Það er ekkert prinsipp sem segir að ekki megi leggja á vaxtatekjuskatt. Ég tel einfaldlega að aðstæður í þjóðfélagi okkar, okkar efnahagslífi og peningakerfi sé þess eðlis að það sé ekki skynsamlegt að leggja á vaxtatekjuskatt. Ástæðurnar eru eftirfarandi: Sparnaður á Íslandi er lítill. Hann er mun minni en í nágrannalöndum okkar eða þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og sá sparnaður sem á sér stað er kerfisbundinn sparnaður í lífeyrissjóðunum að langstærstum hluta. Hinn peningalegi sparnaður, þ.e. í bönkum og sparisjóðum er þaðan af minni miðað við það sem gengur og gerist hjá öðrum þjóðum. Og það er í þennan peningalega sparnað hjá bönkum og sparisjóðum sem hinn almenni borgari leitar þegar hann þarf á láni að halda, þegar hann þarf að taka svokölluð neyslulán eða slá víxil. Hann fer ekki til lífeyrissjóða til þess að slá víxla. Hann fer í bankann eða sparisjóðinn til þess að gera það. Ég tel því mjög líklegt og jafnvel nokkuð öruggt að sparnaður muni minnka, alveg örugglega hinn peningalegi sparnaður hjá bönkum og sparisjóðum, og því muni samkeppnin um það fjármagn sem þar er að finna aukast og vextirnir þar með hækka.

Önnur ástæða fyrir því að ég tel varhugavert að leggja á vaxtatekjuskatt er að við búum í dag við opið fjármagnskerfi. Þeir aðilar sem hafa yfir verulegum fjármunum að ráða eiga mjög hægt um vik með að fara með sína fjármuni úr landi. Það munu að vísu væntanlega aðeins vera þeir sem hafa yfir verulegum fjármunum að ráða sem það gera því að fyrirhöfnin er of mikil fyrir þá sem eiga lítinn sparnað og þar með mun þessi skattur hugsanlega frekar leggjast á þá sem hafa litla fjármuni umleikis.

Það er jafnframt líklegt að kostnaðurinn af skattinum muni skiptast á einhvern hátt á milli þeirra sem eiga innlánin og lánþegana. Að öllu þessu samandregnu er því mjög líklegt og nánast öruggt að vextir munu hækka. Ef það gerist af völdum þessa vaxtatekjuskatts hvar er þá réttlætið sem lagt er til grundvallar skattheimtunni? Reyndar má sjá þess merki í skýrslu nefndarinnar að höfundarnir gera sér að einhverju leyti grein fyrir þessu vandamáli. Það kemur m.a. fram í innganginum á bls. 6 í skýrslu nefndarinnar þar sem segir að álagning vaxtaskatts ein og sér muni væntanlega fremur stuðla að hærri vöxtum en lægri. Skattlagning vaxta kunni að leiða til þess að fjármagn leiti fremur úr landi en inn.

Það er sennilega þess vegna sem nefndin brá á það ráð að leggja fremur lágan, flatan skatt á allar fjármagnstekjur. En það er hins vegar ekki allt sem sýnist í þessu sambandi og nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hver hin raunverulega skattprósenta er, hversu stóran hlut af raunávöxtuninni á vöxtum á innstæðum í bönkum væri verið að greiða sem vaxtatekjuskatt. Miðað við nokkur algeng innlánsform og 2,7% verðbólgu mun skattur á raunvexti, hinar raunverulegu tekjur, verða á bilinu 15--30%. 2,7% verðbólgu er einmitt spáð á yfirstandandi ári. Það eru innlánsformin með lægstu vextina sem greiða hæstu skattana vegna þess að í flötu skattheimtunni er verðbótaþátturinn mun stærri en þegar vextirnir eru háir og þeir bera því lægri vextina. Þetta gerir það einnig að verkum að þessi skattheimta verður mjög viðkvæm fyrir hærri verðbólgu. Ef verðbólgan færi í 5%, sem við einu sinni töldum mjög lága verðbólgu hér á landi, væri skattheimtan á bilinu 20--46%. Ef hún færi í 10%, sem þótti góður árangur í verðbólgumálum fyrir 10 árum, þá væri skattheimtan 30--80%. Ef við hins vegar færum í 15% verðbólgu, sem var svona nokkuð stöðugt ástand á köflum fyrir ekki mjög löngu síðan, þá er skattheimta komin í 35--110%. En þetta er auðvelt að laga ef vilji stendur til þess með því að lækka prósentuna ef við einhvern tíma verðum svo óheppin að hafa ríkisstjórn sem missir tökin á verðbólguþróuninni.

Þetta eru í aðalatriðum þær ástæður sem ég vil nefna fyrir andstöðu minni við þennan vaxtatekjuskatt. Hann mun leiða til fjármagnsflótta, hann mun leiða til minni sparnaðar og hann mun leiða til hærri vaxta. Í því sé ég ekkert réttlæti. Ég tel hins vegar að við getum samþykkt það jákvæða sem er í frv. sem er lækkun skatta án þess að þar þurfi að koma til minni tekjur ríkissjóðs. Við eigum að geta fjármagnað það með því að lækka endurgreiðslu vegna hlutafjárkaupa sem þjónar sama tilgangi. Ég tel því að við eigum að sleppa þjóðinni við þennan vaxtatekjuskatt. Ef við viljum fá tekjur til að lækka aðra skatta eigum við fyrst og fremst að lækka ríkisútgjöldin til að geta lækkað heildarskattheimtuna.