Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 21:11:26 (4927)

1996-04-17 21:11:26# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[21:11]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrr á árum þótti lítt gróðavænlegt að leggja fé á bankareikning. Þá voru vextir neikvæðir og höfðu ekki undan við verðbólguna en flestir festu fé sitt í steinsteypu. Þá var ekki þörf á að skattleggja vexti. En eftir að verðtrygging var tekin upp og þó einkum eftir að raunvextir hækkuðu sem mest um miðjan seinasta áratug, var það hrópandi nauðsyn að leggja skatta á þessar tekjur sem aðrar.

Fyrir um það bil tíu árum flutti ég í fyrsta sinn tillögu þessa efnis á Alþingi og benti þá á það ranglæti sem í því fælist að launamenn þyrftu að greiða fjórar af hverjum tíu krónum í skatt en þeir sem hefðu milljónir í vaxtatekjur af verðbréfum þyrftu ekki að greiða af þeim eina einustu krónu. Fyrrv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, lagði einnig fram tillögur um fjármagnstekjuskatt í þáverandi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, en þær náðu ekki fram að ganga.

Á þeim árum tóku fáir undir með okkur alþýðubandalagsmönnum í þessu réttlætismáli og allt þar til fyrir nokkrum vikum að frumvörp stjórnar og stjórnarandstöðu komu fram var Alþb. eini flokkurinn sem flutt hafði tillögur í þinginu um fjármagnstekjuskatt. Það er sannarlega fagnaðarefni að nú skuli allir stjórnmálaflokkarnir viðurkenna nauðsyn þessarar skattlagningar. En ekki er sama hvernig að henni er staðið. Við alþýðubandalagsmenn höfum frá upphafi lagt áherslu á að reynt yrði að hlífa minni háttar inneignum til þess að slá ekki á sparnaðarviðleitni fjöldans, enda er þjóðinni nauðsyn á almennum sparnaði. Einnig höfum við talið sjálfsagt að vextir sem fólk greiðir af skuldum sínum kæmu til frádráttar vöxtum sem fólk fær greidda áður en skattur er á lagður.

Við viljum að farið sé með fjármagnstekjur eins og allar aðrar tekjur, þó þannig að einungis sé verið að skattleggja raunvexti en ekki verðtrygginguna, þ.e. einungis þá vexti sem umfram eru verðbætur. Jafnframt viljum við að allir framteljendur fái sérstakan persónuafslátt til að hlífa minni háttar sparnaði. Þannig þyngist skattbyrðin eftir því sem fjármagnstekjurnar eru meiri og skatturinn fellur með eðlilegum hætti inn í tekjuskattskerfið. Þetta er einmitt sú leið sem farin er í frumvörpum þriggja stjórnarandstöðuflokka. Þar er um að ræða nettóskatt. Áður en skatturinn væri á lagður yrðu vextir sem fólk þarf að greiða öðrum dregnir frá vöxtum sem það fær sjálft greidda. Aðeins yrði lagður skattur á 60% fjármagnsteknanna til að hlífa þeim hluta vaxtanna sem beint eða óbeint telst verðtrygging og það hlutfall yrði síðan endurskoðað árlega með hliðsjón af verðbólgu en síðan fengi hver einstaklingur þar að auki 40 þús. kr. sérstakan frádrátt og hjón 80 þús. kr. sem dregnar eru frá álögðum skatti, en það þýðir í reynd að minni háttar verðbréfaeign yrði áfram skattfrjáls.

Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar valið allt aðra leið. Þeir gera tillögu um flatan 10% brúttóskatt þar sem allar vaxtagreiðslur, stórar og smáar, yrðu skattlagðar. Varla getur neinum dulist að slík skattheimta er stórgölluð og mjög óréttlát. 10% brúttóskattur fæli í sér nýjar álögur á þá sem litlar inneignir eiga en hinir, sem mæla fjármagnstekjur sínar í hundruðum þúsunda eða jafnvel milljónum króna árlega, slyppu afar vel. En ofan á allt annað fylgir það 10% brúttóskattinum að skattur á arðgreiðslur af hlutafé á að lækka úr rúmum 40% í 10%. Þessi höfðinglega gjöf til þeirra sem eiga miklar eignir í hlutabréfum skyggir nánast á allt annað sem felst í frumvörpum stjórnarflokkanna því að þeir sem eiga mikið af hvoru tveggja, verðbréfum og hlutabréfum, vinna upp það sem þeir tapa á nýjum vaxtaskatti með lækkuðum skatti á arðgreiðslum og vel það því að margir munu stórhagnast á þessum skiptum.

[21:15]

Vegna þess að brúttóskatturinn lendir með fullum þunga á þeim sem litlar inneignir eiga er einmitt veruleg hætta á að skatturinn dragi nokkuð úr almennum sparnaði. Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, lýsti því yfir á dögunum að bankinn mundi greiða vaxtaskattinn fyrir viðskiptamenn bankans. Þessu gat bankastjórinn hótað í skjóli þess að stefnt er á flatan 10% brúttóskatt. Það er einmitt framkvæmanlegt fyrir bankann að borga skattinn fyrir þá sem eiga innstæður í bankanum vegna þess að um er að ræða einfaldan flatan brúttóskatt. Það gengi hins vegar ekki upp ef um væri að ræða nettóskatt með hæfilegum persónuafslætti. Hvar ætlar svo bankastjórinn að fá fjármagn til þess að borga þennan skatt fyrir viðskiptavini sína? Að sjálfsögðu hjá skuldurum bankans í formi hærri vaxta af útlánum.

Flatur brúttóskattur er og verður afar frumstæð og óréttlát skattheimta sem oft mun lenda á þeim sem síst skyldi. Langflestir sem eiga einhver verðbréf skulda jafnframt eitthvað, t.d. vegna íbúðakaupa. En þótt þetta fólk hafi í raun og veru engar tekjur af fjármagni vegna þess að það greiðir öðrum meiri vexti en það fær greidda, þá lendir það í þessum skatti af fullum þunga.

Brúttóskattur lendir einnig á fjöldamörgum aðilum sem hingað til hafa verið skattfrjálsir, t.d. á líknarstofnunum og styrktarsjóðum sem alltaf geyma nokkurt fé á vöxtum. Sama gildir um sveitarfélögin sem geyma rekstrarfé sitt í lánastofnunum. Þau lenda í þessum skatti. Þar að auki kemur lækkun arðstekna og tekna af söluhagnaði mjög þungt niður á þeim og rýrir tekjur þeirra um 300 millj. kr. en það á ekki við um frumvörp stjórnarandstæðinga sem beinlínis færa sveitarfélögunum 300--400 millj kr. í auknum tekjum.

Stór hluti verðbréfa, þar á meðal flest spariskírteini, eru þess eðlis að vextirnir eru lagðir við höfuðstólinn og koma ekki til útborgunar fyrr en bréfið fellur í gjalddaga. Af þessu leiðir að innheimta fjármagnsskatts gefur minni tekjur fyrstu árin. Það er þó engan veginn tapað fé heldur geymist sem inneign ríkis og sveitarfélaga og skilar sér með tíð og tíma. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar má gera ráð fyrir að heildartekjur samkvæmt frumvörpum stjórnarandstæðinga geti numið um 1.700 millj. kr. þegar innheimtan er komin í fullan gang. Frumvörp hæstv. ríkisstjórnar skila hins vegar aðeins um 1.000 millj. kr. miðað við sömu forsendur. Þessi mikli munur á tekjum samkvæmt þessum tveimur tillögum er einkar athyglisverður í ljósi þess að gjaldendurnir eru langtum færri samkvæmt okkar frumvörpum þar sem öllum minni háttar sparnaði er beinlínis sleppt með sérstökum persónuafslætti. Þrátt fyrir miklu færri gjaldendur skila frumvörp okkar 70% meiri tekjum sem einmitt sýnir í hnotskurn hvað frumvörp ríkisstjórnarinnar fara mildum höndum um þá sem telja verðbréfaeign sína í milljónum og tugum milljóna.

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að almenn lífskjör í landinu hafa versnað til muna og ójöfnuður aukist á seinustu fimm árum. Sótt hefur verið að fólki með lágar tekjur og miðlungstekjur úr tveimur áttum samtímis. Annars vegar hefur kaupmáttur launanna rýrnað mjög verulega en samtímis hefur skattbyrði á miðlungstekjur stóraukist með síminnkandi persónuafslætti og sílækkandi skattfrelsismörkum. Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt á það þunga áherslu undanfarin ár að flytja verði 5--7 milljarða kr. frá fjármagnseigendum, frá hátekjufólki og frá vel stæðum fyrirtækjum sem litla skatta greiða til lágtekjufólksins og til fólks með meðaltekjur með hækkun skattfrelsismarka, með millifærslu til foreldra á ónýttum persónuafslætti ungs fólks sem dvelst í heimahúsum og með sanngjarnri skattlagningu lífeyrisþega.

Frumvörp stjórnar og stjórnarandstöðu um fjármagnstekjur endurspegla gerólíkar stefnur í skattamálum á einkar skýran hátt og minna landsmenn um leið á nauðsyn þess að tekin sé hið fyrsta upp ný og réttlátari stjórnarstefna og skattalöggjöfin verði endurskoðuð í anda jafnaðar og sanngirni. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.