Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 23:20:33 (4940)

1996-04-17 23:20:33# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[23:20]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Spurning dagsins snýst um tvær leiðir til þess að skattleggja fjármagnstekjur landsmanna. Við höfum heyrt talsmenn beggja leiða tíunda sín rök. Þau hafa verið studd prósentutölum af ýmsum stærðum sem reka sig hver á aðra og því spurning hvort áheyrendur eru nokkru nær sannleikanum eftir en áður.

Það fer hins vegar ekki á milli mála að mörgum er heitt í hamsi og finnst vegið að réttlætinu, ekki síst 1. flm. þess frv. sem hér er til umræðu. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sparar ekki fullyrðingar um kosti sinna tillagna og um þær skelfilegu afleiðingar sem lögfesting frv. ríkisstjórnarinnar hefði. Hann er orðfimur baráttumaður og ég get ekki varist þeirri hugsun að mikið hefði ég viljað hafa hann með allan sinn skaphita og sannfæringarkraft í liði með okkur sem harðast börðust gegn matarskattinum á Alþingi veturinn 1987--1988. En því miður, þá var Jón Baldvin Hannbalsson fjmrh. og barðist fyrir matarskatti í nafni einföldunar, skilvirkni og réttlætis.

Herra forseti. Það er sanngirnismál að fólki sé ekki mismunað í skattlagningu eftir því hvort það hefur tekjur sínar af launaðri vinnu, lífeyri, fjármagni eða öðrum eignum. Fjármagnseigendum ber ekki síður en launafólki að standa undir kostnaði vegna þjónustu samfélagsins. Skattlagning fjármagnstekna er því réttlætismál. Þetta eru meginröksemdir flestra fyrir því að komið verði á fjármagnstekjuskatti.

Það hefur komið á daginn sem búast mátti við að skattlagning fjármagnstekna gengi ekki þrautalaust fyrir sig og reyndar er svo komið að vonir manna hafa nokkuð dofnað um að af því verði í þessari lotu. Sú lota hefur verið löng og ströng en leiddi þó til sameiginlegrar niðurstöðu fulltrúa allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins, sameiginlegrar niðurstöðu um leið að markinu. Nákvæmlega það atriði var afar merkileg niðurstaða. Hún markaði í raun tímamót í þessu máli. Þessi niðurstaða var að vísu ekki óskaleið allra, m.a. ekki þeirrar sem hér stendur. Ég hefði fremur kosið aðlögun fjármagnstekjuskatts að núgildandi tekjuskattskerfi í líkingu við það sem lagt er til í því frv. sem hér er til umræðu. Og ég hefði viljað nýta þær tekjur sem ríkið fengi af slíkum skatti til þess annaðhvort að hækka skattleysismörkin eða lækka skattprósentuna til að létta byrðar almennings. En það er hins vegar ekki lagt til í frv. formanna Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Sjálfsagt hugsar einhver að þar með væri unnið gegn einu af markmiðum skattlagningar á fjármagnstekjur sem er vitaskuld að afla tekna í ríkissjóð. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er sannfærð um að lækkun tekna af tekjuskatti einstaklinga mundi skila sér til baka að langmestu leyti í formi óbeinna skatta. Staðreynd málsins er hins vegar sú að um þessa leið, þ.e. skattlagningu fjármagnstekna á sama veg og annarra tekna, náðist ekki sátt. Ekki bara vegna þess að hvorki Sjálfstfl. né Vinnuveitendasambandið vildi fara þá leið, heldur var það beinlínis krafa Alþýðusambands Íslands sem það setti fram í tengslum við gerð kjarasamninga fyrir þremur árum að lagður yrði á einfaldur, lágur fjármagnstekjuskattur, ekki bara fjármagnstekjuskattur heldur einfaldur, lágur fjármagnstekjuskattur. Og þegar aðilar vinnumarkaðarins, sem eru kannski valdamestir allra í þjóðfélaginu, leggja saman og fá til liðs við sig forustumenn Sjálfstfl., þarf varla að spyrja að leikslokum. Það hefði í rauninni mátt gefa sér niðurstöðuna fyrir fram.

Það er líka staðreynd að báðar þær leiðir sem settar hafa verið fram á Alþingi, önnur í frv. ríkisstjórnarinnar, hin í frv. þriggja flokksformanna, hafa sína kosti og galla. Samkvæmt núgildandi skattkerfi eru vextir skattfrjálsir, arður er skattlagður með ákveðnu frítekjumarki, húsaleigutekjur með öðru frítekjumarki og söluhagnaður á enn annan hátt. Samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar verða allar fjármagnstekjur skattlagðar á svipaðan hátt og það eitt út af fyrir sig er kostur burt séð frá skattprósentunni. Að öðru leyti eru helstu kostir þeirrar leiðar sem ríkisstjórnin valdi að ráði nefndarinnar þeir að skattlagningin er tiltölulega einföld og auðskilin, leiðir til undanskots eru fáar og skatthlutfallið er ekki hærra en svo að skatturinn mun ekki hafa veruleg áhrif á fjármagnsmarkaðinn.

Í öðru lagi má nefna að breytingar á skattlagningu arðs munu að vísu leiða til lægri tekna ríkissjóðs af þeim sköttum en á móti er vonast til þess að það muni leiða til aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu. Um það eins og svo margt annað verður auðvitað ekki spáð með neinni vissu, það getur tíminn einn leitt í ljós. Helstu ókostirnir við þá leið sem ríkisstjórnin valdi eru hins vegar þeir að með skattlagningu nafnvaxta án frítekjumarks er ekki aðeins verið að skattleggja vexti heldur einnig verðbætur. Í öðru lagi tekur 10% flatur nafnvaxtaskattur ekki tillit til greiðslugetu nema að því leyti að þeir allra tekjulægstu munu geta nýtt sér vannýttan persónuafslátt.

Í þriðja lagi mun þessi leið við innheimtu fjármagnstekjuskatts hafa veruleg áhrif á tekjur sveitarfélaganna sem alls ekki mega við tekjutapi um leið og þau eru að taka við auknum verkefnum af ríkinu.

Í fjórða lagi er um að ræða nýtt skattkerfi sem hefur aukakostnað í för með sér. Að vísu er áætlað að sá kostnaður nemi aðeins nokkrum tugum milljóna, en það er engu að síður ókostur með tilliti til þess að skatturinn gefur ríkissjóði hlutfallslega litlar tekjur.

Helstu kostirnir við þá leið sem formannaþrennan valdi eru þeir að samkvæmt henni verða vaxtatekjur skattlagðar innan núverandi skattkerfis, þ.e. að þeim verður einfaldlega bætt við þær tekjur sem nú mynda skattstofn og því má segja að greiðslubyrðin verði fremur eftir efnum og ástæðum en samkvæmt þeirri leið sem lögð er til í frv. ríkisstjórnarinnar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir frítekjumarki vaxtatekna sem ætti að tryggja að verðbætur séu ekki skattlagðar og allnokkur sparnaður ber engan skatt.

Í þriðja lagi má gera ráð fyrir að þessi leið skili ríkissjóði meiri tekjum en hin leiðin auk þess sem hagur sveitarfélaganna er tryggður.

Helstu ókostirnir eru hins vegar þeir að svo virðist sem þessi leið verði talsvert flókin í framkvæmd og bjóði upp á nokkra möguleika til undanskota, t.d. með því að viðskiptum verði dreift á margar innlánsstofnair þótt ekki reikni ég með mörgum dæmum af þeirri stærðargráðu sem þingmaður Framsóknar, Gunnlaugur M. Sigmundsson, lýsti í ræðu sinni áðan.

Í öðru lagi er um tiltölulega stórt stökk að ræða sem hætt er við að valdi röskun á fjármagnsmarkaði, dragi úr innlendum sparnaði og stuðli að hækkun vaxta. Þetta mun einmitt vera meginástæðan fyrir því að ekki náðist sátt um þessa leið í nefndinni sem fyrr er til vitnað. Báðar þessar leiðir hafa verið settar fram á Alþingi að undangenginni mikilli vinnu og í samráði við sérfræðinga úr ýmsum áttum. Samt eru niðurstöðurnar jafnólíkar sem raun ber vitni og ólíkt mat á árangri og afleiðingum hvorrar leiðar fyrir sig. Alla þessa þætti, kosti og ókosti hvorrar leiðar fyrir sig, verður nú að meta enn einu sinni og freista þess að ná sátt um málið á Alþingi. Kvennalistakonur hafa unnið af heilindum að þessu máli og vilja mikið til vinna að koma því í höfn á þessu þingi.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Mér skilst að við þingmenn höfum unnið okkur það til óhelgi á þessu kvöldi að koma í veg fyrir sýningu eins vinsælasta þáttar ríkissjónvarpsins sem ber það ágæta nafn Bráðavaktin. Málsbætur okkar kunna hins vegar að vera fólgnar í því að hér á Alþingi er nú vandræðabarnið fjármagnstekjuskattur komið á eins konar bráðavakt. Við skulum vona að það deyi ekki í höndunum á okkur vegna skorts á sanngirni og samkomulagsvilja. --- Ég þakka áheyrnina og býð góða nótt.

[23:30]