Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 10:58:36 (5004)

1996-04-19 10:58:36# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[10:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni fyrir þessa þáltill. Það er mjög nauðsynlegt að við könnum af hverju íslensk fyrirtæki geti ekki greitt hærri laun. Ég hygg að það sé nokkuð fleira en hv. þm. kom inn á sem kemur þar að.

Það er í fyrsta lagi arðsemiskrafa. Við höfum búið við það í fjölda ára, í áratugi að ekki hefur tíðkast að gera arðsemiskröfu í íslenskum fyrirtækjum. Það hefur meira að segja þótt ljótt að græða og þessi afstaða hefur leitt til þess að ekki er gerð krafa um arðsemi í fyrirtækjum sem leiðir til þess að stjórnunin verður slæleg. Það er meira litið á önnur sjónarmið en að vinnan skili arði og það hefur leitt til minni framleiðni. Þetta er einn þátturinn.

Annar þátturinn er eins og hv. þm. kom réttilega inn á skortur á samkeppni. Samkeppni á milli iðnaðarmanna, sem selja þjónustu, og samkeppni á milli fyrirtækja, sem selja vöru, skortir illilega. Það er mjög lítið um samkeppni í íslensku atvinnulífi.

Síðast en ekki síst er alla vega eins og stendur allt of lítil fjárfesting í atvinnulífinu og það er vegna þess eins og komið hefur fram í umræðum um fjármagnstekjuskatt að mönnum er hreinlega bannað að veita atvinnulífinu áhættufé eins og skattalögum er háttað í dag. Það verður væntanlega breyting á.

[11:00]

Það er annað sem líka kemur til. Það er ekki bara lítil fjárfesting á Íslandi, heldur hefur hún verið afspyrnuléleg. Fjárfestingin hefur verið mjög léleg. Rétt áðan vorum við að tala yfir brú yfir Grunnafjörð. Það er ekki rætt um arðsemi þeirrar fjárfestingar. Auðvitað þurfum við að gera kröfu um arðsemi fjárfestinga, jafnt opinberra sem annarra. Það sem við líðum fyrir í dag er léleg, opinber fjárfesting, líka fjárfesting einstaklinga og fyrirtækja.

Einstaklingar hafa fjárfest mikið í íbúðarhúsnæði, allt of stóru. Fyrirtækin hafa fjárfest í húsnæði og í röngum atvinnurekstri. Ríkið hefur fjárfest í óskaplega röngum fjárfestingum, t.d. Kröflu, Blöndu og sitthvað fleira. Svo hefur sjávarútvegurinn fjárfest í allt of stórum flota. Þetta er það sem lífskjörin líða fyrir. Það verður að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Ég styð eindregið að það verði kannað á milli landa hver ástæðan er fyrir því að íslensk fyrirtæki borga jafnskammarlega lág laun og þau gera í dag.