Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:26:56 (5013)

1996-04-19 11:26:56# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:26]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka Gunnlaugi Sigmundssyni fyrir að hafa flutt þessa þáltill. hér og vona að þetta komist til framkvæmda. Ég veit, eins og minnst hefur verið á hér að hann hefur góð sambönd meðal ráðamanna sem gætu framkvæmt þessa könnun. Það er ekki ólíklegt að hún verði gerð. Vonandi verður það til góðs og vonandi verður það til þess að menn noti þá niðurstöðurnar til þess að reyna að bæta lífskjörin á Íslandi í samræmi við það sem þarna kemur í ljós.

En það er annað sem mig langaði að minnast á. Hv. þm. talaði um að ef það væri nógur arður í fyrirtækjum, ef þau gengju nógu vel, gætu þau greitt hærri laun.

Nú er það svo að fyrirtæki ganga afskaplega misjafnlega vel. Á sama tíma og eitt ágætt fyrirtæki á Suðurnesjum var t.d. í fréttum vegna velgengni á Japansmarkaði og heilmikils gróða var sömuleiðis í fréttum á Suðurnesjum að þeim gengi afskaplega illa að ráða fólk til vinnu. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Það er vegna þess að þeir borga bara þau laun sem eru umsamin af stéttarfélögunum, rétt rúmar 300 kr. á tímann og lítið umfram það. Það er mjög erfitt að fá fólk út af atvinnuleysisskrá, til að koma börnum sínum fyrir í gæslu með ærnum til kostnaði og fara að vinna á launum sem fyrir fulla dagvinnu gefa lítið meira en atvinnuleysisbætur.

Þetta er ekki svo einfalt mál. Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram frv. um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem gert er ráð fyrir vinnustaðarfélögum. Sjálfsagt sjá ýmsir það í hillingum að menn sitji þar í huggulegheitum og semji við framkvæmdarstjórann sinn um launin sín. En það verður ekki þannig. Það má að vísu búa til vinnustaðarfélag en það verður veskú að semja við Þórarin Viðar um launin. Það er nefnilega þannig að samkvæmt öllum lögum og venjum verða fyrirtæki að borga laun eða eiga að borga laun samkvæmt launatöxtum og þeir skulu gerðir við Garðastrætið.

Varðandi samanburð á lífskjörum fór ég á vegum kennarasamtakanna fyrir tveimur árum á norræna ráðstefnu þar sem við áttum að ræða launakjör kennara. Það var sameiginlegt með öllum sem þarna voru saman komnir að þeir voru heldur óhressir með laun kennara. En það horfðu þó allir á mig stórum augum þegar ég dró upp nestið, sem átti að vera nákvæm útlistun á launum kennara á Íslandi reiknað yfir í sænskar krónur, og í ljós kom að íslenskir kennarar voru á helmingi lægri launun en nokkrir aðrir. Þarna var reyndar miðað við fólk sem er í hæsta launaflokki sem hægt er að komast í sem almennur kennari. Mér fannst svona allt að því jaðra við að menn lýstu mig ósannindamann þegar ég kom með þessar tölur. Þetta gæti ekki verið. Skýringin hlyti að vera sú að það væru engir skattar á Íslandi, rafmagnið væri frítt o.s.frv. Það virðast alls konar svona hugmyndir vera í gangi um Ísland, en ég gat heldur betur leiðrétt það. Ég vona að það verði t.d. rannsakað í þessari ágætu könnun sem væntanlega verður gerð hvernig launakjörum kennara er háttað á Norðurlöndum.