Friðlýsing Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 13:11:34 (5032)

1996-04-19 13:11:34# 120. lþ. 123.13 fundur 373. mál: #A friðlýsing Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum# þál., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:11]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef náttúrlega ekki miklu við að bæta. Ég vildi þakka hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir stuðning þeirra og ábendingar sem voru góðar og koma vonandi að gagni við umfjöllun málsins. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fjallaði um tillögu sína sem ég reyndar kynnti mér eins og kom fram í máli mínu áðan, kynnti mér áður en ég ákvað að leggja fram þessa tillögu, (HG: Samþykkt Alþingis.) samþykkt Alþingis sem var tillaga hv. þm. Því miður er framkvæmd ályktana Alþingis oft og tíðum ábótavant en ég vonast til þess að þetta tilefni geti kannski orðið til þess að við leggjumst á eitt um það að reyna að þrýsta á um að það dragist ekki úr hömlu að ljúka framkvæmd þessarar ályktunar því að það er mjög nauðsynlegt að fá heildaráætlun um nýtingu og verndun þessara auðlinda okkar.

Þó að ég taki vissulega undir að það þurfi að fá ályktunina framkvæmda og áætlun um verndun auðlindanna, þá taldi ég það ekki draga úr mikilvægi þess að Alþingi kvæði upp úr með afstöðu sína um þessar tvær ár. Það má kannski vonast til þess að Hvítá/Ölfusá sé ekki í mikilli hættu eins og stendur vegna sinnar forsögu, en okkur er auðvitað öllum fullkunnugt um þær hugmyndir sem hafa verið uppi um nýtingu þess mikla afls sem býr í Jökulsá á Fjöllum. Líklega megum við vera ævarandi þakklát fyrir hve hægt hefur gengið að finna tilefni til virkjana meðan ekki var jafnríkur skilningur og nú á þeim vermætum sem felast í ósnortinni náttúru.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom með ýmsar góðar athugasemdir og ábendingar. Hann talaði m.a. um ósnortin víðerni og kom þar raunar inn á efni annarrar tillögu sem ekki er vitað hvort ég fæ tækifæri til að mæla fyrir á þessu þingi. Hann tók svo til orða að við værum það vel í sveit sett á Íslandi að hafa enn þá möguleika á miklum flæmum ósnortinna víðerna. En það er spurning hversu stór svæði það eru í raun og veru. Þess vegna er nauðsynlegt að skilgreina þessi hugtök og gera sér grein fyrir hversu víðar lendur þetta eru í raun og veru sem talist geta ósnortin víðerni. En vitaskuld skiptir það mjög miklu máli fyrir okkur, fyrir landið og ímynd þess að við erum í hópi fárra þjóða sem eiga land af þessu tagi sem við getum státað okkur af.

Hann kom einnig inn á tengsl við sögu landsins sem skiptir okkur einmitt miklu máli. Og þá rifjast upp fyrir okkur væntanlega að samþykkt var tillaga Kvennalistans um tengsl ferðaþjónustu við sögu. Það var unnin og kom út skýrsla sem benti á margar leiðir til þess að tengja sögu landsins og náttúru þess við ferðaþjónustu.

Ég vil að lokum, herra forseti, minnast á að ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu þar sem ég lýsti efni þessarar tillögu og það kom mér þægilega á óvart hversu góð viðbrögð ég fékk frá fólki úti í þjóðfélaginu. Það styrkti þá trú mína að það sé vaxandi skilningur og áhugi á því að vernda þær auðlindir sem felast í ósnortinni náttúru landsins því að það er ekki síður auðlind en það þegar þessi öfl hafa verið beisluð.

[13:15]