Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:16:04 (5035)

1996-04-19 14:16:04# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu taka undir það að við erum fylgjandi því að draga úr vígbúnaði og ekki síst að útrýma ógnarvopnum á borð við kjarna- og eiturvopn. Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um stöðina í Sellafield sem tengist kannski ekki beint kjarnorkuvopnum en meðferð kjarnorku og kjarnorkuúrgangs. Þar er um mjög alvarlegt mál að ræða. Það sem hann vitnaði hér til byggir á bók um stöðina sem nýlega kom út í Bretlandi. Hún er mikil að vöxtum, um 300 blaðsíður, og er mjög upplýsandi lesning. Og ef það er allt rétt sem þar stendur og byggir á reynslu aðila sem starfaði við þessi mál, þá er ástandið þar alvarlegra en kannski margur hyggur.

Það er ljóst að þar varð slys 1957 ef ég man rétt og talið að það hafi leitt til þess að fjöldi manns hafi látist úr krabbameini. Það hafa því orðið þar alvarleg slys ef allt er rétt með farið. Einnig hafi þar orðið leki í haf út og í síðasta lagi hafi legið þar eitt sinn við mjög alvarlegu slysi, sem var að sjálfsögðu slys, en hefði getað leitt til mjög öflugrar kjarnasprengingar.

Þetta er að sjálfsögðu allt saman mjög alvarlegt þannig að að sjálfsögðu ber okkur að taka þessi mál af mikilli alvöru og sinna þeim í alþjóðlegu samstarfi.

Ég er þeirrar skoðunar að leiðir til að fást við afvopnun almennt og þá náttúrlega ekki síst í sambandi við þau vopn sem hér er verið að tala um, sé fyrst og fremst leið samninga en ekki einhliða yfirlýsinga eða lagasetninga í einstökum löndum. Þetta vil ég taka skýrt fram. Það er rétt að taka það fram í þessu sambandi að gífurlegur árangur hefur náðst í afvopnunarviðræðum undanfarin ár þrátt fyrir allt og vonir standa til að frekari árangur náist á næstunni. Dæmi um hið fyrra eru stórveldasamningar um stórkostlegan niðurskurð kjarnavopna eins og við þekkjum, samningur um hefðbundin vopn í Evrópu, efnavopnasamningur sem Ísland hefur undirritað. Einnig má nefna samning gegn útbreiðslu kjarnavopna, svokallaðan NPT-samning sem á að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnavopna. Það standa vonir til að hægt verði að ná samningum um bann við tilraunasprengingum sem Ísland styður heils hugar, eða svokallaðan samning um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sem hefur nokkuð hægt á vegna kjarnorkusprenginga Frakka. Þeir eru nú sem betur fer hættir því og jafnframt Kínverjar.

Hvað efnavopn varðar þá eru bundnar vonir við að efnavopnasamningurinn eða samningurinn um bann við framleiðslu, geymslu og notkun efnavopna taki gildi fyrir lok þessa árs. Það hafa 49 ríki staðfest þennan samning og vonandi getum við hér á Alþingi gert það sem fyrst og að því er stefnt.

Þótt þessi mikli niðurskurður hafi átt sér stað á kjarnorkuvopnum, þá verður að taka það fram og segja þá sögu eins og hún er að kjarnorkuvopn eru veigamikill þáttur í varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Í skýrslu þeirri sem gerð var á síðasta ári varðandi skilyrði þau sem hugsanleg ný aðildarríki þurfa að uppfylla til að aðild þeirra komi til greina, og þessi skýrsla hefur verið gerð opinber, þá er með nokkrum orðum vikið að kjarnorkumálum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Mikilvægasta trygging öryggis aðildarríkja bandalagsins felst í kjarnorkuviðbúnaði. Ný aðildarríki munu njóta og bera ábyrgð á þeim viðbúnaði eins og önnur aðildarríki í samræmi við varnaráætlanir. Til þess verður að ætlast af nýjum aðildarríkjum að þau styðji fælingarstefnu og það þýðingarmikla hlutverk sem kjarnavopn gegna í varnarstefnu bandalagsins eins og hún er sett í fram í varnaráætlun þess. Ísland hlýtur sem aðili að Atlantshafsbandalaginu að sýna ábyrga samstöðu með bandamönnum sínum, bæði núverandi og væntanlegum. Auk þess er það deginum ljósara að einhliða aðgerðir og yfirlýsingar einstakra þjóða og þá ekki síst vopnlausra þjóða skipta afar litlu hvað varðar raunhæfan árangur. Við Íslendingar eigum og munum nú eftir sem áður og í framtíðinni styðja alla viðleitni á alþjóðavettvangi til friðar og til afvopnunar.``

Við Íslendingar höfum ítrekað oft að kjarnavopn skuli ekki staðsett í íslenskri löghelgi. Á þeirri stefnu er engin breyting. En að mínu mati er ekki hægt að samþykkja lagafrv. það sem hér er til umræðu eins og það er fram sett og fram komið, því að það hefði í för með sér sjálfkrafa að við yrðum ekki aðilar að sameiginlegri varnarstefnu og búnaði Atlantshafsbandalagsins ef til ófriðar kæmi. Það er því að mínu mati rökrétt framhald á þessu máli, ef lagafrv. þetta verður samþykkt sem við höfum að sjálfsögðu allan rétt til að gera og hlýtur að verða ákvörðunaratriði Alþingis Íslendinga, að það væri eðlilegt næsta skref að Íslendingar segðu sig úr Atlantshafsbandalaginu eða segðu sig úr NATO. Og það liggur alveg ljóst fyrir að ég er andvígur því og ég vænti þess að meiri hluti Íslendinga sé andvígur því. Af þeim ástæðum er ég andvígur þessu frv.