Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:44:08 (5041)

1996-04-19 14:44:08# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:44]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að mér finnst það hafi orðið í þessari umræðu nokkur kaflaskil í stjórnmálasögunni. Það er þannig að einn tiltekinn flokkur, sem heitir Framsfl., hefur haft það fyrir stefnu á undanförnum áratugum í utanríkismálum að reyna svona að finna meðalhófið má segja eða það sem hann hefur kallað meðalhófið. Það hefur verið lögð á það áhersla að reyna að byggja saman röksemdir báðum megin frá, annars vegar frá vinstri og hins vegar frá hægri eins og er títt með miðjuflokka. Ég er ekki að segja að það hafi alltaf tekist mjög vel hjá framsóknarmönnum vegna þess að það er erfitt að vera meðaltal, en eins og hæstv. utanrrh. benti á í útvarpsumræðunum um daginn, þá er hann á móti meðaltölum. En ég vissi ekki að það gengi svo langt að hann væri búinn að afnema Framsfl. sem miðjuflokk. En hann var að því hér áðan. Það er mjög merkilegt umhugsunarefni vegna þess að af því að hann var að vitna til þeirra flokka sem víðs vegar í heiminum hefðu þessa eða hina skoðun á utanríkis- og öryggismálum, þá hygg ég að miðjuflokkar, frjálslyndir flokkar víða í heiminum séu t.d. gjarnan tiltölulega hlynntir þeim almennu sjónarmiðum í utanríkismálum sem koma fram í þessu frv. og voru ágætlega rakin í framsöguræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og einnig í síðustu ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur.

Frá þeim tíma þegar Steingrímur Hermannsson gegndi forustu í Framsfl. og til dagsins í dag hafa orðið mikil kaflaskil. Það er ekki hægt að neita því. Steingrímur Hermannsson, fyrrv. formaður Framsfl., skrifaði t.d. upp á þetta mál á sínum tíma og var meðflutningsmaður að því og ég man ekki betur en hv. þm. Páll Pétursson hafi gert það líka, núv. hæstv. félmrh. Það er því bersýnilega búið að setja hann í bann líka í utanríkismálum nema hann hafi skipt um skoðun, hæstv. félmrh. Það skal ég ekkert um segja. En það eru ákveðin kaflaskil í þessu efni og mér verður hugsað til þess þegar Steingrímur Hermannsson gengdi embætti utanrrh. á árunum 1987--1988. Þá var ekki verið að skafa utan af hlutunum og þá var nú ekki alltaf verið að fylgja línunni frá Ameríkananum og NATO og húsbændum þar á bæ. Það er mér mjög í minni vegna þess að ég sat þá einmitt haustið 1987 í fyrstu nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðana, stjórnmálanefndinni, sem greiddi þá atkvæði um fjöldamörg mál sem áður höfðu verið í algeru banni af hálfu hægri aflanna m.a. hér á Íslandi. Og aftur og aftur kom það fyrir að hæstv. þáv. utanrrh., Steingrímur Hermannsson, tók af skarið um það að það ætti að breyta afstöðu Íslands til þessara mikilvægu mála. Það voru ákveðin kaflaskipti í utanríkispólitíkinni þegar hann tók við utanrrn. á árinu 1987. Ég hygg að það hafi verið Sjálfstfl. sem hafði farið með utanrrn. næst á undan, þ.e. Geir Hallgrímsson og síðan Matthías Á. Mathiesen ef ég man rétt, á kjörtímabilinu 1983--1987. Það töldu því margir að hefði heldur birt til að því er varðaði afstöðu Íslands til utanríkismála á árunum 1987--1988 undir forustu formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar.

Nú er búið að bannfæra sjónarmið hans í Framsfl. Nú er búið að slá því föstu af formanni Framsfl. að það að styðja t.d. tillögu af þessu tagi jafngilti a.m.k. því að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu. Og þess vegna, segir hæstv. utanrrh., er ég á móti málinu. Þar með er hann á móti Steingrími Hermannssyni forvera sínum og kemur svo sem engum á óvart, en líka á móti hæstv. félmrh. Páli Péturssyni.

Þetta segi ég, hæstv. forseti, líka minnugur þess --- ég var að hugleiða það áðan, einmitt þegar ég heyrði athyglisverða ræðu hæstv. ráðherra, þá sló það allt í einu fyrir í höfðinu á mér: Ja, hvað minnir þetta helst á? Ég verð að játa það að þetta minnti á þau viðhorf sem ríktu í utanrrn. á árunum 1983--1987. Satt að segja minnti það ákaflega mikið á þau viðhorf sem svona hörðustu talsmenn Sjálfstfl. höfðu uppi á þeim árum. Og það má segja að að því leytinu til hafi ræðan verið heimilisleg, að hún minnti mann á þau viðhorf sem tíðkuðust í þessum sal á árunum 1983--1986. En að öðru leyti var hún heldur slæm vegna þess að hún boðaði það að Framsfl. hefur ákveðið að skipta um herbúðir. Framsfl. ætlar ekki lengur að nálgast þessi mál með opnum hætti eins og Steingrímur Hermannsson mótaði stefnu um á sínum tíma, heldur ætlar Framsfl. bersýnilega að skipa sér í hægri herbúðirnar í utanríkismálum. Formaður Framsfl. minnir ekki á neitt annað en kalda stríðið og það eru satt að segja heldur dapurleg örlög verð ég að segja alveg eins og er, svo að ég vitni nú í fyrrv. formann Framsfl. að því er orðalag varðar. (VS: Hefur heimurinn nokkuð breyst á tíu árum?) Ég verð að segja það, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Ég verð að segja það.

Á sama tíma og þetta liggur fyrir þá er heimurinn að breytast nákvæmlega eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur allt í einu uppgötvað. Heimurinn er að breytast. Hann hefur breyst í grundvallaratriðum. Það er búið að leggja niður heilu hernaðarbandalögin. Það var sagt frá því í fréttum 1. apríl eitt árið að það væri búið að leggja niður Varsjárbandalagið. Það hélt enginn að þetta væri aprílgabb. Það vissu allir að þetta var veruleiki. En það var þriðja eða fjórða frétt í fréttum Ríkisútvarpsins á Íslandi. Atlantshafsbandalagið og þar á bæ hafa menn verið að ræða um breytingar. Við höfum séð það í skýrslum þingmannanefndar Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu eða þingmannanefndar NATO eða hvað þau nú heita þessi samtök, að menn eru óðum að leita að nýju hlutverki, eru auðvitað í vandræðum, eru í tilvistarkreppu, en þar eru menn að leita að nýju hlutverki fyrir Atlantshafsbandalagið. Og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem situr hér úti í sal mér til mikillar ánægju og gaman að hafa hann hérna fyrir augunum, hefur einmitt tekið þátt í þessari hlutverkaleit fyrir Atlantshafsbandalagið. Það er sérstaklega ánægjulegt að hann skuli gera það vegna þess að hann hefur svo góða reynslu af því að berjast á móti Atlantshafsbandalaginu frá því fyrr á öldinni þegar við vorum báðir yngri en við erum núna.

Af hverju nefni ég þetta, hæstv. forseti? Vegna þess að í ljósi þessa nýja veruleika hefði maður kannski haldið að það gæti orðið til heimur þar sem menn færu öðruvísi í hlutina, þar sem fyrirkomulag öryggis- og friðarmála væri öðruvísi en það er í dag eða var á kaldastríðsárunum, að það væri að opnast ný sýn til öruggara lífs fyrir jörðina en var um áratuga skeið. Og maður hefði kannski haldið að einmitt í þessari stofnun væru framsóknarmenn vísir til þess að reyna að leiða þingið að samnefnara fyrir þjóðina alla og þingið um utanríkismál. Vegna þess að einmitt á þessum tímum er staðan þannig að það væri ástæða til þess að gera sér grein fyrir þeim veruleika að það er örugglega hægt ef rétt er á þessum hlutum haldið af hálfu utanrrn., að finna samnefnara sem fleiri eru sammála um í utanríkismálum á Íslandi heldur en nokkru sinni hefur áður verið. Það bara vill svo hrapallega til að sá sem lenti í því að vera formaður Framsfl., og ég tala ekki um utanrrh., ákveður að stíga til hægri og er orðinn hægra megin a.m.k. við þá tvo alþýðuflokksmenn sem skrifa upp á þetta plagg, hv. varaformann Alþfl. og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (MS: Er þá mikið sagt.) Og er þá nokkuð sagt. Ég segi ekki mikið en talsvert sagt. (Gripið fram í: Hver kallaði?) Það var hv. þm. Magnús Stefánsson sem kallaði fram í og sagði: Er þá mikið sagt, og ég mótmælti því eins og hv. þm. hefur vonandi tekið eftir.

Ég hef oft talað fyrir því hér að það verði sett af stað ítarleg umræða um þróun utanríkismála í þessari stofnun. Ég er ekkert að segja að þetta plagg frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Össuri Skarphéðinssyni og fleirum ætti að vera eina plaggið sem lægi til grundvallar þeirri umræðu. En ég tel að þetta skjal sem hér liggur fyrir gæti mjög vel verið grundvöllur þessarar umræðu. Ég tel að það sé mikilvægt atriði sem fram kom í framsöguræðu hv. 1. flm. áðan. Hann telur að það eigi að taka tíma í málið, það eigi að skoða málið og það eigi að fara yfir málið á milli flokkanna, í utanrmn. og á öðrum vettvangi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eða flutningsmenn frv. eru ekki að biðja um að þetta verði afgreitt á morgun, heldur eru þeir að fara fram á að málið verði tekið til alvarlegrar umræðu og athugunar í utanrmn. og í utanrrn. og ekki síst af hæstv. utanrrh. Þess vegna hrekkur maður dálítið við þegar hlutirnir þróast allt í einu þannig að hæstv. utanrrh. setur bann á málið. Hann segir: Ég er á móti málinu. Og ef það væri greitt atkvæði um málið hér á eftir, þá mundi hæstv. utanrrh. greiða atkvæði á móti því vegna þess að hann telur þetta hið versta mál. Hann vill helst ganga frá því og helst ekki sjá það í þessari stofnun vegna þess að væntanlega hefur hann haft áhrif á það að þingmenn Framsfl., aðrir en Steingrímur Hermannsson og Páll Pétursson sem voru á þessu í den, skrifa ekki upp á það núna. Hv. formaður Framsfl. hefur væntanlega beitt sér á móti því að nokkur framsóknarmaður þyrði að skrifa upp á skjalið eða hvað? Ég spyr. Hvernig var það þegar málið var tekið fyrir í þingflokki Framsfl.? Hvað gerðist þar? Var málið kannski ekki tekið fyrir þar? Ég hef heyrt að það hafi verið rætt þar hvort að málið ætti að flytja, og að hv. formaður Framsfl. hafi bannað mönnum að vera á skjalinu vegna þess að það væri guðlast að skrifa upp á plagg af þessu tagi af því að það væri á móti hans heilagleika NATO-páfanum og því öllu saman.

Ég tel, hæstv. forseti, að þetta séu nokkuð alvarleg kaflaskil og ástæða til að vekja rækilega athygli á þeim. Ég held að það sé sérstök ástæða til að vekja athygli á þeim gagnvart þeim þúsundum kjósenda Framsfl. sem hafa á undanförnum áratugum vanið sig við það að þar væri hátt til lofts og vítt til veggja í þessu máli, vanið sig við þá hefð, þá tradisjón sem þar var mótuð af Hermanni Jónassyni, Eysteini Jónssyni og Steingrími Hermannssyni. En það er bersýnilegt að sú hefð á ekki lengur upp á pallborðið. Það hafa orðið kaflaskil og ég votta Framsfl. samúð með þessa niðurstöðu og vona að menn hafi ástæðu til að ræða þessi mál ítarlegar síðar. Það eru vissulega tíðindi þegar formaður Framsfl. ákveður að hann hætti að vera miðjuflokkur í utanríkismálum og verður hægri flokkur. Það er merkilegur dagur í dag, hæstv. forseti.