Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:40:52 (5083)

1996-04-22 15:40:52# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Þeir atburðir sem nú eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs eru í senn hryggilegir, hörmulegir og fordæmanlegir og við hljótum að taka hér eindregið undir þau mótmæli sem ríkisstjórn Íslands hefur fram borið og gera kröfu til þess að þeim verði fylgt eftir af fullri alvöru, hvar sem unnt er að koma slíkum mótmælum á framfæri.

Sú var tíðin að hér á Alþingi Íslendinga var rætt mjög einhliða um málefni fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar var samúðin fyrst og fremst með Ísraelsmönnum og það gleymdist til hvers framferði þeirra oft á tíðum hafði leitt fyrir nágrannana og hvernig þar var hellt olíu á eld og alþjóðalög brotin. En Alþingi rak af sér slyðruorðið með sérstakri samþykkt vorið 1989 og það mætti segja að hluti af þeirri samþykkt sé í fullu gildi einmitt nú þegar þessir atburðir gerast. Ég leyfi mér að vitna hér til kafla úr henni þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi skorar á ísraelsk stjórnvöld að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggur áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Nauðsynlegt er að báðir aðilar forðist ofbeldisverk.``

Þetta var samþykkt hér á Alþingi, ég held samhljóða, 18. maí 1989, um leið og Alþingi lagði áherslu á í sömu ályktun að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis og lýsti þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO. Þetta var tímamótasamþykkt og breytti algerlega umræðunni hér á Alþingi um þessi mál.

Ég hvet hæstv. utanrrh. til þess að fylgja ályktunum ríkisstjórnarinnar eftir og ég minni á að það eru í rauninni engar afsakanir sem hægt er að bera fram Ísraelsstjórn til málsbóta þessa dagana eins og hún hagar sér gagnvart þeim sem greinilega eru hernaðarlega minni máttar í þessum leik í nágrannaríkinu.