Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 16:47:28 (5091)

1996-04-22 16:47:28# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[16:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum í dag fjallar um aðlögun og breytingu að tilskipun ESB um eigið fé, eftirlit með og áhættudreifingu innlánsstofnana. Þær eru sjálfsagðar og til bóta. Þó verð ég að gera athugasemd við tvö atriði í áliti meiri hluta efh.- og viðskn. sem ég skrifaði undir. Ég skrifaði þess vegna undir nefndarálitið með fyrirvara. Þessi atriði eru annars vegar skipting tryggingarsjóða í tvennt og hins vegar heimild til ríkisviðskiptabanka að endurfjármagna víkjandi lán sín.

Herra forseti. Í reglum ESB er gert ráð fyrir að stofnsettir séu og starfræktir tryggingarsjóðir við innlánsstofnanir sem tryggi innstæður undir 1,7 millj. kr., þ.e. 20 þús. ECU. Ekki kom fram í nefndarstarfinu hvað mundi gerast ef þessir sjóðir dygðu ekki fyrir töpum. Þó má óbeint lesa úr tilskipuninni að þá beri ríkissjóður ábyrgð. Með því að hafa tvo tryggingarsjóði getur annar lent í greiðsluvanda og tæmst og ekki staðið við skuldbindingu sína að borga tjón upp á 1,7 millj. og lendir tjónið þá á ríkissjóði þó að hinn tryggingarsjóðurinn sé fullur af fé. Þannig að þetta fyrirkomulag, að hafa tvo tryggingarsjóði í ekki stærra efnahagskerfi, getur valdið ríkissjóði tjóni.

Annað atriðið er breyting sem hefur ekkert með tilskipanir ESB að gera og varðar heimild ríkisviðskiptabanka til að taka víkjandi lán. Hér hefur nokkuð mikið verið rætt um víkjandi lán og kannski ekki nægilega vel skilgreint. En það er millistig á milli hlutafjár og lánsfjár í venjulegum hlutafélögum. Eingöngu er heimilt að greiða af víkjandi láni ef fyrirtæki hefur staðið við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum lánveitendum og það kemur því næst á undan hlutafé til endurgreiðslu. Munurinn á því og hlutafé er sá að víkjandi lán ber fasta vexti en af hlutafé er greiddur arður eftir aðstæðum og hag félagsins hverju sinni. Víkjandi lán er því eðli sínu samkvæmt millistig á milli hlutafjár og lánsfjár.

En hvað þýðir víkjandi lán hjá ríkisviðskiptabanka sem hefur ríkisábyrgð? Þá gerist dálítið merkilegt. Þá er ríkisábyrgð á þessu víkjandi láni og það er þar af leiðandi ekki víkjandi. Það verður alltaf greitt. Það er ekki nándar nærri sama áhætta að veita ríkisviðskiptabanka með ríkisábyrgð víkjandi lán og að veita hlutafélagi víkjandi lán þar sem áhættan felst í því að fyrirtækin geti ekki borgað. Þvílíkur pappír er í rauninni ríkisskuldabréf. Hér hefur áður verið rætt um um áhrif víkjandi lána á efnahag, þ.e. efnahagurinn getur vaxið um 1:8% eða um 12,5-falt þannig að milljarður í víkjandi lán til ríkisviðskiptabanka eða til banka yfirleitt þýðir að BIS-reglurnar leyfa 12,5 milljarða í útlán.

Þetta ákvæði snýr eingöngu að Landsbanka Íslands þar sem ríkisviðskiptabankarnir hafa ekki fengið víkjandi lán, þ.e. Búnaðarbankinn hefur ekki fengið víkjandi lán.

Eins og lausnin fannst hjá meiri hluta efh.- og viðskn. var um það að ræða að Landsbankanum skyldi vera heimilt að endurfjármagna greiðslur af víkjandi lánum. Greiðslur sem hann átti að inna af hendi á árabilinu 1994--1997. Samtals tæplega milljarður kr. Í samræmi við núgildandi lög, þ.e. ákvæði sem verða ekki tekin út, á að standa áfram um að slíkar fjárveitingar eða slíka heimild til þess að taka víkjandi lán skuli bera undir Alþingi vil ég undirstrika að með samþykki brtt. meiri hlutans er í reynd verið að samþykkja slíka heimild. Þ.e. Alþingi er að veita slíka heimild og er það algerlega í samræmi við ákvæði laganna.

Þessi heimild styrkir eiginfjárstöðu Landsbankans á þessu árabili um nálægt milljarð og þess var eindregið óskað af bankastjórn Landsbankans og það aðeins þremur árum eftir að björgunaraðgerðunum miklu 1993 lauk sem áttu að vera endanlegar. Rökstuðningurinn var m.a. að það er hugsanlegt að BIS-reglurnar verði skertar þannig að vissar eignir sem teljast nú til eigin fjár teljist ekki til eigin fjár ef BIS-reglum verður breytt og til að mæta því í framtíðinni var ákveðið að fara fram á þessa heimild.

Meginvandinn á bak við þetta er of lítill hagnaður bankanna. Það er of lítill hagnaður íslenskra banka og þá sérstaklega Landsbankans sem hefur ekki hagnað til þess að geta staðið við að greiða af þessu víkjandi láni þannig að eigið fé minnkar ár frá ári.