Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 21:28:58 (5103)

1996-04-22 21:28:58# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[21:28]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvernig umræðan átti sér stað í nefndinni. En ég man það mjög glögglega að á fund nefndarinnar kom Halldór Guðbjarnason, einn af aðalbankastjórum Landsbankans, og fór yfir þetta með nefndarmönnum. Hann gerði grein fyrir því að samkvæmt þeim samningum sem Landsbankinn væri með þá stefndi í það að hann þyrfti að greiða á þessu tímabili a.m.k. tvisvar sinnum 250 millj. kr. niður af sínum víkjandi lánum. Eins og við höfum farið yfir gagnvart reglunum mundi það þrengja útlánagetu hans um rúma 6 milljarða núna á örskömmum tíma. Mér fannst því alveg ljóst að í þeim umræðum kæmi fram að þetta hefði veruleg áhrif fljótlega og það var með tilliti til þessarar þarfar bankans sem ég mótaði fyrst og fremst mína afstöðu. Ég taldi rétt og skynsamlegt að heimila bankanum a.m.k. að fara upp í sömu upphæð og hann hafði áður. Það er ekki verið að gera neitt meira en hann hafði áður vegna þess að við höfum líka skoðað reikningana. Bankinn er með sáralítinn hagnað og kostnaður hans er því miður, eins og annarra peningastofnana á Íslandi, allt of mikill.