Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:01:19 (5108)

1996-04-22 22:01:19# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:01]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki með lögin fyrir framan mig en ef ég man rétt var annars vegar um það að ræða að fjmrh. var veitt heimild til að taka lán. Það er í einni grein laganna og síðan er annað lagaákvæði um tryggingarsjóðinn sem er svo aftur annað mál. Hér er einfaldlega bein heimild um að ríkisviðskiptabanka er heimilt á ákveðnu tímabili að taka víkjandi lán og það er vitað hver upphæðin er. Það er ljóst og málið snýst ekki um það. Það er eins og í lánsfjárlögum. Þar eru nefndar upphæðir þótt upphæðin komi reyndar ekki beint fram í þessum texta. En í lánsfjárlögum eru heimildirnar í gegnum fjmrn. Þar er þetta skilgreint alveg nákvæmlega. Að mínum dómi er þetta ekki eðlileg framsetning á þessari heimild. Ég held að við þurfum að kanna það mál betur. Þótt þess kunni að vera dæmi að málin hafi verið sett fram með þessum hætti þá var ég að vísa í það að við erum hér með lagabálk í smíðum um fjárreiður ríkisins þar sem einmitt er verið að gera þetta allt með skýrari hætti. Það er afmarkað eitt ár í einu og inni í fjárlögunum verða lántökuheimildir. Ég held að við eigum við afgreiðslu þessa máls að taka mið af því.