Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 23:01:35 (5129)

1996-04-22 23:01:35# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[23:01]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi þetta mál sem við erum að ræða núna finnst mér rétt þar sem nú er orðið áliðið og líka vegna efnis málsins að umræðunni sé frestað og ekkert óeðlilegt við það. Hér hafa komið fram fjölmargar upplýsingar síðustu klukkutíma sem kalla á meiri skoðanaskipti varðandi þetta mál því það liggur alveg ljóst fyrir að við sem störfum í hv. efh.- og viðskn. bæði ég, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og jafnvel fleiri þingmenn stjórnarliða og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir erum þeirrar skoðunar að málið hafi ekki legið fyrir þegar nefndin fjallaði um það eins og það gerir núna. Nú vil ég virkilega fara varlegum orðum um þetta efni. Þetta mál er þannig og ég vil fara með gætni í allt umtal um bankamál. Það er m.a. þess vegna, því hér hafa verið veittar upplýsingar í þessa umræðu m.a. af hæstv. viðskrh., að við teljum að affarasælast sé fyrir málið að við bíðum aðeins með umræðu. Efh.- og viðskn. er hvort sem er búin að bóka fund á morgun, reyndar út af öðru máli, en yrði málið rætt í nefndinni þannig að þegar menn koma fram hér og halda umræðunni áfram þá væru menn komnir með allar upplýsingar og hugsanlega liggi fyrir sameiginleg niðurstaða um þetta mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt út frá efni málsins því að það er alveg ljóst þó svo ég viti alveg að hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, telur að allt hafi verið með felldu í starfi nefndarinnar. Ég er ekki að bera á móti mati hv. þm. Vilhjálms Egilssonar á því. Það er hins vegar alveg ljóst að við, aðrir þingmenn í efh.- og viðskn., teljum að málið hafi verið öðruvísi vaxið. Nú veit hv. formaður efh.- og viðskn. ósköp vel að við þessir einstaklingar, sem erum í nefndinni, erum ekki að gera neinn leik í því að óska eftir að umræðan bíði og að nefndin komi aftur saman og þessi mál verði aðeins betur skýrð. Við erum ekki að því. Við kunnum allir nógu vel á bankamál. Félagar mínir í nefndinni, tveir fyrrverandi ráðherrar, þekkja þetta óskaplega vel út og inn. Ég held þess vegna, herra forseti, að þetta sé eðlileg málsmeðferð með tilliti til þess að nú er langt liðið á kvöld og það sé rétt að umræða fari aðeins fram í nefndinni og að við frestum umræðu með því fororði að okkur finnst eðlilegt að nefndin skoði betur þær upplýsingar og ræði það betur sem hefur komið fram þannig að lendingin í málinu verði affarasæl fyrir frv., fyrir ríkisstjórnina, fyrir Landsbankann og fyrir fjármálalífið. Ég tel það vera affarasælast.