Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 23:09:26 (5132)

1996-04-22 23:09:26# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[23:09]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að málið sé aðeins alvarlegra en fram kom í þessum allt að því galgopalegu orðaskiptum. Staðreyndin er sú að það lágu ekki réttar eða allar upplýsingar fyrir og forsendur málsins þegar það var afgreitt út úr efh.- og viðskn. miðað við það sem nú er komið í ljós. Og hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur m.a. þær afleiðingar að rökstuðningur fyrir afstöðu minni hlutans í nál. er ekki sá sem hann hefði getað orðið ef við hefðum haft allar upplýsingar. Þess vegna væri að mínu mati af þinglegum ástæðum einum saman skýlaust réttmætt að verða við óskum um að umræðunni yrði frestað þannig að ef svo bæri undir væri unnt að kalla til baka þessi nál. og leggja fram ný með réttum rökstuðningi í ljósi þeirra upplýsinga sem við þá eða nú höfum til þess að taka afstöðu til málsins. Það er ástæðulaust fyrir hv. þm. Vilhjálm Egilsson að vera með einhver gamanmál um það að nú sé það að sannast hversu góð og gáfuleg tillaga meiri hlutans hafi verið. Málið snýst ekki um það. Við kunnum ekki vel við að vera sett í þá aðstöðu sem raun ber vitni varðandi það að taka afstöðu til mála. Það er alvörumál að vinna mál í þingnefnd og taka síðan afstöðu til þess og leggja þá afstöðu fram í formi nál. og þingskjala. Ég hef a.m.k. fyrir mitt leyti engan áhuga á því og ekkert gaman af því að hlutir sem betur mega fara gangi þannig inn í þingtíðindin. Að því leyti til væri skemmtilegast að þessi nál. þyrftu ekki að verða þau endanlegu hér við 2. umr. málsins og ekki þyrfti að koma til afgreiðslu á brtt. sem gæti hugsanlega orðið öðruvísi úr garði gerð eftir yfirferð nefndarinnar. Ég held að heppilegra væri og vænlegra í alla staði og ég er ekki vafa um að það þarf ekki að hafa nein áhrif á framgang málsins umfram það sem nú er að leyfa 2. umr. að standa opinni á meðan efh.- og viðskn. endurmetur málið og fer yfir það. Menn hljóta að fagna því ef um það gæti tekist meiri samstaða að ljúka afgreiðslu þess en nú horfir til eða horfði til þegar það var afgreitt út úr nefnd vegna þess hvernig það var að okkur borið.

Herra forseti. Ég gæti vitnað í nál. á þskj. 721 en þar er einmitt sagt, með leyfi forseta:

,,Eftir eftirgrennslan minni hluta nefndarinnar varðandi það að heimila endurfjármögnun eins og meiri hlutinn leggur til var upplýst af hálfu meiri hluta nefndarinnar að nauðsynlegt gæti verið að endurmeta ýmsar eignir bankans í sambandi við breytingu hans í hlutafélag.`` Þetta settum við á prent. Svo kemur hæstv. viðskrh. inn í umræðuna og upplýsir að þetta sé algjörlega óháð og ótengt ,,háeffun`` bankans. Í hvaða stöðu er verið að setja okkur með þessi orð í nál.? Ég held að menn hljóti að sjá það að þetta eru efnislegar og réttmætar óskir, herra forseti. Þetta er ekki af neinni þrákelkni gagnvart framgangi þessa máls. Ég tel að það sé betri kostur að fresta umræðunni og hafa hana opna þegar efh.- og viðskn. er búin að fara yfir málið. Það fari betur þingtæknilega að gera þetta þannig en ég gerði þá kröfu til vara að í öllu falli yrði brtt. kölluð til baka þannig að við værum ekki sett í þá aðstöðu að þurfa að greiða atkvæði um hana eins og málin standa nú.