Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 14:13:32 (5260)

1996-04-24 14:13:32# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[14:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni merkilegt mál. Það sem mér finnst merkilegast og ég vil vekja eftirtekt á í upphafi þessarar umfjöllunar er að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem rekur ráðherrann, sem lagði niður Skipaútgerð ríkisins, til þess að fara nú út í flugrekstur? Ég satt að segja skil ekki alveg hugmyndafræðina sem er hérna að baki og ætla að fara nokkrum orðum um það.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra í því að það þarf að taka þessi skólamál atvinnuflugmanna föstum tökum. Hæstv. ráðherra hefur rakið það vel hversu fjöldi manna sem útskrifast hefur aukist. Á árunum 1978--1991 útskrifuðust með atvinnuflugmannsréttindi 185 manns eða 13 á ári að meðaltali en einungis á þessu ári munu útskrifast um 44. Þetta er vegna þess að eftirspurn eftir mönnum í þetta nám hefur aukist. Þess vegna þarf að taka það föstum tökum og það þarf að setja upp skóla sem er þannig búinn að það sé ljóst að hann geti menntað menn á öllum stigum atvinnuflugnáms. Hann þarf líka að geta tekið til endurmenntunar fyrir flugmenn. Þetta er allt saman gott og blessað.

[14:15]

En hvers vegna er farin sú leið að ríkið setur upp hlutafélag sem það ætlar sér að eiga meiri hlutann í? Ég er þeirrar skoðunar að annaðhvort eigi ríkið að öllu leyti að sjá um þennan skóla. Það er ekkert skrýtið. Það er í samræmi við það að ríkið hefur sérstakan skóla fyrir aðrar atvinnustéttir. Ég bendi á bændaskóla, stýrimannaskóla og fiskvinnsluskóla þannig að enginn stílbrjótur felst í því að ríkið reki líka flugskóla á eigin vegum. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé óheppilegt að ríkið sé með þessum hætti að stýra flugkennslunni, af hverju er þá skrefið ekki stigið til fulls og Flugskóli Íslands hf. að öllu leyti á vegum greinarinnar, hæstv. ráðherra? Ég saknaði þess í máli hins málsnjalla hæstv. ráðherra að finna rökstuðning fyrir þessu undarlega fyrirkomulagi sem er í rauninni ekkert annað en ríkisstyrkt hlutafélag. Það kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að gert er ráð fyrir því að á yfirstandandi ári verði lagðar með þessum skóla 10,4 millj. kr. Ég vænti þess að það verði meðgjöfin á næstu árum. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga en hver er rökstuðningurinn, herra forseti, fyrir því að hér eigi að setja upp hlutafélag í kringum flugkennslu þar sem ríkið á samkvæmt lögunum að eiga 51%? Ég skal ekki skjóta loku fyrir það að ég kynni að komast að þessari niðurstöðu ef ráðherrann vildi allra náðarsamlegast gefa mér færi á að hlýða á rökin sem eru að baki þessu.

Það kemur fram í greinargerðinni að eina ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra leggur til þetta form er það að hann hefur leitað umsagnar 28 flugskóla og flugrekenda og einn af þeim, aðeins einn af þeim, gerði tillögu um það að skólinn yrði í hlutafélagsformi fremur en að sett sé á stofn ný ríkisstofnun eins og segir í greinargerðinni. Ég sé reyndar ekki mikinn mun á þessu og hjó eftir því í máli hæstv. ráðherra að hann talaði um að hlutafélag eins og þetta væri miklu jákvæðara en ríkisstofnun. Þar er um að ræða hlutafélag þar sem ráðherrann skipar meiri hluta stjórnar samkvæmt frv. og leggur með hlutafélaginu á annan tug milljóna króna á hverju ári þannig að auðvitað er ljóst að þarna er um að ræða niðurgreitt hlutafélag af hálfu ríkisins. Ég sætti mig ekki við það, herra forseti, nema lögð séu til rök fyrir því.

Það kemur líka fram í frv. að gert sé ráð fyrir því að Flugskóli Íslands hf. starfi í samkeppni við aðra flugskóla. Það kemur einnig fram að hann eigi að leita samráðs við aðra flugskóla um ýmislegt sem varðar kennslu og fyrirkomulag verklegrar kennslu. Þetta er út af fyrir sig góð fyrirætlan en þeir sem gerst þekkja til þessara mála eru bersýnilega þeirrar skoðunar að það komi aldrei til þessarar samkeppni og samráðið verði óþarft. Hví segi ég þetta, herra forseti? Ég geri það vegna þess að í greinargerðinni kemur fram í umsögn Flugfélags Norðurlands, sem er annar tveggja aðila sem tók afstöðu til rekstrarformsins, að á Íslandi sé markaðurinn fyrir þessa þjónustu svo lítill að það verði í rauninni enginn annar skóli. Það verði of erfitt fyrir aðra einkaaðila að standa í samkeppni við þetta ríkisstyrkta hlutafélag sem hæstv. ráðherra er að setja upp. Flugfélag Norðurlands kveður upp úr með að ekki sé rúm fyrir fleiri en einn slíkan skóla. Þetta segja þeir sem eru starfandi í greininni og sem þekkja það ekki síður, jafnvel betur en hæstv. ráðherra. Þar með held ég að allar forsendur fyrir því að setja upp flugskóla sem á að starfa í samkeppni við einhvern einkamarkað séu brostnar. Ég taldi líka, herra forseti, að það væri úrelt viðhorf að menn væru að setja upp ríkisfyrirtæki sem stæðu beinlínis í samkeppni við einkaaðila. Ég skil þetta frv. þannig og ég skildi mál hæstv. ráðherra þannig að það væri ætlunin að svo yrði en staðreyndin er auðvitað sú að við höfum á síðustu árum í ríkiskerfinu verið að hrinda í gegn breytingum sem miða allar að því að ríkið sé ekki með klær sínar og lúkur í rekstri sem einkaaðilar geta sjálfir séð um. Mér sýnist að hér sé um að ræða slíkt mál.

Það er ýmislegt sem mig langar örlítið til þess að drepa á varðandi þetta frv., þ.e. einstök tæknileg atriði. Eins og ég hef sagt skortir röksemdirnar fyrir þessu undarlega rekstrarformi. Einu röksemdirnar eru þær að ráðuneytið ritaði 28 aðilum bréf. Fjórir svöruðu. Tveir tóku afstöðu til rekstrarformsins og einn taldi eðlilegt að skólinn væri í hlutafélagsformi fremur en að ný ríkisstofnun yrði sett á laggirnar. Það er hins vegar ekki hægt að lesa það úr greinargerðinni að þessi aðili sem er stærsta flugfélagið, Flugleiðir hf., telji að þetta eigi að vera ríkisstyrktur flugskóli. Það kemur ekki fram að það hafi verið tillaga Flugleiða að þarna ætti að vera um að ræða hlutafélag þar sem hið opinbera færi samkvæmt lögum með 51% alls hlutafjár.

Ég sé hins vegar að í 1. gr. er gert ráð fyrir því að ráðherranum sé heimilt að leggja fram í reiðufé allt að 4 millj. kr. sem á að vera hlutaféð í hinu nýja félagi. Jafnframt kemur fram í greininni að ráðherranum á að vera heimilt að leggja skólanum til allan þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu og hann yrði þá metinn til hlutafjár. Hvað er það mikið, herra forseti? Það er hægt að spá í það í þeirri umsögn sem fjárlagaskrifstofa fjmrn. hefur á bls. 5 í greinargerðinni. Þar kemur fram að þessi búnaður, flughermir og annað smálegt, sé metið til 2 millj. kr. þannig að eignarhlutur ríkisins í þessu nýja félagi á að verða allt að 6 millj. kr. Þá kemst ég að þeirri niðurstöðu, herra forseti, að hlutaféð alls hljóti að verða rétt undir 12 millj. kr. Ef það er niðurstaða ráðuneytisins hlýtur hún að byggjast á einhverjum áætlunum og ég spyr þess vegna hæstv. samgrh. ef hann má vera að því að ljá mér eins og fjórðung eyra örstutta stund: Er einhver áætlun til af hálfu ráðuneytisins sem segir að það þurfi þetta fé? Ég spyr vegna þess að mér finnst vera handahófsbragur á frv. og það sé ekki hugsað í botn. Mig langar að vita hvort menn hafi undirbúið þetta með þeim hætti að það hafi verið gerð nákvæm fjárhagsáætlun.

Í öðru lagi, herra forseti, er í 2. gr. talað um að Flugskóli Íslands hf. eigi að leita samvinnu og samstarfs við aðra flugskóla um ákveðna kennsluþætti, einkum þá verklegu. Eins og ég hef rakið, herra forseti, er Ísland sem markaður að öllum líkindum of smátt til þess að það verði einhverjir aðrir flugskólar til. Ég held að hæstv. ráðherra, fulltrúi samkeppninnar og einkaframtaksins sé með þessu að ganga frá þeim smáu flugskólum dauðum sem fyrir eru í landinu. Ég hefði talið að það væri hlutverk ráðherra Sjálfstfl. að reyna að örva þá til samvinnu og að þeir mundu reka hinn nýja flugskóla. En það kemur því miður fram í 6. gr. að eignarhlutur ríkisins verður aldrei minni en 51%. Ég hefði jafnvel getað hugsað mér að ríkið yrði einhvers konar ljósmóðir að þessum skóla og til þess að tryggja honum gott brautargengi í upphafi mundi ríkið eiga meiri hluta og vera þar með sú ungamóðir sem hefði hann undir væng sínum á meðan hann væri að komast á laggirnar fyrstu árin. En að því loknu yrði þess freistað að selja hlutabréf ríkisins í skólunum til einkaaðilanna sem ég held að gætu risið undir þessu, sérstaklega ef þeir fengju svona fararnesti. Það er ekki gert ráð fyrir því. Hinir horsku einkaframtaksmenn í Sjálfstfl. leggja fram frv. þar sem þeir ,,stipúlera`` það í eitt skipti fyrir öll að eignarhlutur ríkisins verði aldrei minni en 51%. (EKG: Skortur á framsýni ... ) Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem er jafnan fremstur meðal jafningja í sínum flokki kallar fram hvort ég sé að gagnrýna þetta frá sjónarhóli frjálshyggjunnar. Ég er að gagnrýna þetta af sjónarhóli sanngirninnar. Það eru nokkur smá fyrirtæki í landinu sem hafa atvinnu af því að kenna mönnum flug. Það er verið að drepa. (Gripið fram í.) Nei, það er hárrétt, en það er eigi að síður til vilji hjá þeim til þess að slá sér saman og mynda þennan skóla. Ég bendi á að það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann telur að það eigi að leita samstarfs við þá, að vísu um hina verklegu þætti. Mér finnst þetta ekki vera rétt stefna, en eins og ég sagði áðan er ég reiðubúinn til að gera átak til að komast að sömu niðurstöðu og Sjálfstfl. í málinu en mig skortir rökin. Það kom enginn rökstuðningur fram fyrir þessu annar en sá að einn umsagnaraðili hefði talið að eðlilegt væri að skólinn væri á hlutafélagsformi. Auðvitað eru þetta mál sem síðan verða rædd í nefndinni og það kann vel að vera að þessu verði að einhverju leyti breytt. En ég er ekki sáttur við þetta.

Í 1. gr. segir að ráðherra sé heimilt að kveðja aðra aðila til samstarfs um stofnunina. Honum er það ekki skylt, honum er það heimilt. Það segir ekkert hvaða aðrir aðilar þetta eru og hvort þeir sem tengjast þessari grein sitji allir við sama borð. Eiga þeir allir kost á því að koma til samstarfs um stofnun þessa félags? Hvernig mun hæstv. samgrh. tryggja að öllum hagsmunaaðilum á sviði flugkennslu verði boðin þátttaka í stofnfundi Flugskóla Íslands hf.? Ég spyr líka: Er aðild að hlutafélagi sem þessu, sem er í meirihlutaeign ríkisins, fýsilegur kostur fyrir einkaaðila til þess að fjárfesta í? Ég leyfi mér að efast um það. Ég ætla ekki að halda því fram, herra forseti, að þetta frv. sem hér liggur fyrir af hendi hæstv. samgrh. sé flugslys en skrýtið er það og vantar í það rökstuðninginn fyrir þessu sérkennilega rekstrarformi. Hæstv. ráðherra mun vafalaust halda ræðu á eftir og reyna að leiða mig í allan sannleika um það hvers vegna hans flókna hugsun hefur borið niður í þennan lokastað. Ég er reiðubúnn til þess að æfa lendingu á þeim sama stað með honum ef hann býður mér upp á nægilega lendingarbraut í formi sanngjarnra röksemda.

Herra forseti. Að lokum þætti mér vænt um að hæstv. ráðherra svaraði þeim örsmáu spurningum sem ég hef til hans varpað. Sérstaklega hvers vegna hann telur að það sé heppilegt rekstrarform að hafa hlutafélag sem um aldur og ævi á að vera í eigu ríkisins. Ég tel að það hefði verið betra að hafa þetta annaðhvort alfarið á hendi hins opinbera eða stíga skrefið til fulls og athuga hvort þeir vissulega smáu aðilar sem eru í þessari grein með einhvers konar vísa að flugkennslu hefðu ekki getað sameinast um að reka skólann. Í versta falli þá að ríkið hefði gerst ljósmóðir og verið meirihlutaaðili fyrstu árin en þegar ljóst væri hversu hinu nýja fyrirtæki farnaðist mundi hæstv. samgrh. í krafti þess að hann er talsmaður samkeppni og einkaframtaks reyna að koma út hlutabréfum ríkisins á meðal smáu skólanna.