Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 14:52:14 (5263)

1996-04-24 14:52:14# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[14:52]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef heyrt hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað að þeir hafi upplýsingar um að það séu einkaskólar hér sem séu óðfúsir að taka að sér það verkefni að veita menntun fyrir atvinnuflug í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um skírteini atvinnuflugmanna og í samræmi við þær kröfur sem til slíks náms eru gerðar og í samræmi við hinar nýju reglur sem unnið er að og væntanlegar eru. Mér finnst sjálfsagt að það mál verði betur athugað í nefndinni ef svo er.

Nú kannast ég ekki við það að menn hafi sóst eftir því að hafa með höndum þá kennslu sem frv. fjallar um þannig að þetta eru mér algerlega nýjar fréttir. En ég vil mjög mælast til þess við formann samgn. sem fær þetta mál til meðferðar að kanna þessar upplýsingar nákvæmlega því að síst er það vilji minn að fara að drepa einhverja einkaskóla á þessu sviði sem starfandi eru í þjóðfélaginu. Ég er þess vegna mjög ánægður yfir því að þessi mikla gróska skuli komin í flugnámið hér á landi. Ef það er svo að óþarfi er að stofna Flugskóla Íslands hf. og ef það er svo að ríkið þarf þar hvergi nærri að koma, er ég enginn sérstakur áhugamaður um forsjá ríkisins í þessum efnum. Ég er auðvitað ánægður yfir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem er í senn sanngirnismaður og svona þegar vel liggur á honum líka einkarekstrarmaður, sameinar það mjög vel, enda má segja að það séu fyrir því genitískar orsakir, skuli styðja mig einmitt í þessum efnum og fullvissa hv. þingmenn um að ég vilji alls ekki ganga af smáflugskólunum dauðum, alls ekki undir neinum kringumstæðum.

Ástæðan fyrir því að frv. er lagt fram er sú að það er verið að reyna að koma atvinnuflugmannsnáminu á fastari grundvöll en verið hefur. Það er eina ástæðan fyrir flutningi þessa frv. Það er alger misskilningur, ef sú skoðun er uppi, að ég sé á móti því að menntmrn. taki sig ábyrgð á þessu námi. Það hefur ekki verið rætt á þeim grundvelli. En á hinn bóginn eru inntökupróf sem gerð eru í Flugskóla Íslands eftir þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir, þ.e. þær kröfur sem liggja því til grundvallar að menn fái setu í skólanum það strangar að ég hygg að það sé ósennilegt að þær samrýmist venjulegu framhaldsskólanámi. Ég held að það sé misskilningur. Hér er sem sagt lagt upp með það að reyna að finna Flugskóla Íslands form, reyna að festa í sessi þá kennslu sem nú fer fram á vegum Flugmálastjórnar í þeim fræðum sem atvinnuflugmenn þurfa að tileinka sér og kunna til hlítar. Sú leið sem hér er farin er einfaldlega sú að leita eftir samstarfi við flugfélög og einkarekstraraðila, auðvitað vegna þess að kennsla af þessu tagi er mjög fagleg ef ég má nota það orð og líka vegna þess að kennarar sem kenna í slíkum skóla falla illa að því launakerfi sem er í venjulegum framhaldsskólum. Hér er um mjög sértækt og erfitt nám að ræða og það verður auðvitað að horfast í augu við það.

Hitt er líka leið að hugsa sér að ríkið komi þar hvergi nærri og að þetta nám flytjist úr landi.

Nú fann ég það á hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, forvera mínum í samgrn., að aðalmótbárur hans virðast vera að orðið Flugleiðir stendur í greinargerð með frv. Það má yfirleitt ekki minnast á það ágæta félag við hv. þm. Þó er það svo að með síðustu vél sinni, Sólrúnu sem flýgur til Boston og mun senn fljúga til Halifax, aukast gjaldeyristekjur okkar svona um 1--1,5 milljarða og 125 manns, hátekjufólk, fær þar atvinnu þannig að þetta fyrirtæki er með sínum umsvifum mjög að styrkja efnahagslegar undirstöður ríkisins, samfélagsins, í víðasta skilningi þess orðs. Og það eru einmitt hin auknu umsvif Flugleiða, Atlanta og annarra flugfélaga sem valda því að það er orðið mjög brýnt að reyna að takast á við þetta verkefni.

Ég hlýt hins vegar að láta í ljósi ánægju mína yfir því að þeir þingmenn sem hér hafa talað hafa allir lýst því yfir að þeir muni setja sig mjög vel inn í þetta mál, vilji mjög gjarnan takast á við það verkefni. Og vegna sérstakrar fyrirspurnar frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni vil ég taka það fram að auðvitað hefur verið gerð rekstraráætlun fyrir hinn nýja skóla sem byggir á reynslu liðinna ára og má með óbeinum hætti lesa það í umsögn fjmrn. Það sem lagt er til grundvallar er að hið bóklega nám verði greitt með framlagi ríkisins, en hins vegar hefur það verið svo og er gert ráð fyrir að það verði svo áfram að nemendur standi sjálfir undir verklega náminu, kosti sjálfir flugtímana. Af þeim sökum er eðlilegt að þeir hafi mikið frjálsræði um það við hverja þeir semja um afnot flugvéla og hvernig þeir vilji ná sér í þann fjölda flugtíma sem áskilinn er.

Ég vil ítreka það, herra forseti, að á bak við þessa frumvarpssmíð stendur vilji minn og þeirra sem að málinu hafa komið til þess að treysta grundvöll flugnámsins, ekkert annað og ég vænti þess að samgn. athugi málið vel og gaumgæfilega. Þetta mál heyrir undir samgrn. og öll sérþekking hér að lútandi er auðvitað hjá Flugmálastjórn og sérfræðingum samgrn.