Umferðarlög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:41:16 (5276)

1996-04-24 15:41:16# 120. lþ. 126.15 fundur 271. mál: #A umferðarlög# (einkamerki) frv. 37/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:41]

Svavar Gestsson (andsvar):

Ég þakka, hæstv. forseti, hv. 2. þm. Austurl. svör hans og tel mikilvægt að hann hefur í raun dregið til baka að hann líti á málið eins og ég kaus að túlka það í framhaldi af fyrra andsvari hans. Raunar lá beint við að túlka það með þeim hætti sem ég gerði. Auðvitað getur þetta ekki heitið stórmál en það er dálítið sérkennilegt að vera að opna fyrir tvöfalt númerakerfi á bílum þegar nýlega er búið að taka upp fastnúmerakerfið eftir mjög miklar umræður í þessari stofnun. Ég verð því að segja eins og er að ég átta mig ekki alveg á því hvaða nauðsyn rekur Alþingi og ríkisstjórnina til að opna fyrir tvöfalt númerakerfi á bílum. Ég held að það ýti ekki undir aukið öryggi í umferðinni og ég átta mig ekki á því hvað það er sem ýtir á eftir því að menn vilja taka upp tvöfalt númerakerfi.