Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 16:45:01 (5318)

1996-04-29 16:45:01# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að leggja nokkur orð í belg um þessa umræðu um skólagjöld eða skrásetningargjöld til háskólanna, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Ég átti þess ekki kost við 2. umr. eins og ég hafði ætlað mér og hyggst bæta úr því hér og gera a.m.k. grein fyrir meginviðhorfum mínum til þessa máls. Ég held að það verðskuldi alveg umræður og þó meiri væru en hér hafa þegar orðið um þetta viðfangsefni.

Staðreyndin er sú að hér er tekist á um mjög mikilvæg grundvallaratriði í a.m.k. tvennum skilningi ef ekki þrennum. Hér er að sjálfsögðu fyrst og síðast á ferðinni menningarpólitískt grundvallaratriði sem snýr að því hvort nám skuli standa öllum til boða án tillits til efnahags og hvernig því sé þá fyrir komið og það tryggt með löggjöf og fjárveitingum.

Hér er líka að nokkru leyti á ferðinni grundvallarmál hvað tengist aðferðum við fjáröflun til sameiginlegra verkefna, hvort fremur beri að beita almennum tekjuöflunarúrræðum til að kosta þau verkefni sem hið opinbera sér um eða sértækum sem miði við valda hópa og t.d. þá sem njóta beint á líðandi stundu viðkomandi þjónustu. Þetta er hin fræga umræða um þjónustugjöld eða skatta og hún á fyllilega heima hér.

Þetta er í þriðja lagi líka pólitískt grundvallaratriði og á það hefur verið minnt hér að einn flokkur sem á fulltrúa sína á þingi hefur tekið kúvendingu í þessu máli eins og reyndar fleirum, horfið frá harðri andstöðu við þessa gjaldtöku á síðasta kjörtímabili yfir í að styðja hana nú að því er virðist nokkurn veginn mótþróalaust. Ég á hér að sjálfsögðu við Framsfl. sem var ekki í vafa um það hvaða tegund af gjaldtöku hér væri á ferðinni á síðasta kjörtímabili. Þá vöfðust nafngiftir ekki fyrir mönnum þegar verið var að ræða um skólagjöld og þá miklu atlögu sem gerð var að mati okkar stjórnarandstæðinga á síðasta kjörtímabili að Framsfl. meðtöldum að jafnrétti til náms á Íslandi með þessum aðferðum. Ýmis önnur gjaldtaka var þá því miður tekin upp og rædd og í sumum tilvikum jafnvel mun veigaminni en sú sem hér er á ferðinni og lægri í krónum talið en var engu að síður talin, þar á meðal af framsóknarmönnum, verulega mikil stefnubreyting og spurning um grundvallaratriði af því tagi sem ég hef nefnt hvernig tekna sé aflað til að kosta opinbera þjónustu og þeim byrðum dreift.

Herra forseti. Þetta er reyndar afar lýsandi dæmi um þá hægri þróun sem Framsfl. hefur undirgengist á síðustu missirum, býsna sláandi, eitt af mjög mörgum sem sýnir að Framsfl. er kominn hægra megin við miðju íslenskra stjórnmála og er orðinn hægri sinnaðri en Alþfl. í hverju málinu á fætur öðru og hefði einhvern tíma þótt tíðindi. Nýleg og sláandi dæmi hafa t.d. komið fram um þetta á sviði utanríkismála þar sem framsóknarmenn þora ekki lengur að standa að frumvörpum sem þeir hafa áður flutt en Alþfl. styður.

Varðandi þessi skólagjöld var það þó þannig að Alþfl. átti í erfiðleikum með þetta á síðasta kjörtímabili og a.m.k. einn þingmaður leið miklar sálarkvalir eins og alþjóð veit út af þessu máli og studdi ekki skólagjaldaupptökuna nema að hluta til á sum skólastigin. En þetta rennur ljúflega niður hjá Framsókn og það eru engir fyrirvarar af einu eða neinu tagi svo að mér sé kunnugt um. Það eru auðvitað stórmerkileg tíðindi að ekki skuli einu sinni einn þingmaður úr þessum mikla hópi framsóknarmanna sem á grundvelli hæpinna kosningaloforða slysuðust hingað inn á þing hafa séð sóma sinn í því að reyna að halda uppi merkjum þeirrar fyrri stefnu sem flokkurinn hafði í þessum efnum.

Herra forseti. Varðandi þrætuna um það hvort hér sé á ferðinni skólagjöld eða skrásetningargjöld, þjónustugjöld eða skattar er það hefðbundið að grípa til lögskýringa af því tagi að fara ofan í forsögu málsins og reyna að átta sig á því hvað vakti fyrir mönnum á sínum tíma, hvaða lögskýringargögn liggi í forsögunni þegar viðkomandi ákvörðun var tekin. Það þarf engum blöðum um það að fletta hvað gerðist þarna árið 1992--1993 þegar skólagjöld í háskólanum voru hækkuð á einu bretti úr einhverjum 5--7 þús. kr. eins og þau höfðu lengi verið, ég held allt frá þeim tíma þegar ræðumaður var í háskóla og þetta var einhver 5 þús. kall eða svo, nýkrónur, og upp í þetta.

Hvað var það sem þá gerðist? Hvaða sögu segir það um eðli þessarar gjaldtöku? Það sem ósköp einfaldlega skeði var það að fjárveitingar til Háskóla Íslands voru lækkaðar nokkurn veginn um nákvæmlega sömu upphæð og tekin var inn í viðbótarskólagjöldum, svokölluðum skrásetningargjöldum, nokkurn veginn nákvæmlega. Hvað er það þá annað en fyrirsagnaleikur þegar hinar opinberu fjárveitingar til viðkomandi menntastofnunar dragast saman um nákvæmleg sömu upphæð og tekin er af námsmönnum í viðbótarskólagjöld eða skrásetningargjöld? Það segir allt sem segja þarf um málið. Það var þannig að kröfur háskólans um sértekjur voru hertar um nálægt 90--100 millj. kr. og í einu nefndaráliti koma reyndar fram upplýsingar um þetta.

Ég ímynda mér, herra forseti, að þetta sem lögskýring mundi vega nokkuð þungt ef menn færu að reyna að átta sig á því hvað fyrir mönnum vakti á þessum tíma. Allir vita um þær þrengingar í ríkisfjármálum sem þá gengu yfir og þann niðurskurð og þær kröfur um stórhækkaða tekjuöflun á mörgum sviðum sem þá var knúin fram þannig að ég held að þessi umræða satt best að segja þjóni ekki miklum tilgangi. Í upptalningu á því hvað skuli teljast skrásetningargjöld er farið út í jafnfjarskylda hluti eins og aðgang að tölvum og eftirlit með prófum og öðru slíku sem er þess vegna alveg jafnt frá skrásetningu nemenda eins og fæði þeirra. Það er alveg eins hægt að taka eitthvað því um líkt þarna undir eða gluggaþvottinn í háskólanum eða eitthvað því um líkt. Mér finnst þetta gersamlega út í hött. Það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á þessa röksemdafærslu að þarna sé á ferðinni einhver skráningartengdur kostnaður. Það er bara ekki þannig og mér finnst það Alþingi til skammar að láta löggjaf af þessu tagi fara frá sér.

Ef menn ætla að leggja sérstakan nefskatt á alla nemendur við háskólana eiga menn að þora að viðurkenna það og segja ósköp einfaldlega: Skráningarkostnaðurinn er um það bil 3--5 þús. kr. Afgangurinn er nefskattur sem hefur verið ákveðið að leggja á nemendur og verður innheimtur til þess að standa straum af almennum rekstrarkostnaði í skólanum. Eða t.d. telur hæstv. menntmrh. að tölvur séu eitthvað svo frábrugðnar öðrum nauðsynlegum kennslutækjum eða áhöldum í háskóla nútímans að það sé rétt að láta menn borga það alveg sérstaklega en ekki blýanta, bækur eða töflur eða eitthvað því um líkt? Eru það hin nútímalegu viðhorf til menntunar sem birtast í þessu að tölvurnar skuli vera alveg sérstaklega skattlagðar með þessum hætti?

Aðalvandinn við gjaldtöku af þessu tagi, herra forseti, er sá að eftir að hún er einu sinni komin á hefur hún tilhneigingu til þess að hækka. Staðreyndin er auðvitað sú að ef farið er vægt í sakirnar með svona gjaldtöku getur það vel verið rétt að hún skipti ekki sköpum t.d. fyrir möguleika manna til náms. Þó er það þannig að það munar um allt. 24 þús. kr. koma ekki af himnum ofan t.d. fyrir námsmenn frá efnalitlum fjölskyldum, t.d. utan af landi sem hafa þegar gengið í gegnum mikið misrétti til náms með ærnum viðbótartilkostnaði vegna aðstæðna sinna.

Það er kannski ekki það versta við þetta mál ef gjaldtakan væri hófleg í byrjun heldur hitt að reynslan sýnir og er ólygnust um það að slík gjaldtaka hefur hækkað mér liggur við að segja nánast undantekningarlaust svo að ég þekki til og hún gerir það ósköp einfaldlega vegna þess að þegar einu sinni er búið að klífa yfir þennan þröskuld og taka pólitíska kollhríð með slík mál er útlátalítið að bæta aðeins í gjaldtökuna. Það vekur miklu minni athygli og er sjaldnast jafnmikið pólitískt hitamál eins og hitt þegar slík gjaldtaka er í upphafi innleidd. Þetta voru meginrökin sem ég og margir aðrir notuðum gegn allri þessari gjaldtökusúpu á síðasta kjörtímabili. Ekki það að gjaldtakan, t.d. komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar og annað því um líkt, skipti kannski alveg sköpum fyrir allan þorra fólks sem þarf ekki oft á þeirri þjónustu að halda. En við bentum á, sem kom í ljós, að menn mundu síðan hafa tilhneigingu til að hækka þessi gjöld og það gerðist meira að segja strax á síðasta kjörtímabili í vissum tilvikum að gjaldtaka af þessu tagi sem var tekin upp og var mjög væg í fyrstu var hækkuð. Það er sú sannfæring sem ég hef í þessu máli sem gerir það að verkum að ég tel það algert ógæfuspor að halda inn á þessa braut að dulbúa skólagjöld með þessum hætti með því að kalla þau þessu orðskrípi skráningargjöld, langt út fyrir allan sannanlegan kostnað sem af leiðir skráningunni sem slíkri. Það liggur alveg í hlutarins eðli að þar er á ferðinni kostnaður sem er einungis brot af þessu. Enda þótt lagðar séu saman þær upphæðir sem ganga til sjálfrar skráningarinnar og til samtaka námsmanna og stofnana þeirra þá er það eftir sem áður einungis lítið brot af þessari upphæð.

Svo kemur hæstv. menntmrh. hér og segir að þetta sé föst krónutala og þessu verði ekki breytt nema með samþykki Alþingis eins og vandinn sé þar með leystur. Það er mjög í tísku núna þegar menn eru að reyna að skáskjóta sér fram hjá erfiðum, pólitískum vandamálum, að þá koma þeir með þessa vörn í málinu og segja: Síðan verður þetta og hitt ekki gert nema með samþykki Alþingis. Verið alveg örugg. Þetta er sama aðferðin og hæstv. viðskrh. notar þegar hann segir: Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera bankana að hlutafélagabönkum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið það. En það verður ekkert selt og Alþingi ræður því hvort eitthvað verður selt. Þá á að róa menn með því að segja: Við erum búin að taka ákvörðun um að gera bankana að hlutafélögum en það verður ekkert selt nema Alþingi samþykki og samgrh. datt ofan á þetta snjallræði að hafa eitt bréf úr stáli í Pósti og síma, hlutabréf úr stáli sem yrði ekki hlutað sundur svo auðveldlega.

En hvernig gerist þetta svo, herra forseti? Hvað gerist svo? Hver er hin hefðbundna, venjubundna aðferð í þessum efnum. Í næstu umferð kemur lítið sakleysislegt frv. með svona 30--50 skerðingarákvæðum á sérlög og það er sagt: Þrátt fyrir ákvæði númer þetta í lögum um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri skal skrásetningargjald á árinu 1997 vera 50 þús. kr. Þannig gerist þetta nefnilega og hefur gerst æ ofan í æ. Svo mikið fyrir einhverjar girðingar af þessu tagi. Hvernig eru aðstæður í fjárlagagerðinni núna að sagt er? Jú, það eru heitstrengingar um að skila hallalausum fjárlögum á einu eða tveimur árum og það ganga sögur í kerfinu um að ráðuneytin séu komin með tossalista upp á 8% flatan niðurskurð eða sparnað eða tekjuöflun sem fylli það bil. (Gripið fram í: Ekki skatta.) Skatta? Eitthvað af því gæti komið þannig, hv. frammíkallandi. Ætli hv. frammíkallandi þekki ekki dæmi þess að menn grípi til ýmissa ráða í nauðvörn sinni þegar hið háa fjmrn. kemur með kylfuna svona í mars eða apríl á hverjum vetri og lemur alla fagráðherrana í hausinn og segir: Sparið þið 5%, sparið þið 8%. Þá fara menn út í alls konar biks af þessu tagi og það er ekki óalgengt að menn grípi til þess ráðs að fara með ,,þrátt-fyrir``-ákvæði inn í alls konar sérlög á sínu sviði og segja: Þrátt fyrir það að við ætluðum að setja svona mikið í þetta eða ekki taka meira af mönnum en þetta, þá skal þetta vera svona á árinu 1997. Svo koma menn og halda alveg heilar ræður um að það sé svo erfitt í ári, það sé svo nauðsynlegt að ná hallalausum fjárlögum að það sé allt réttlætanlegt. Þetta gerist nákvæmlega svona, herra forseti. Þess vegna gef ég bókstaflega ekki neitt fyrir þessar yfirlýsingar um að þetta sé bara svona snoturt og snyrtilegt, 24 þús. kall og verði aldrei neitt meira og bla, bla, bla, bla og eigi bara að borga þetta og hitt. Það hefur marg sýnt sig að í slíku er ekkert hald. Prinsippátökin fara fram þegar gjaldtaka af þessu tagi er í fyrsta skipti innleidd. Það er reynslan. Þegar hún er orðin að fjáröflun, þegar hún er orðin að sérstakri fjáröflun.

[17:00]

Þá, herra forseti, að síðasta þætti þessa máls, grundvallaratriðinu um það að afla tekna til sameiginlegra þarfa með þessum hætti. Það er sóðaskapur. Það á ekki að gera. Ég hélt satt best að segja að menn væru að reyna að vinna sig út úr því að vera með alls konar skatta. Það er stundum sett forskeyti framan við ákveðinn hóp af sköttum. Ég ætla að vera svo kurteis í dag, herra forseti, að nota það ekki, en menn vita til hvers ég er að vísa, alls konar s-skatta af þessu tagi.

Ég hélt að menn væru að reyna að komast út úr þessu, menn væru að reyna að draga hreina markalínu milli þjónustugjalda og gjaldtöku á móti sannanlegum útlögðum kostnaði við tiltekin skilgreind verkefni og almennrar fjáröflunar. Þetta er alls staðar viðurkennt sem mjög mikilvægt atriði í skattalöggjöf úti um allan heim. Íslenska skattkerfið hefur því miður verið mjög sýkt að þessu leyti. Alls konar gjaldtaka viðgengst hér sem er úr öllu samhengi við verkefnin sem hún er að nafninu til tengd. Muna menn ekki eftir frumvörpunum um aukatekjur ríkissjóðs og listunum, þar sem allt í einu dettur í einhvern góðan mann að hækka t.d. útgáfu á einföldu prófskírteini úr 3 þús. kr. í 75 eða eitthvað svoleiðis. Allt í einu t.d. fór það að kosta fleiri tugi þúsunda ef ekki hátt í hundrað þúsund að fá útgefin einföld vottorð í frá ríkinu um að menn hefðu lokið tilteknu námi. Það voru ekki mikil vísindi á bak við það og ekki er pappírinn þess virði sem slíkur. Þetta hafa menn almennt viðurkennt að væri ekki góð latína. Og menn eru að fara inn á nákvæmlega þessa braut hér með skollaleik af þessu tagi. Í reynd sér það hver heilvita maður að það er verið að afla tekna að hluta til upp í almenn útgjöld vegna reksturs menntastofnana með nefskatti af þessu tagi. En hann er ranglega skírður skráningargjöld og ranglega færður sem þjónustugjöld í ríkisbókhaldinu o.s.frv. Það er dálítið merkilegt að enginn af hinum kaþólsku ríkisfjármálasnillingum sem hér eru upp til hópa og oft rjúka upp þegar verið er að ræða þau mál, skuli hafa komið upp og rætt um þetta. Hvar eru þeir nú, allir þessir menn sem á undanförnum árum hafa haldið ræður og flutt frumvörp um hreinleika í þessum efnum? Fjárlaganefndarfólk frá liðnum árum hefur oft verið mjög haldið af því að það væri boðberar hreinleikans í þessum efnum og að það skyldi ekki blanda saman sköttum og þjónustugjöldum og öðru slíku. En hvað er að gerast hér? Það er sannanlega þannig og ég hef ekki ástæðu til að draga það í efa, að skráningin sem slík stendur kannski fyrir einhverjum 3--4 þúsundum af þessu. Það er hægt með góðum vilja að heimfæra einhvern slíkan kostnað undir það sem raunverulega tilheyrir skráningunni á hverjum nemanda inn í háskólann. En það eru tekin liðlega 20 þúsund í viðbót undir þessu falska flaggi. Það er sóðaskapur af þessu tagi sem ég hélt að menn væru að reyna að komast út úr.

Herra forseti. Að lokum er það niðurstaða mín að það sé kannski af mörgu lélegu við þetta mál einna snautlegast að menn skuli vera í þessum skollaleik með þetta og ekki mjög til fyrirmyndar. Ef menn ætla að taka þá pólitísku ákvörðun að reka menntastofnanirnar á Íslandi að hluta til fyrir nefskatt af þessu tagi sem því miður er ástæða til að óttast að fari hækkandi á komandi árum eins og reynslan sýnir, að þeir skuli þá ekki vera menn til þess að kannast við það, koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og bara segja það. En það er kannski pólitískt og viðkvæmt og vandasamt fyrir menn. Þess vegna ætla menn fjallabaksleið að því að innleiða skólagjöld í felulitum eða dulbúningi.

Herra forseti. Ég tel að þetta séu hin verstu frumvörp sem hér eru til umræðu eins og mér hefur vonandi tekist að rökstyðja sæmilega og ég er á móti þeim.