Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:55:33 (5349)

1996-04-30 13:55:33# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í sex ár hefur íslensk móðir háð hetjulega baráttu fyrir því að fá dætur sínar heim til Íslands að nýju. Í sex ár hefur hún mátt þola það að dætrum hennar er haldið ófrjálsum í erlendu landi. Í sex ár hefur Sophia Hansen barist fyrir því dag hvern að heimta til sín dæturnar sínar tvær, þær Rúnu og Dagbjörtu sem hún hefur nú hvorki heyrt né séð í heil fjögur ár. Orð fá ekki lýst þessum harmleik. Hugtök eins og mannréttindabrot eða ofbeldi og óréttlæti ná ekki einu sinni yfir þann hrylling þegar móðir er svipt skýlausum rétti til þess að njóta samvistar við dætur sínar eða litlum stúlkum meinað að vera með móður sinni.

Rifjum upp þessar aðstæður. Sophia Hansen og fyrrverandi maður hennar, Halim Al, eru íslenskir ríkisborgarar. Dæturnar, þær Rúna og Dagbjört eru líka íslenskar. Giftingin fór fram eftir íslenskum lögum og skilnaðurinn sömuleiðis. Móðurinni var dæmdur skýlaus réttur til forræðis yfir dætrunum að íslenskum lögum. Um þetta vitna bæði plögg og pappírar sem íslensk stjórnvöld hafa gefið út. Stúlkurnar litlu voru teknar gegn vilja sínum og þeim meinað að snúa heim til móður sinnar og ættlands. Í stað þess að komast að efnislegri niðurstöðu hafa tyrkneskir dómstólar þvælt málinu fram og aftur. Íslenskir dómsúrskurðir eru virtir að vettugi. Halim Al kemst upp með það 63 sinnum að hunsa tyrkneska úrskurði um umgengnisrétt móður án þess að til þess bær stjórnvöld í Tyrklandi grípi í taumana.

Nú er enn komið að tímamótum í þessu máli. Nýjasti úrskurður undirréttarins felur það í sér að stúlkurnar tvær verða kallaðar til vitnis. Við getum reynt að setja okkur í þeirra spor. Tvær litlar stúlkur sem hafa verið mataðar á óhróðri um móður sína og sitt eigið föðurland, Ísland, og ofurseldar valdi föður síns eiga að bera vitni fyrir rétti. Þetta er slík skrumskæling að það nær engri átt.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki átt hægt um vik í þessu máli þó mér sé vel kunnugt um að mjög margir, þar á meðal þingmenn og ráðherrar, hafa reynt að leggja Sophiu lið í hættulegri baráttu hennar. Nú er staðan hins vegar svo alvarleg að við verðum að gera bókstaflega allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að koma til hjálpar. Ég fagna því þeirri yfirlýsingu sem hæstv. utanrrh. gaf áðan um stuðning við baráttu Sophiu Hansen um leið og ég þakka hv. málshefjanda, Margréti Frímannsdóttur, frumkvæðið að þessari umræðu.

Gleymum því ekki að hér eiga í hlut tvær litlar íslenskar stúlkur og móðir þeirra íslensk sem nú er verið að brjóta á allan rétt. Örlög þeirra koma okkur öllum við. Í þessu máli talar íslenska þjóðin einum rómi.