Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:11:35 (5355)

1996-04-30 14:11:35# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:11]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það sem gerðist í efh.- og viðskn. í morgun var að frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var tekið út þrátt fyrir að m.a. var sagt að það yrði fjallað um svokallað bandormsfrv. í tengslum við þetta frv. Það hefur ekki verið talað fyrir því frv. þrátt fyrir orð hæstv. forsrh. um það efni. Þetta lýsir betur en margt annað hvílíku þingræðislegu ofbeldi er verið að beita í þessum málaflokki.

Þá er ljóst að í morgun neitaði hæstv. fjmrh. að koma á fund nefndarinnar þrátt fyrir að það séu fjölmörg fordæmi fyrir slíku. Ég bendi á um hvað málið fjallar. Það fjallar um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Fjmrh. er handhafi framkvæmdarvaldsins í þessum málaflokki og ber hina pólitísku ábyrgð á efni málsins. Það eru fjölmargar spurningar sem embættismenn geta ekki svarað varðandi það efni. Þess vegna hefði það verið eðlileg málsmeðferð að fjmrh. kæmi á fund nefndarinnar áður en málið yrði afgreitt út úr nefndinni. Það var ekki gert. Málið er ekki þingtækt þrátt fyrir það að meiri hlutinn hefur knúið á um þá niðurstöðu sem hann gerði. Það hafa komið fram fjölmörg varnaðarorð um þetta frv. Fulltrúar stéttarfélaganna í morgun töluðu um hrunadans í næstu kjarasamningum. Það stefnir í algert óefni, ekki einungis gagnvart 25 þús. ríkisstarfsmönnum heldur einnig gagnvart öllum launþegum á almennum vinnumarkaði. Það er augljóst að hér er verið að misbeita þingræðinu. Það hefði átt að gefa betra ráðrúm að fara yfir þetta mál. Það er eðlileg ósk sem stjórnarandstaðan kom fram með. Við mótmæltum þeim vinnubrögðum að málið yrði tekið út á þessum forsendum. Við vörum við afleiðingum þessa máls. Það er 1. maí, frídagur verkalýðsins, á morgun þar sem verður tekin afstaða gegn þessum frumvörpum á réttmætan hátt. Ég fordæmi þessi vinnubrögð og mótmæli þeim sem voru viðhöfð í efh.- og viðskn. í morgun.