Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:40:18 (5382)

1996-04-30 15:40:18# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:40]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Vegna fjarveru minnar undanfarna daga á þinginu var sérálit það sem ég flutti sem minni hluti menntmn. kynnt af varaþingmanni mínum, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ég ætla mér ekki að fara í smáatriðum út í það álit hér en það er alveg ljóst eins og hefur komið fram í máli manna að hér er um mjög mikið grundvallarmál að ræða. Árið 1992 voru þessi mál mikið til umræðu. Þá var fyrst rætt um að hækka skráningargjöld í háskólanum úr 7.000 kr. í 17.000 en heildargjaldið fór upp í um 22.300 kr. Þá lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi þar sem ég spurðist fyrir með tilvísun í lög um skólakerfi frá 1974 þar sem stendur að nám á grunn-, framhalds- og háskólastigi eigi að vera ókeypis, þ.e. það stendur í 6. gr.: ,,Kennsla er veitt ókeypis í öllum opinberum skólum.`` Ég spurði eftirfarandi spurningar og bað um skriflegt svar: ,,Hvernig samræmist þetta þeirri ákvörðun að hækka skráningargjald í Háskóla Íslands?``

Með hliðsjón af svarinu, sem ég fékk þá, taldi ég ekki ástæðu til að flytja breytingartillögu núna eða vera með 2. minni hluta menntmn. um að flytja brtt. um lækkun skráningargjaldanna. Ég vitna í skriflega svarið sem ég fékk árið 1992, með leyfi forseta:

,,Ákvörðun skrásetningargjalds við Háskóla Íslands hefur lagastoð í 1. mgr. 21. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, sem er svohljóðandi: ,,Hver sá sem staðist hefur fullnaðarpróf frá íslenskum skóla, sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta, á rétt á að vera skrásettur háskólaborgari gegn því að greiða skrásetningargjald.````

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara ofan í nefndarálit mitt en ítreka að þetta frv. er fyrst og fremst komið fram vegna álits umboðsmanns Alþingis þess efnis að það hafi ekki verið nægjanleg lagastoð fyrir því að hækka skráningargjaldið úr 7.000 kr. í 22.300 kr., núna á það að vera 24.000 kr. samkvæmt frv.

Þó vil ég ítreka tvö atriði úr nefndarálitinu. Í fyrsta lagi virði ég það álit umboðsmanns að nauðsynlegt sé að treysta lagagrunn undir þetta skrásetningargjald og hvernig því er ráðstafað. Að öðrum kosti verður að fella skrásetningargjaldið úr gildi eða lækka það til fyrra horfs. Í nefndarálitinu ræði ég um það sem ég held að hafi komið fram í langflestum ræðum að það sem er að eiga sér stað er að þrátt fyrir skýr ákvæði í lögunum um skólakerfi frá 1974 að hér megi ekki setja á skólagjöld er verið að setja á þjónustugjald, reyna að fá lagastoð undir þjónustugjald sem er mjög erfitt að rökstyðja að sé eingöngu skráningargjald.

[15:45]

Við í menntmn. fengum á fund okkar fulltrúa frá Háskóla Íslands þar sem það er alveg skýrt útlistað hvernig þessar 24.000 eru fengnar og ég ætla mér ekki að fara að endurtaka þá upptalningu hér sem aðrir hafa komið fram með en það er alveg ljóst að þarna er mun meira sem er greitt fyrir þessa upphæð en skráning. Þess vegna ítreka ég að það er mín niðurstaða að hér sé farið út á mjög vafasama braut með að innheimta þjónustugjald undir fölsku flaggi. Sem skráningargjald er þessi upphæð allt of há og í engu samræmi við skráningarkostnað. Skólagjald er allt önnur umræða sem stjórnin kýs að fara ekki út í. Ég hefði frekar kosið að fá hér heiðarlega umræðu um skólagjöld, hvort þau eigi rétt á sér eða ekki. Ég er mótfallin þeim eins og kom fram í fyrri umræðu. Þetta laumuspil í kringum þetta mál er mér mjög ógeðfellt og þess vegna legg ég til í nál. að þessi frv., bæði frv. um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, verði felld og skráningargjöld háskólanna verði lækkuð til fyrra horfs. Um leið bæti ég við að það þarf að sjálfsögðu að hækka fjárveitingar til háskólanna. Það var einmitt krafa stjórnvalda til háskólans um að hækka eigin sértekjur sem olli því að þessi gjöld voru hækkuð úr 7.000 kr. í 22.300 kr. árið 1992.

Hins vegar vil ég gera annað að umræðuefni nú. Í fjarveru minni gerðist það að hæstv. menntmrh. sakaði mig um að hafa skipt um skoðun frá 1. umr. um þetta mál og vísaði þar í 2. umr. og umrætt nál. Hann sagði m.a. að ég hefði sagt við 1. umr. að ég fagnaði því að þetta frv. væri fram komið en síðan legði ég til í nál. að það yrði fellt. Ég hef farið gaumgæfilega yfir ræður mínar og veit að hann fer með rangt mál. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að koma með leiðréttingu á túlkun menntmrh. á orðum mínum. Ég sagði mjög skýrt að ég fagnaði því að ríkisstjórnin ætlaði að reyna að treysta lagagrunn þessara gjalda svo háskólann neyddist ekki endalaust til að taka þau ólöglega, hinn kosturinn sem ríkisstjórnin hefði væri að lækka þau til fyrra horfs. Ég var sem sagt ekki að fagna því efnislega að ríkisstjórnin ætlaði að hækka þessi gjöld og lögfesta þau heldur því að frv. kemur í veg fyrir að háskólinn neyðist til lögbrots.

Reyndar dró menntmrh. ummæli sín að hluta til til baka en mér fannst þetta mjög óeðlileg túlkun á mínum orðum og þess vegna vil ég ítreka hér að ég er alfarið á móti skólagjöldum og Kvennalistinn líka og það er mjög stór pólitísk ákvörðun að fara út í þá umræðu. Það er alls ekki það sem ég meinti þegar ég sagðist fagna því að frv. væri fram komið.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. menntmrh. að ég sagði það við 1. umr. um þetta mál að sem háskólakennari hefði ég orðið vör við að hækkuð gjöld, þjónustugjöld, skráningargjöld, skólagjöld eða hvaða hugtök sem við notum um þetta, hefðu haft ákveðin æskileg agaáhrif innan háskólans, þ.e. að fólk skráði sig frekar ef það væri af alvöru í námi og það væri meira að marka skráningartölur og annað slíkt. Það er auðvitað hægt að fara í þá umræðu að ræða rök með og móti þessu gjaldi. Það mætti t.d. einnig, eins og ég bendi á í nál., færa rök fyrir því að ef þessi sama upphæð héti skólagjöld væri eðlilegra að láta fólk greiða aðeins hluta þeirra ef það væri í hlutanámi. En það er ákveðið að gera það ekki af því að hér er verið í ákveðnum feluleik. Þótt það megi sjá ákveðin rök fyrir því að kalla þetta frekar skólagjöld þá er ég ákveðið þeirrar skoðunar að þeir kostir sem hugsanlega leiddu af hækkuðum gjöldum séu ekki nægilega miklir til að vega á móti því sjónarmiði sem felst í því að hafa engin skólagjöld með tilliti til jafnréttis til náms. Því ítreka ég hér fyrri afstöðu mína gegn skólagjöldum og gegn þessu frv. um dulbúin skólagjöld. Ég ítreka líka að ég sá ekki ástæðu til að standa að brtt. 2. minni hluta, ekki vegna þess að ég væri ósammála þeirri upphæð sem þar kemur fram heldur fyrst og fremst vegna þess að ég tel að lægri gjöld eða engin gjöld þurfi ekki sérstaka lagastoð með tilvísun til fortíðarinnar og þess svars við fyrirspurn minni sem ég gerði hér að umtalsefni áðan.

Virðulegi forseti. Ég gæti haldið langa tölu um þetta mál. Háskóli Íslands er í mjög erfiðri stöðu fjárhagslega og það er vissulega umhugsunarvert hvernig við eigum að standa að því að hann geti staðið undir nafni og virkilega bæði verið opinn fyrir öllum og boðið upp á fyrsta flokks nám. Því miður sýnist mér ekkert benda til þess nú að háskólinn sé að komast út úr þeim fjárhagskröggum sem hann er í. Háskólaráð hefur rætt þær hugmyndir að gera skólann að sjálfseignarstofnun með tilliti til hugsanlegra möguleika til að koma í veg fyrir það ástand sem nú er. Það sækja æ fleiri nemar inn í háskólann en fjárveitingar hækka ekki að sama skapi. Með sama áframhaldi hlýtur menntunin því að verða lakari og lakari ef ekki verður einhver breyting á.

Sumir hafa rætt um það eins og víða hefur komið upp erlendis að taka upp einhvers konar inntökupróf eða skerða aðgang að háskólanum. Í hugmyndum um sjálfseignarstofnun er ýjað að því að tekin verði upp skólagjöld. Þetta er mjög mikil grundvallarumræða og þarf að eiga sér stað hér á hinu háa Alþingi. Þetta er ekki sú prinsippumræða sem þarf að eiga sér stað. Hér er verið að lauma skólagjöldum inn og lögfesta þau undir fölsku flaggi. Því er ég alfarið mótfallin. Ég er líka mótfallin því að hefta aðgang að háskólanum og þess vegna vildi ég helst að við gætum séð til þess að háskólinn fengi auknar fjárveitingar. En ef það er niðurstaða stjórnvalda að það sé ekki hægt þá verður að grípa til annarra ráðstafana. Þá er ég tilbúin að fara í þá umræðu á réttum forsendum.

Því miður er enginn framsóknarmaður í salnum og ég óska eftir því að einhver framsóknarmaður komi hér inn. Það eru ekki síst ummæli hæstv. utanrrh., Halldórs Ásgrímssonar, í DV frá 28. mars 1995 sem ég vildi gera að umræðuefni. Hæstv. forseti, er hann ekki viðstaddur?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er ekki í húsinu.)

Það eru ummæli hans rétt fyrir síðustu kosningar sem ég vildi gera hér að umtalsefni. Ég held ég bíði með þau þar til í seinni ræðu minni um þetta mál. Ég vonast þá til að hæstv. ráðherra eða einhver framsóknarmaður verði í salnum.