Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:55:51 (5383)

1996-04-30 15:55:51# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er afleitt að ræða þau grundvallarmál sem skólagjöld eru án þess að nokkur ráðherra eða nokkur framsóknarmaður sé hér í salnum. Þeir hafa komið til umræðu vegna yfirlýsinga og loforða sem þeir gáfu fyrir u.þ.b. ári, í kosningabaráttunni sl. vor. Ég vil gjarnan, herra forseti, fá einhvern framsóknarmann hingað. Ég vil gjarnan eiga orðastað við þá. Er enginn þeirra í húsinu? Ég þarf að eiga orðastað við ákveðna þingmenn Framsfl., m.a. þann sem er næstur á mælendaskrá.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hv. 7. þm. Reykn., sem næstur er á mælendaskrá, verði viðstaddur umræðuna.)

Það er líka afleitt, herra forseti, að vera yfirleitt að ræða þessi mál þegar hæstv. menntmrh. er ekki á staðnum. (Gripið fram í: Saknaðir þú mín?) Ég saknaði hv. þm. sárlega. Ég hefði gjarnan viljað gera að umræðuefni málflutning hv. þm. og þingmanna Framsfl. í gær þegar þetta sama mál var hér til umræðu. Það var hreint og beint ótrúlegt að hlusta á hvað þeir gátu boðið mönnum upp á í þingsölum. Ég fann til með fyrrv. félögum mínum í Framsfl. Þeir voru að reyna að verja það að hafa brotið kosningaloforðin um leið og þeir komust í aðstöðu til að efna þau. Um leið og þeir komust í ríkisstjórnaraðstöðuna var farið að brjóta loforðin. Ég get fyrirgefið hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að hafa talað eins og hann gerði því hann hafði greinilega ekki verið á kosningafundum hér í Reykjavík, í skólunum hér í Reykjavík þegar frambjóðendur Framsfl. voru með gylliboðin. Þeir voru alls staðar með yfirboð, hvort sem það var í skólum eða á sjúkrastofnunum, með hópum fatlaðra eða sjúkra og aðstandenda þeirra. Alls staðar ætluðu þeir að gera betur en sú ríkisstjórn sem þá sat. Hverjar eru svo efndir þessara loforða? Það hefur verið skorið niður alls staðar og nú á að fara að seilast í vasa námsmanna. Ég minni enn á ummæli hæstv. núv. utanrrh. í DV rétt fyrir kosningar sl. vor: ,,Framsókn stefnir að því að lækka skólagjöld háskólanema.`` Hver er stefnan nú? Það er greinilega búið að snúa gjörsamlega við kúrsinum því hér er verið að hækka gjöldin eins og margoft hefur komið fram.

Ég get ekki annað en fundið til með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að vera í þessari aðstöðu nú. Ég minnist þess að hafa starfað með honum í menntmn. Framsfl. á síðasta kjörtímabili þar sem markmiðin voru nú háleitari en þetta. Hvernig er eiginlega komið fyrir þingmanninum? Þetta snýst nefnilega um það að standa við kosningaloforðin. Það er ekki rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson hefur haldið hér fram að framsóknarmenn hafi verið að standa við kosningaloforðin. Það á auðvitað að standa við kosningaloforðin. Það er ekki spurning hvenær maður gerir það. Það lítur út fyrir að hv. þm. Hjálmar Árnason ætli kannski að standa við þessi kosningaloforð þegar hann er búnn að skera svo mikið niður eða auka svo álögurnar á námsmenn í lok kjörtímabilsins að það muni ekkert sérstaklega mikið um það að lækka þetta aðeins fyrir næstu kosningar.

[16:00]

Eins og komið hefur fram í umræðunni standa þau gjöld, sem lögð eru á háskólanema, varla undir nafni sem innritunargjöld því að það hefur verið reiknað út að þessi gjöld geti varla farið yfir 9.000 kr. eins og kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta menntmn. þar sem týnt er til allt sem gæti flokkast undir innritunargjöld. Aftur á móti eru tínd til alls konar gjöld í útskýringum á innritunargjöldunum, hjá meiri hluta nefndarinnar svo sem aðgangur nemenda að tölvum. Því vil ég spyrja hvers vegna ekki er lægra gjald fyrir þá sem stunda háskólanám tímabundið eða hálfan vetur, kannski eitt missiri eða taka kannski eitt námskeið á önn. Hvers vegna þurfa þeir þá að greiða fullt gjald fyrir notkun á tölvum hálfan vetur? Reyndar kom það fram í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að hún viðurkenndi að gjaldið væri að hluta til rekstrarkostnaður þannig að það er verið að viðurkenna að verið er að greiða skólagjöld en ekki innritunargjöld. Það er búið að viðurkenna það hér að þetta sé rekstrarkostnaður háskólans sem er verið að greiða fyrir að hluta til í þessu gjaldi.

Annað sem er full ástæða til að taka til umræðu er það að upphæð þessara gjalda skuli vera endurskoðuð við fjárlagagerð á hverju ári. Eins og hefur komið fram í umræðunni er Háskóli Íslands í erfiðri stöðu fjárhagslega og hvað liggur þá beinna við en að breyta þessu gjaldi við næstu fjárlög í bandormi? Það hefur heldur betur verið gert með svokölluðum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum eins og við þekkjum frá síðasta bandormi. Ég held að framsóknarmenn, sem hafa verið að reyna að verja þessa gerð í ræðustóli Alþingis, ættu að sjá sóma sinn í að standa a.m.k. við þetta kosningaloforð. Það er víst nóg búið að svíkja kosningaloforð frá því að þeir komust í ríkisstjórnaraðstöðu fyrir ári.