Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:05:16 (5412)

1996-04-30 21:05:16# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, SF
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:05]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Hér er siðferðilega um mjög erfitt mál að ræða. Það hefur komið margoft fram í þessari umræðu. Ég mun aðallega gera 4. gr. frv. að umtalsefni, en hún er um nafnleynd kynfrumugjafa.

Mér finnst eftir að hafa skoðað það mál að það séu mjög sterk rök fyrir því að réttur barnsins sem verður til við kynfrumugjöf eigi að vera sá að það hafi rétt á því að geta komist að því hvert líffræðilegt foreldri þess er. Ég á sæti í heilbrrn. og sú nefnd skoðaði þetta mál, fékk það til umsagnar frá allshn. Ég lýsti þar strax efasemdum um að nafnleyndi ætti að ríkja og eftir því sem ég hef kynnt mér þetta mál betur og reynt að setja mig í spor þeirra einstaklinga sem verða til við kynfrumugjöf, þó að það sé að vissu leyti erfitt, þá hef ég sannfærst æ betur um að það eigi ekki að ríkja nafnleynd. Ég held að sú staða þegar þessi börn hugsanlega fá vitneskju um það að þau séu til komin vegna kynfrumugjafar, þá sé sú staða mjög óréttlát ef þau hafa ekki tækifæri til þess að komast að því ef þau vilja hvert þeirra líffræðilega foreldri er. Það á sem sé að vera réttur hvers manns að vita um sinn líffræðilega uppruna fyrst það er hægt að koma því þannig fyrir. Umboðsmaður barna, siðaráð landlæknis, Mannréttindaskrifstofan og fleiri aðilar hafa tekið mjög skýrt á þessu máli og telja að réttur barnsins eigi að vera skýlaus þannig að nafnleynd líffræðilegra foreldra eigi ekki að ríkja. Ef vilji einstaklings stendur til þess að fá vitneskju um líffræðilegt foreldri sitt við sjálfræðisaldur, þá eigi að virða þann vilja. Í þessu sambandi hefur verið vísað til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu.

Mér skilst að nú séu til eitthvað um 250 Íslendingar vegna gjafasæðis frá Danmörku. Þeir sem eru ákafir talsmenn með nafnleyndarákvæðinu færa þau rök fyrir máli sínu að með því að aflétta nafnleynd, þá væri ekki hægt að fá gjafasæði og það hljóti því að vera betra fyrir þessi börn að vera til heldur en ekki, að þetta snúist sem sagt um það að verða til eða ekki. Það er hins vegar ljóst að nafnleynd ríkir ekki í Svíþjóð, Hollandi, Þýskalandi, Sviss og á Spáni. Þetta kemur fram í einu nefndarálitinu. Þar virðist þetta ganga alveg upp. Ég spyr: Af hverju getur þetta dæmi þá ekki gengið upp hér alveg eins?

Þau furðulegu rök hafa einnig heyrst að það sé ekki ástæða til þess. Ég hef reyndar ekki heyrt þau rök hérna innan þessa þingsalar, en ég hef heyrt þau annars staðar, að það sé ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvort einstaklingar fái að vita um uppruna sinn af því að um það bil 10% Íslendinga séu hvort eð er rangt feðraðir. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að taka undir svona röksemdafærslu. Ég vil fá að taka sérstaklega undir eftirfarandi orð í nefndaráliti 2. minni hluta, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Það eru mannréttindi að eiga þess kost að þekkja uppruna sinn, hluti af sjálfsagðri vitund fólks um sjálft sig, og meðal íslenskrar þjóðar er rík hefð og vilji til þess. Löggjafinn má ekki taka þennan rétt af einstaklingum.``

Ég vil líka benda á að í nefndaráliti 2. minni hluta segir, með leyfi forseta: ,,Réttarþróun í Evrópu er tvímælalaust sú að nafnleyndinni gagnvart viðkomandi einstaklingi sé aflétt og í nýrri íslenskri löggjöf um tæknifrjóvgun á skilyrðislaust að taka mið af þeirri þróun. Sú spurning hlýtur að vera áleitin hvort verjandi sé að banna með lögum að veita einstaklingi upplýsingar um uppruna sinn, einkum ef hann fær á einn eða annan hátt vitneskju um það síðar á lífsleiðinni að hann sé ekki líffræðilega skyldur foreldrunum.``

Varðandi þessi orð sem koma fram í nefndaráliti 2. minni hluta, vil ég benda á þessu til stuðnings, þessari þróun, að nú er til umfjöllunar í heilbrn. frv. til laga um réttindi sjúklinga. Þar eru þau nýmæli að það á að aflétta leynd af öllum sjúkraskrám hvort sem þær eru gamlar eða nýjar, en nú er að finna í lagatexta ákvæði sem banna aðgang sjúklinga að sínum eigin gömlu sjúkraskrám. Nýlegur hæstaréttardómur hefur fallið í máli þar sem sjúklingur krafðist þess að fá upplýsingar úr gamalli sjúkraskrá sem færð var um hann. Sá dómur féll honum í vil á grundvelli þess að í lögum segir að einstaklingar skuli fá vitneskju um þær upplýsingar sem yfirvöld færa um viðkomandi. Hér má því segja að það sé dæmi um að þjóðfélagið er að opnast gagnvart upplýsingastreymi á margvíslegan hátt. Manni finnst innst inni að það sé ekki réttmætt að leyna þegnum upplýsingum um þá sjálfa ef það er hægt að komast hjá því. Það að hafa nafnleynd vegna þess að væntanlegum foreldrum þyki það þægilegra og eigi erfitt með að taka á því ef barnið vilji vita um líffræðilegt foreldri sitt eftir að sjálfræðisaldri er náð, finnst mér varla nægjanleg rök til þess að svipta barn þeim réttindum að geta komist að því hvert þess líffræðilega foreldri er. Einstaklingur sem getinn er með gjafakynfrumu og kemst einhvern veginn að því, hlýtur að spyrja sjálfan sig ýmssa spurninga, eins og t.d.: Hvernig lítur líffræðilegt foreldri mitt út? Er það eitthvað líkt mér? Hvernig er faðir minn útlits? Alls konar svona spurningar hljóta að vakna. Það eru þekkt dæmi þess að fólk fer að leita að sínum líffræðilegu foreldrum eins og hér kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Jónssonar varðandi samtök Stríðsbarna á Íslandi. Þá má mjög vel vera að fólk sé haldið nánast þráhyggju gagnvart þessu og hugsi sem svo: Ég vildi að væru til lög sem gæfu mér rétt til að komast að þessu. Af hverju eru þessi lög ekki til? Af því að ég vil fá að vita.

Að sjálfsögu þurfa einstaklingar sem svona er ástatt um að fá einhverja sérfræðiaðstoð með þessa ákvörðun, þ.e. að fá upplýsingar um líffræðilegt foreldri sitt og hvaða afleiðingar það geti hugsanlega haft á viðkomandi einstakling.

Ég vil segja það að lokum að eftir að ég hef velt þessu fyrir mér fram og til baka, þá treysti ég mér ekki til þess að styðja brtt. meiri hluta allshn. sem gerð er á nafnleyndarákvæðinu. Ég vil virða rétt barnsins til að hafa tækifæri til þess ef það vill að komast að því hver er líffræðilegur uppruni þess.