Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:09:23 (5442)

1996-04-30 23:09:23# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. meiri hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Mér finnst afar viðeigandi þegar hér er til umræðu erlend fjárfesting í sjávarútvegi á ofanverðri 20. öld að menn sæki sér helst rök í Hávamál sem geyma margan gamlan vísdóminn. Reyndar er það þannig að eftir takmörkuðu minni á þann kvæðabálk mætti sjálfsagt finna tilvitnanir sem rökstyddu flest sjónarmið sem fram hafa komið því að svo margslungið kvæði eru Hávamálin. Þar er t.d. talað um að menn séu lítilla sanda og lítilla sæva en það er líka eitthvað rætt um það að hollt sé heima hvat. Mörg spakmæli minna nú á að hollur sé heimafenginn baggi og mönnum sé nú hyggilegt að búa vel að sínu. Ætli það sé ekki það sem er grundvöllur þeirrar umræðu þrátt fyrir allt sem hér fer fram að það eru að einhverju leyti mismunandi skoðanir á því hvernig málefnum íslenskum sjávarútvegs og þar með auðvitað íslensks efnahags og atvinnulífs í mjög ríkum mæli verði best búin framtíð í nýju og alþjóðlegu viðskiptaumhverfi okkar.

Ég hef haft nokkra ánægju af því, herra forseti, að fylgjast með þessari umræðu. Hún hefur satt best að segja verið á köflum skrautleg og það krossast nokkuð línur og sjónarmið. Ég hef upplifað mig í þeirri sérkennilegu stöðu að vera oft og tíðum einn helsti og stundum nánast eini stuðningsmaður þess stjfrv. sem er til umfjöllunar. Það átti sér formælendur fáa t.d. við 1. umr. fyrir utan þann sem hér stendur og svo að sjálfsögðu hæstv. ráðherra sem mælti fyrir því. Ástæðan er sú að ég tel að hér sé verið að taka tiltölulega skynsamlegan og hófsamlegan áfanga í því að laga löggjöf okkar að óumflýjanlegum staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir í viðskiptaumhverfinu. Þeirri staðreynd að með því frelsi fjárfestinga og fjármagnshreyfinga milli landa sem Ísland er aðili að og er í æ ríkari mæli að gera, ekki bara Evrópu, heldur allan heiminn að einu markaðssvæði, er óhjákvæmilegt að einhver óbein eignaraðild komi af og til upp í fyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi. Þess vegna var fljótlega ljóst að það yrði að laga löggjöfina frá 1991 að þeim veruleika. En eftir sem áður er ég talsmaður þess að menn fari mjög gætilega og haldi til haga og varðveiti þann fyrirvara á fjárfestingum erlendra aðila í sjálfum kjarna sjávarútvegsins sem við höfum samningsbundinn rétt til þess að varðveita. Auðvitað má ræða lengi dags eða kvölds eða nætur um rökin með og á móti því að erlend fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi sé af hinu góða, nauðsynleg eða óumflýjanleg, ómissandi eða hvað menn vilja kalla það gegn hinu að ástæða geti verið til þess að fara varlega. Það geti verið heppilegra til lengri tíma litið að eignarhaldið og fjármagnið í þessari grein verði að sem allra mestu leyti innlent svo fremi sem þess sé kostur. Og um þetta geta menn lengi deilt.

Það er áhugavert að fara t.d. yfir röksemdir minni hluta efh.- og viðskn. í nál. á þskj. 830 þar sem tíundaðir eru kostir og gallar fjárfestinga útlendinga í sjávarútvegi en mér sýnist nú aðallega verið þar að telja upp það sem nefndarmenn telja kostina. (Gripið fram í: Útgerð...) Ja, ég get svo sem út af fyrir sig gert það en ég ætla aðeins að staldra við nokkra af þeim kostum sem hv. nefndarmenn eru þarna með. Ég er sammála sumu sem þarna kemur fram en öðru ekki. Mér dettur ekki í hug að halda öðru fram en því að það eru vissulega ýmsir kostir sjáanlegir við að ná erlendu áhættufé inn í íslenskan sjávarútveg. Að sjálfsögðu mundi það í mörgum tilvikum verka jákvætt en ég er þeirrar skoðunar að það sé líka ástæða til þess að fara þar varlega og það sé alls ekki einhlítt jákvætt. Í því geta líka falist mjög neikvæðir þættir.

Það fyrsta sem talið er til á nál. á þskj. 830 er að fyrirtæki geti ef þessi fjárfesting verði opnuð sótt sér áhættufé og verði þá ekki eins háð erlendu lánsfé. Þetta er að mínu mati ekki alveg rétt fullyrðing. Hún stenst ekki skoðun í nútímanum. Það er ekki þannig að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki séu í vaxandi mæli háð erlendu lánsfé. Þvert á móti eru þau að greiða niður erlendar skuldir sínar og þau eru m.a. að gera það með því að styrkja stöðu sína með hlutafjárútboðum á innlendum markaði.

[23:15]

Ég leyfi mér að spyrja á móti: Er til einhver jákvæðari þróun fyrir íslenskan sjávarútveg og fyrir íslenskt efnahagslíf en sú að innlent fjármagn leiti út í sjávarútveginn og styrki stöðu fyrirtækjanna? Er einhver hér sem heldur því fram að það sé betra að peningarnir séu útlendir en innlendir? Ég hef ekki trú á því. Er þá a.m.k. ekki hægt að viðurkenna að eins og málin standa nú um stundir og hafa gert síðustu missirin má segja eftir að íslensk fyrirtæki hófu í einhverjum mæli að fara út á hlutabréfamarkað að þá hafi gleðilega birst okkur sú þróun að stærri íslensku fyrirtækjunum hefur gengið vel og jafnvel þeim smærri líka? Ég þekki mörg dæmi þess að smærri hlutafélög í einstökum byggðarlögum hafa náð auknu hlutafé inn m.a. með almennu hlutafjárútboði þar sem mjög almenn þátttaka íbúa á viðkomandi svæðum hefur komið til sögunnar. Er það ekki gott? Er það þá ekki í lagi? Er þá rétt að segja að sjávarútvegurinn sé sem slíkur í einhverri hengjandi þörf fyrir erlent fé og ef hann fái ekki erlent áhættufé neyðist hann til að taka erlend lán? Ég mótmæli þessari fullyrðingu. Hún stenst ekki nema að hluta til.

Það er líka sagt að Íslendingar hafi fjárfest mikið í sjávarútvegsfyrirtækjum erlendis og það sé óeðlilegt að við beitum þá takmörkunum á móti. Þetta er að mínu mati ekki sanngjarn samanburður. Það er vissulega rétt að Íslendingar hafa verið að fjárfesta nokkuð í sjávarútvegi erlendis. Meira hefur verið um að íslensk útrás í þessum skilningi hafi birst í gegnum ýmiss konar samstarfsverkefni og þjónustusamninga við erlend sjávarútvegsfyrirtæki en stundum er það þó með beinni eignaraðild. En sjávarútvegurinn í þeim löndum er ekki sambærilegur við sjávarútveginn á Íslandi. Í sumum tilvikum er um það að ræða að Íslendingar eru að koma til bjargar mjög veikum og illa stöddum erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa notið styrkja og framlaga úr sjóðum fylkja og héraða og alríkisstjórna og menn biðja Íslendinga að koma og reyna að bjarga rekstri. Þá er væntanlega ekki um að ræða neina kröfu um gagnkvæmni í þeim efnum enda er ólíku saman að jafna. Ég vek líka athygli á því að þegar Íslendingar eru að fjárfesta erlendis almennt þá eru þeir yfirleitt ekki að fjárfesta beint inn í auðlindir viðkomandi þjóða. Að minnsta kosti ekki í flestum þeim tilvikum sem ég þekki til. Mér er ekki kunnugt um að Íslendingar hafi komist í að kaupa upp olíulindir eða kolanámur eða eitthvað annað því um líkt hjá erlendum ríkjum.

Það er sagt að óbein eignaraðild útlendinga feli ekki annað í sér en staðfestingu á óbreyttu ástandi og því fylgi engin sóknarfæri. Þessu er ég ekki sammála. Ég þekki m.a. dæmi um nýtilkomin, undirrituð og samningsbundin samskipti innlendra fyrirtækja og erlendra sem bíða eftir þessu frv. Það er beðið eftir því að þetta verði gert að lögum þannig að tilteknir samstarfssamningar, sem byggjast á erlendri, óbeinni eignaraðild í fyrirtæki hér innan lands sem aftur á í frumvinnslufyrirtæki og það sama reyndar aftur í útlöndum, verði löglegir og geti birst. Ég get því miður ekki nefnt dæmin eins og á stendur en þau geta komið fram síðar og gera það væntanlega innan skamms. Það eru til slík verkefni sem munu nýta sér akkúrat þann farveg sem hér er verið að lögfesta fyrir samstarf af þessu tagi. Það getur vel verið að í einhverjum tilvikum hefðu menn gjarnan viljað að þessi mörk væru önnur, hin óbeina eignaraðild gæti verið hærri eða jafnvel bein eignaraðild komið til. En ef menn eru áhugasamir um samstarf sem er báðum aðilum hagstætt þá leysa menn þau mál. Þá sætta menn sig við þessar leikreglur og búa sínu samstarfi farveg í samræmi við það. Það er a.m.k. sú reynsla sem ég hef af kynnum af málum af því tagi.

Ég held einnig, herra forseti, að það sé ekki hægt að ræða um þetta öðruvísi en þannig að menn muni eftir því hvað hér er undir. Mér finnst bera á því í umræðunni að menn tali um þetta eins og hvern annan sjoppurekstur eða einhverja slíka starfsemi sem sé í raun ótengd landinu og auðlindum þess og þetta sé að öllu leyti sambærilegt við einhverja slíka þjónustustarfsemi eða iðnað. Það er það ekki. Hér er um auðlindanýtingu að ræða, grundvallarauðlind þjóðarinnar. Það eru fiskveiðiréttindin sjálf sem eru sameign þjóðarinnar og grundvallast á fullveldi þjóðarinnar og rétti hennar til landsins. Hér er líka í húfi forræði yfir ráðstöfun og nýtingu þeirrar auðlindar. Nú geta menn sagt sem svo að eftir sem áður munu Íslendingar geta sett öll þau lög um stjórn fiskveiða og löndun afla sem þeim sýnist. Það er út af fyrir sig rétt. En dettur einhverjum í hug að halda að löggjafinn verði ekki bundinn og undir áhrifum af því ef umtalsverð erlend eignaráhrif eru komin til sögunnar? Mundi það ekki hafa áhrif og skapast hagsmunaþrýstingur af því eins og öðru? Auðvitað. Menn verða bara að ræða þá hluti hreinskilningslega eins og þeir eru.

Ég þekki ekki til annars en að þjóðir, jafnvel þær sem ríkari eru af hráefnum og auðlindum en við Íslendingar, leggi nokkuð upp úr því að hafa sem mest forræði sjálfar yfir nýtingu þeirra og ráðstöfun. Í sambandi við erlenda fjárfestingu og ásókn, t.d. í fiskimið, væri fróðlegt fyrir menn að staldra aðeins við það sem hefur verið að gerast í Bretlandi og skoða stöðu bresks sjávarútvegs núna eftir að Bretar eru búnir að vera um skeið í Evrópusambandinu, áður bandalaginu. Þeir hafa glímt við hinn evrópska rétt og dómstólakerfið um árabil til að reyna að verja þó ekki sé nema sín heimamið. Hver er niðurstaðan? Hún er sú að erlendir flotar koma alveg upp að 12 mílna lögsögu Breta. Þeir veiða meira að segja á milli Írlands og Bretlands. Til viðbótar eru svo 20% af breska kvótanum komin í hendur erlendra útgerða í gegnum kvótahopp. Hvaða er kvótahopp? Kvótahopp er erlend fjárfesting í breskum sjávarútvegi. Ég hef ekki orðið var við að menn fagni því mikið í Bretlandi. Ég hef ekki orðið var við að efnahagssérfræðingar eða talsmenn verkalýðshreyfinga eða aðrir ábyrgir aðilar í því landi telji þetta neinn sérstakan gleðiboðskap. Þvert á móti hefur verið nánast þjóðarsamstaða um það í Bretlandi að reyna að verjast þessu. En það hefur ekki tekist af því að það hefur verið dæmt ólöglegt að leggja kvaðir varðandi eignarhald og útgerð frá Bretlandi á þá aðila sem hafa keypt sig inn í bresk útgerðarfyrirtæki og þannig komist bakdyramegin inn í kvótann og bresku landhelgina. Þetta á líka að geta verið okkur sönnun þess að auðvitað er fyrir hendi áhugi á því að komast að fengsælum fiskimiðum. Það er ásælni í gangi í þeim efnum allt í kringum okkur. Eða eru menn búnir að gleyma þrýstingnum sem Evrópusambandið beitti Íslendinga í samningaviðræðunum við EES til að sprengja sig hér inn í landhelgina? Þeim tókst það að vísu því miður að lokum þótt í litlu væri í gegnum langhalann sem breyttist svo í karfa á einni nóttu eins og kunnugt er. Einhver magnaðasta stökkbreyting sem menn hafa upplifað í lífríkinu þegar langhali hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáv. hæstv. utanrrh., varð að karfa. Þetta held ég að sé ástæða til að nefna hér og menn ættu að staldra við áður en þeir tala af einhverri léttúð um þessi mál.

Hv. þm. Kristján Pálsson sem talaði hér áðan var að kvarta undan því að umræðan um erlenda fjárfestingu almennt hefði verið erfið, þetta hefði allt gengið seint og verið mikið baks. Hann vísaði væntanlega til þess að Íslendingar væru miklir útnesjamenn að hafa ekki fyrir löngu gerst frjálshyggjumenn í þessum efnum og opnað allar gáttir. En er ekki rétt að hafa í huga hvernig umhverfið hefur verið í þessum efnum og hvað hefur verið að gerast? Ég held að það sé ekki hægt að segja að Íslendingar hafi miðað við sínar aðstæður og sérstöðu gert annað en að fylgja þeirri þróun sem hefur verið í gangi. Þeir hafa tekið mið af henni og reynt að hafa þetta á grundvelli sinna aðstæðna. Það liggur í eðli málsins að þeim mun minni og einhæfari sem efnahagskerfin eru þeim mun ríkari tilhneiging er til þess, rökstudd tilhneiging að mínu mati, að fara gætilega til þess að missa ekki fótanna. Af hverju skyldi það vera? Liggur það ekki augljóslega í því að þeim mun minni sem efnahagsleg eining er þeim mun minna afl hefur hún á móti hinum sem stærri eru? Og vilji hún varðveita sjálfstæði sitt og fara varlega verður hún að gera það með því að reyna að fóta sig á þessu svelli. Auðvitað eru stórþjóðirnar, ríku þjóðirnar eins og Bandaríkjamenn, Japanir og Þjóðverjar, ekki hræddir við erlenda fjárfestingu. Eðlilega. Þeir hafa þvílíkt efnahagslegt afl í heiminum að þeir þurfa ekkert að óttast það fjari undan þeim. En það er eðlilegt að smáþjóðir með mjög sérhæft efnahagslíf, sem vilja samt varðveita sjálfstæði sitt, vilji fara gætilega. Þær eiga að gera það að mínu mati. Þær mega gjarnan muna eftir því sem gamli Keynes sagði um að best væri að ullin væri spunnin heima þegar það væri mögulegt. Ætli hann hafi ekki haft býsna mikið fyrir sér í því að hollur væri heimafenginn baggi. (Gripið fram í.) Ég held að þeir sem hér gjamma fram í hafi nú ekki komist svo langt í hagfræðinni að þeir ættu að fara að setja út á Keynes.

Margt hefur líka verið dálítið sérkennilegt í þessari umræðu og mótsagnakennt. Ég ætla aðeins að staldra við það, herra forseti. Menn hafa verið að ræða dálítið um stöðu sjávarútvegsins í dag og þörfina fyrir þessa erlendu fjárfestingu. Hér var gagnmerk utandagskrárumræða fyrir nokkrum dögum um nauðsyn þess að leggja í hvelli auðlindaskatt á sjávarútveginn vegna þess að það væri að bresta þar á óviðráðanlegt góðæri sem færi alveg úr böndunum á næstunni ef ekki kæmi til auðlindaskattur. Það yrði því að skella honum á. Hverjir voru og eru helstu talsmenn þess að drífa á auðlindaskatt í sjávarútveginum af því að góðærið sé að koma? Það eru sömu menn og hér færa fram þau rök fyrir því að opna fyrir erlenda fjárfestingu að það verði að styrkja sjávarútveginn með auknu erlendu áhættufé. Er ekki, herra forseti, pínulítil mótsögn í þessu? Þurfa menn ekki aðeins að vanda sína röksemdafærslu? Í fyrradag komu hér upp þingmenn Þjóðvaka, hv. þm. og málshefjandi í utandagskrárumræðunni, Svanfríður Jónasdóttir og hv. þm. Ágúst Einarsson og höfðu þungar áhyggjur af góðærinu sem er að bresta á í sjávarútveginum. Það er von að hv. þm. Ágúst Einarsson hafi sérstakar áhyggjur af því. Það kæmi auðvitað illa við þann hv. þm. ef það brysti á mikið góðæri í sjávarútvegi. Það varð sem sagt að skella á auðlindaskatti. En svo fáum við hér nál. og málflutning þar sem er sagt: Það verður að opna fyrir beina fjárfestingu inn í íslenskan sjávarútveg því það verður að ná erlendu áhættufé inn í greinina til að styrkja hana, hún er of vanmegnug og á ekki nóga peninga. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Reyndar væri ástæða til að staldra við ýmislegt sem hv. þm. Ágúst Einarsson lét fjúka í umræðunni hér á dögunum. Það háttaði þannig til, herra forseti, að við sem hann beindi þá að skeytum áttum þess ekki kost að svara fyrir okkur. Þar sem viðfangsefnið var sjávarútvegur er sjálfsagt í lagi að gera það að einhverju leyti hér án þess að ég ætli að elta ólar við það í einstökum atriðum. En þessi umræða um auðlindaskatt og erlendar fjárfestingar í sjávarútveginum er auðvitað dálítið sérkennileg. Hún er líka því marki brennd að þeir sem hafa tekið trúna á þetta tvennt setja sig gjarnan í dómarasæti yfir öðrum sem eru þeim ekki sammála. Og eru þá ekkert að skafa utan af dómsorðunum eins og hv. þm. Ágúst Einarsson gerði hér á dögunum. Hann gerði hvorki meira né minna en að slá gjörsamlega eign sinni á allt sem heitir framsýni, nútímalegur hugsunarháttur, víðsýni, þroski, skilningur og vit hvað viðkemur umræðum um sjávarútvegsmál. Allir sem eru honum ekki sammála um að drífa á þennan auðlindaskatt eru hið gagnstæða. Satt best að segja nenni ég ekki að ræða málin undir þessum formerkjum. Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni Pálssyni að það er auðvitað hin mesta ánægja af því iðulega að ræða málin við hv. þm. Ágúst Einarsson. Hann hefur heilmikið mannvit til að bera og verulega þekkingu á sjávarútvegsmálum. Mér dettur ekki í hug að halda neinu öðru fram. En hann er samt ekki alvitur. Jafnvel þótt hv. þm. væri það, hefði ég eftir sem áður fullan rétt til að vera honum ósammála. Ég ræð því sjálfur hvað ég tel vera rétt og hvað rangt í þessum efnum og hef mínar skoðanir samkvæmt minni samvisku.

Eiginlega er enn furðulegra ef menn eru komnir út á þá braut að draga samasemmerki milli þess að það þurfi að drífa hér á auðlindaskatt til að fá útlendinga til að fjárfesta í sjávarútvegi. En það var næstum því gengið svo langt í umræðunni hér áðan. Staðreyndin er sú að þetta endalausa kjaftæði um auðlindaskatt er að verða stórkostlegur baggi á sjávarútveginum. Auðvitað verkar það öfugt. Hver er tilgangurinn með þessum auðlindaskatti? Hann er að draga rentuna út úr greininni. Hann er að ná arðinum af sjávarútveginum segja menn. Er það aðferðin til að fá menn til að fjárfesta í einni grein að segja: Svo erum við með í undirbúningi löggjöf til þess að ná öllum arði út úr greininni yfir í ríkissjóð eða eitthvað annað. Hvað hugsa hinir erlendu fjárfestar þá? Kannski hv. þm. Pétur H. Blöndal geti frætt okkur um það. Er þá líklegt að þeir komi streymandi til Íslands til að ávaxta sitt fé í greininni ef samtímis liggja fyrir áform um að skella á hana alveg sérstökum skatti til þess að unnt sé að tryggja að þar verði nú engin umtalsverð arðmyndun á næstu árum? Auðvitað eru þetta algerar mótsagnir og furðulegur málflutningur.

[23:30]

Nei, það er nokkuð öruggt að á meðan menn eru uppi með þessa auðlindaskattssvipu, þá geta menn a.m.k. afskrifað þá tegund erlendrar fjárfestingar sem hugsanlega kæmi hingað ella á hreinum arðsemisforsendum. Það er auðvitað sú fjárfesting sem við vildum fá ef við á annað borð ætlum að fá eitthvað inn í sjávarútveginn. Þá vildum við sjá þar koma inn það sem ég hef kallað hlutlaust erlent fé til þess að ávaxtast hér. Sumir spekingar segja mér að það sé ekki útilokað að eitthvert pínulítið erlent fjármagn kæmi inn til Íslands á slíkum forsendum fyrst og fremst vegna þess að stórir erlendir fjárfestar væru þá að hugsa um að dreifa áhættu. Þeir tækju bara ákvarðanir um það: ,,Við setjum 5% inn á Bretland og 10% á Bandaríkin og hálft prósent inn á Ísland, svona í þrjú ár. Hvað geta Íslendingar og hvað kunna þeir? Þeir eru nokkuð góðir í fiskveiðum víst og sjávarútvegi og kannski ferðaþjónustu. Við dreifum þessu þannig.`` Það gæti hugsast, segja fræðimenn, að einhver slík fjárfesting kæmi. Ég held að það sé alveg öruggt mál að hótanir af því tagi að dengja á auðlindaskatti um leið og eitthvað rofaði til í sjávarútveginum og jafnvel án þess, mundu girða fyrir slíkt. Þá stæði ekkert eftir nema hugsanlega erlend fjárfesting sem kæmi hingað inn á öðrum forsendum en þeim að hún ætlaði að ávaxtast sem slík inni í landinu. En það er nefnilega möguleiki. Við höfum oft séð slíkt gerast með öðrum þjóðum, iðulega. Þá eru menn að hugsa um eitthvað annað en arðinn af viðkomandi fjárfestingu í viðkomandi fyrirtæki í viðkomandi landi. Hverjir eru líklegir til að hugsa svoleiðis? Það eru einhverjar stórar samsteypur sem vegna umsvifa af afleiddum toga geta dregið arðinn til sín og látið hann koma fram annars staðar.

Til þess að vera ekki að gerast neinn spámaður um hvað gæti gerst á Íslandi í þessum efnum, þá getum við tekið önnur dæmi. Við skulum taka pappírsiðnaðinn í ónefndu nágrannalandi. Hvað hafa menn gert þar? Menn hafa keypt sér aðgang að timbri því það gengur á skógana í heiminum. Til hvers hafa menn gert það? Til þess að taka trjábolina og flytja þá milli heimsálfa, vinna úr þeim pappír, kvoðu og massa og allt hvað það nú er, í ónefndu nágrannalandi. Þá eru þeir ekki að hugsa um arðinn af fjárfestingunni sem slíkri í fyrsta landinu. Þeir eru að hugsa um arðinn af samsteypunni í heimalandinu. Og hann kemur fram þar. Við þekkjum þessar æfingar líka í reynd af samskiptum okkar við útlendinga. Einu sinni var fundið upp hugtakið ,,hækkun í hafi``. Það eru ýmsar slíkar aðferðir til.

Þetta má ekki tala um hér því að þá eru menn að reka hræðsluáróður, er sagt. Er það ekki? En það er þó varla hræðsluáróður að segja reynslusögur sem eru sannanlegar frá nágrannalöndunum eða annars staðar að úr heiminum. Það eru engar hræðslusögur. Það eru engar hrakspár um það sem kynni að geta gerst hér ef illa tækist til. En auðvitað er það alveg borðleggjandi og ég hef ástæðu til að ætla að framtíðin sé að teiknast þannig fyrir sjávarútveg og reyndar matvælaiðju í heiminum að það verði enn harðari slagur í þessum efnum, sérstaklega um hráefnisuppspretturnar á komandi árum af þeirri ósköp einföldu ástæðu að það er nokkuð borðleggjandi að matvælaverð í heiminum fer hækkandi á næstu áratugum svo fremi sem hér verða ekki einhverjar katastrófur og mannfellir og efnahagslegt hrun. Það er reyndar þegar farið að bera á þessari þróun samanber að verð á korni er núna mjög á uppleið. Eigi fiskneysla t.d. í heiminum að haldast í sama hlutfalli af fæðuþörf manna og hún er núna, þá þarf að auka fiskfang um tugi milljóna tonna á næstu árum. Það verður væntanlega fyrst og fremst gert með fiskeldi, en það liggur líka í hlutarins eðli að þá er líklegt að verðið á öllu hinu hækki og eftirspurnin og slagurinn um auðlindirnar, hráefnisuppsprettuna verði meiri. Það er því líka gott að skyggnast aðeins inn í framtíðina, líka fyrir þá sem þykjast hafa einkarétt á því, jafnvel þó að talsmenn fortíðarinnar eigi í hlut og bendi þeim á það. Ég held að við eigum ekki bara að dæma þessi mál út frá núinu. Það getur líka verið hollt að reyna að velta því fyrir sér hver er líkleg þróun þessara mála næstu 10, 20, 30 ár fram í tímann.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, minna á að sérstaða íslensks efnahagslífs og íslensks sjávarútvegs er mikil. Þó að það sé margkveðin vísa, þá er það samt satt. Það eru ekki margar þjóðir í kringum okkur og ekki í heiminum sem lifa að stærstum hluta til á sjávarútvegi og reka hann eins og alvöruatvinnugrein á markaðslegum forsendum. Það gerum við, eiginlega eina þjóðin. Það má segja að við séum að sumu leyti í svipaðri stöðu hvað sjávarútveg snertir og Ný-Sjálendingar eru hvað landbúnað snertir, þ.e. að þessar greinar eru í báðum löndunum svo yfirgnæfandi stórar í útflutningsframleiðslunni, að það er ekkert annað til í löndunum til að styrkja þær með. Þess vegna mundi efnahagslíf beggja landa einfaldlega fara á hausinn ef menn ætluðu að fara að reka þessar greinar til langs tíma með einhverjum niðurgreiðslum eða millifærslum. Slíkt er vitleysa og gengur ekki upp. Og ætli við þurfum nema eins og einn og hálfan klukkutíma í lofti til vesturs og suðurs, til Færeyja, til að reka okkur á dæmi um það að þjóð sem er yfirgnæfandi háð fiskveiðum og lifir á þeim getur ekki ríkisstyrkt þær til lengdar. Þetta setur okkur í mjög sérstaka stöðu vegna þess að sjávarútvegur er nánast alls staðar annars staðar og allt í kringum okkur, minni háttar atvinnugrein, ríkisstyrkt og gjarnan til viðbótar staðsett á svæðum sem njóta sérstakra byggðaframlaga og stuðnings af ýmsum toga í viðkomandi löndum. Þetta þekkjum við auðvitað fyrst og fremst frá Noregi, en líka t.d. frá Þýskalandi þar sem sjávarútvegsstaðirnir við norðurströndina eru og hafa lengi verið vandamálasvæði í þeim löndum og eru styrktir eins og allur sjávarútvegur innan Evrópusambandsins. Við þetta erum við að keppa.

Mér finnst stundum að þessu séu ekki gerð sanngjörn skil þegar farið er að tala um auðlindaskattinn og nauðsyn þess að koma honum á af sanngirnisástæðum gagnvart öðrum atvinnugreinum, t.d. samkeppnisiðnaði sem að slepptum skipasmíðunum býr þó við líklega einhver skástu og réttlátustu samkeppnisskilyrði sem er að finna í viðskiptum í heiminum. Það er þó þannig að menn eru komnir lengst í því að láta réttlát samkeppnisskilyrði gilda um hinn almenna iðnað með svona vissum undanþágum. Á hann þá rétt á því að vera að væla og biðja um einhvern auðlindaskatt af sanngirnisrökum meðan t.d. íslensk fiskvinnsla keppir við þá í Evrópusambandinu sem eru með milli 30--40% fjárfestingarstyrki og alls konar meðlög? Ég spyr.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé einmitt ekki á þeim sviðum sjávarútvegsins þar sem fjárfestingarfyrirvarinn gildir og er staðfestur samkvæmt þessum lögum sem við Íslendingar séum í vandræðum eða þurfum á erlendri fjárfestingu eða erlendum samstarfsaðilum að halda yfirleitt. Það á ekki við um fiskveiðarnar. Það getur engin þjóð í heiminum kennt okkur neitt um fiskveiðar. Við rekum afkastamesta fiskiskipaflota í heimi og það afkasta engir sjómenn í víðri veröld neitt í líkingu við það sem íslenskir sjómenn gera. Hverjir ætla þá að kenna okkur eitthvað í þeim efnum? Við rekum að mörgu leyti mjög háþróaða fiskvinnslu, á sumum sviðum líklega þá háþróuðustu í heimi í dag, t.d. í rækjuiðnaðinum. Hann er sennilega hvergi í heiminum orðinn betur tæknivæddur og búinn en á Íslandi. Það má kannski benda á einstök svið í annarri vinnslu þar sem við gætum notið góðs af samstarfi við erlenda aðila, en ég sé ekki að bein fjárfesting þeirra þurfi að verða nein forsenda þess.

En ég held að það gæti verið eftir miklu meiru að slægjast fyrir okkur í samstarfsverkefnum við erlenda aðila á ýmsum sviðum frekari vinnslu, fullvinnslu og markaðsstarfsemi í sjávarútvegi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við ættum að reyna að laða fram fjárfestingu og samstarfsverkefni af þeim toga, t.d. reyna að komast nær hinum vel borgandi japanska markaði og Asíumarkaðinum gegnum þátttöku og samstarfsverkefni við þá sem þar eru og starfa. Það hefur verið reynsla flestra þjóða að það sé mjög erfitt að komast nærri kúnnanum þar nema í gegnum samstarf við þarlenda. Við kunnum til verka á Ameríkumarkaði og hér í löndunum í kringum okkur, en það er erfiðara þegar fjær dregur og þjóðirnar verða ólíkari. Þar kæmu þá rökin fyrir því að verða þar í einhverjum samstarfsverkefnum. Ég hefði þess vegna talið mun gáfulegra að einhver erlend fjárfesting kæmi t.d. til sögunnar í fullvinnslu- og þróunar- og markaðshlutanum af þeim rekstri sem tengist sjávarútveginum. Þar held ég að væri eftir meiru að slægjast og samstarfsverkefni lægju að mörgu leyti eðlilegar við.

Herra forseti. Ég tel því vera gild, efnisleg rök fyrir því að með stjfrv. sem ég styð og er aðili að áliti meiri hluta efh.- og viðskn. og nál. á þskj. 764, sé verið að ganga frá þessu máli á skynsamlegan og farsælan hátt, a.m.k. um sinn. Auðvitað er ekkert óumbreytanlegt og þetta mál verður sjálfsagt áfram til skoðunar og umræðu. En ég er prýðilega sáttur við að þessu verði lent og því lokið með þessum hætti að svo stöddu.