Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:55:26 (5449)

1996-04-30 23:55:26# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. meiri hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað alls konar skömmtun í gangi af hálfu stjórnvalda. Það er mikil misskilningur að aðgangur að fiskimiðum séu einu dæmin um það. Það er alls konar starfsemi í landinu sem er eða hefur verið leyfisbundin og skömmtuð og það hefur í raun og veru verið fénýtanleg verðmæti, lyfsöluleyfi eða leigubílaleyfi eða guð má vita hvað. Út af fyrir sig hefur þetta verið verðmæt skömmtun.

Aðrar greinar nýta vissulega auðlindir. Orkan, hvað með þá orkuiðnaðinn og iðnaðinn sem nýtir orkuna? Er ekki sanngjarnt að hann borgi alveg eins? Við erum báðir þeirrar skoðunar, ég og hv. þm., að orkan eigi að vera sameign. Hvað með landið, landbúnaðinn? Er ekki verið að nýta þar sameiginlega auðlind sem við eigum öll? Landið, þó að bændur og aðrir landeigendur eigi kannski sín heimalönd o.s.frv. Hvað með jarðefnaiðnaðinn, jarðefni sem verið er að moka upp í stórum stíl og flytja til útlanda og eru óendurnýjanleg nema kannski að því leyti sem af og til gýs vikri? Er þá ekki sanngjarnt að menn borgi fyrir það? Fiskstofnarnir eiga þó að endurnýjast ef skynsamlega er gengið um þá.

Hvað með ferðaþjónustuna? Gerir hún ekki út á landið? Er hún ekki að selja Gullfoss og Geysi og Mývatn í útlöndum? Getur hún þá ekki borgað fyrir það? Eða hvað með afþreyingariðnaðinn? Er hann ekki með veiðileyfi á almenning? Getur hann ekki borgað fyrir þá auðlind? Hvar endum við? Ég held að málið sé stærra og flóknara en svo en við getum bara sagt: Þetta á að vera sjávarútvegurinn. Hann skal borga þennan sérstaka skatt. Það er sanngirnismál, annað er mismunun. Ég held að þetta snúi meira og minna á haus þegar betur er að gáð. Það væri einmitt mismunun að innleiða slíkan sértækan skatt á eina grein.