Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:07:59 (5456)

1996-05-02 13:07:59# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Félmrh. velur það þegar hann kemst í varnarstöðu að fara sjálfur í eins konar árásarstöðu. Það er mjög athyglisvert hvernig hann hefur brugðist við gagnrýni á þessu frv. sem er svo þýðingarmikið fyrir alla launamenn. Þegar það var gagnrýnt í þessum ræðustól að e.t.v. bryti frv. í bága við stjórnarskrá, e.t.v. alþjóðasamþykktir, þá sagði ráðherrann: Þá þarf bara að laga það. Núna þegar komin er niðurstaða í það sem er tilgreint í 13 liðum um frv. og álitamál tilgreind á nokkrum sviðum en mjög góðar og merkilegar athugasemdir í 4. lið, 11., 12. og 13., þá kemur ráðherrann fram í sjónvarpi og segir: Þetta er hin ágætasta niðurstaða. Það voru skoðuð 13 atriði og það var bara eitthvað að í tveimur. Þetta er bara gott mál. Svo er það bara allt í lagi þó að það brjóti eitthvað smávegis í bága við alþjóðasamþykktir af því að það braut hvort sem er ekkert í bága við stjórnarskrána.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það hér hvers konar metnaðarleysi það er orðið hjá ríkisstjórn að leggja fram frumvörp sem eru svo afdráttarlaus gagnvart launþegum og gera það með þeim hætti að það skipti engu máli hvort það sé e.t.v. eitthvað að finna að þeim varðandi stjórnarskrá, eitthvað e.t.v. varðandi alþjóðasamninga og svo er þetta bara lítið þegar upp er staðið.

Virðulegi forseti. Eftir stendur að þetta frv. er íhlutun í málefni launþega. Það stendur eftir óháð því hvort ráðherra metur athugasemdir Lagastofnunar litlar eða miklar. Það er alveg ljóst að það þarf að gera stórar breytingar. Vinnustaðarfélögin eru væntanlega úti, miðlunartillagan er úti. Það þarf að breyta formi atkvæðagreiðslunnar og hvers vegna í ósköpunum á þá að halda því til streitu að ljúka þessu frv. núna á þessum annasama tíma þegar þessi stóru mál, séð frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar, eru út úr frv.?