Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 16:31:30 (5500)

1996-05-02 16:31:30# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[16:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla. Þetta frv. er til orðið í því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum mánuðum og lýtur að flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Þetta frv. er með sama marki brennt ef ég má orða það svo og önnur mál sem snerta flutninginn að um það hefur náðst víðtækt samkomulag á milli þeirra aðila sem að málinu hafa komið, þ.e. ríkinu, sveitarfélaganna og kennara að svo miklu leyti sem kennarar komu að þessu máli en þeir hafa ekki gert athugasemdir við frv.

Það sem í þessu frv. ræðir eru atriði sem hafa komið upp annars vegar vegna samkomulags sem gert var milli ríkis og sveitarfélaganna um skiptingu kostnaðar vegna flutningsins og hins vegar vegna annarra mála sem hafa verið á döfinni og snerta þessi mál. Þannig er í 1. gr. gert ráð fyrir því að Samband ísl. sveitarfélaga fari með þau málefni grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag en þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila. Þetta ákvæði lýtur að því að það eru ýmis málefni, sem flutt verða frá ríkinu til sveitarfélaga, sem eru sameiginleg málefni sveitarfélaga og þarf að taka á á sameiginlegum vettvangi þannig að ekki skapist óvissa og tómarúm eða eins og segir í athugasemdum um greinina á þessi viðbót að tryggja frumkvæði og ábyrgð á málum sem falla undir mörg sveitarfélög, svo sem rekstur sérskóla og skólabúða. Ekki er líklegt að á þetta ákvæði reyni nema rétt á meðan flutningur grunnskólans stendur yfir. Tillaga um þetta ákvæði er flutt að ósk fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga í verkefnastjórn um flutning grunnskóla til að koma í veg fyrir að tómarúm skapist varðandi ákvarðanir sem snerta fleiri en eitt sveitarfélag. Á það við um skólabúðir, sérskóla og nýbúafræðslu. Litið er á ákvæðið sem nauðsynlegan varnagla svo að þessi viðkvæma starfsemi raskist ekki við flutninginn.

Í 2. gr. laganna er fjallað um það að sveitarfélag geti falið byggðasamlagi um rekstur grunnskólans þau réttindi og skyldur sem á sveitarfélagi hvíla samkvæmt lögum þessum, þ.e. ef fleiri en eitt sveitarfélag tekur höndum saman um rekstur grunnskóla er heimild til þess að fela slíku byggðasamlagi rekstur skólans.

3. gr. er hins vegar töluvert nýmæli í þessu samhengi öllu því að það endurspeglar samkomulag sem tekist hefur milli ríkisins og sveitarfélaganna um flutning á eignarhlut ríkisins í skólahúsnæði frá ríkinu til sveitarfélaganna. Það er mælt fyrir um það hvernig það á að gerast í 15 jöfnum áföngum og síðan á að lækka eignarhlut ríkisins eins og hann er skráður hjá Fasteignamati ríkisins 1. ágúst 1996 í lok hvers árs um 6,2% í fyrsta skipti 31. des. 1996 og jafnframt hækki eignarhluti sveitarfélaganna samsvarandi. Það er skilgreint í 2. mgr. þessarar frumvarpsgreinar hvernig síðan á að skilgreina þetta húsnæði nánar og hvernig tekið verði á málum ef breyting verður á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að skólahúsnæði sem ráðstafað er til rekstrar á vegum ríkisins skal samsvarandi eignafærsla á eignarhlut sveitarfélaga eiga sér stað á 15 árum frá sveitarfélagi til ríkis. Eins og kemur fram í greinargerð með þessari frumvarpsgrein er talað um að hér sé um það að ræða að afskrifa þetta húsnæði í jöfnum áföngum og koma því fyrir með þeim hætti sem lýst er í greininni.

Ég vek einnig athygli á því sem segir í umsögn fjmrn. um frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í frv. eru ákvæði um að eignarhluti ríkisins í skólahúsnæði grunnskóla verði afskrifaður í jöfnum áföngum á 15 árum og hann þannig yfirfærður til þeirra sveitarfélaga sem annast og kosta viðhald húsnæðisins. Með skólahúsnæði er átt við húsnæði samkvæmt ákvæði 19. gr. grunnskólalaga sem er notað undir rekstur grunnskóla. Undanskilið er þó húsnæði sem framhaldsskólar hafa afnot af, þar á meðal íþróttamannvirki. Aðrar eignir en skólahúsnæði, svo sem skólastjóra- og kennarabústaðir, óbyggðar lóðir og landréttindi, eru einnig undanskildar. Ekki hefur verið tekin afstaða til einstakra eigna en með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum er áætlað að húsnæði sem sveitarfélög geta eignast að fullu samkvæmt lögunum sé á bilinu 320--360 þús. fermetrar að stærð og brunabótamat eignarhluta ríkisins í því sé um 15--17 milljarðar króna.``

Með þessu er sem sagt verið að gera ráð fyrir því að þetta mikla húsrými sem er metið á 15--17 milljarða kr. flytjist með þessum hætti frá ríkinu til sveitarfélaganna og um þetta er samkomulag á milli aðila og einhugur um það að standa að málum með þeim hætti sem hér er lýst.

Síðan er í 4. og 5. gr. frv. að finna ákvæði sem tengjast beinlínis samkomulagi sem var gert milli ríkisins og sveitarfélaganna um skiptingu kostnaðar. Starfstími skólanna er skilgreindur þannig að kennsludagar skuli ekki vera færri en 170 á skólaárinu og síðan eru ákvæði um einsetninguna og rýmkuð þau tímamörk sem eru í gildandi lögum um það á hvaða tíma einsetningin á að koma til framkvæmda og sá tími rýmkaður eins og mælt er fyrir um og síðan kennslustundafjöldi skilgreindur með þeim hætti sem lýst er í frv.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Það er skýrt og það sem vekur vafalaust mesta athygli í því er þessi eignatilflutningur sem fyrir er mælt í frv.

Herra forseti. Af því að hér er verið að flytja þetta frv. vil ég gera grein fyrir því að með því frv. sem liggur hér einnig fyrir frá fjmrh. um lífeyrisréttindamál kennara þá er lokið öllu því undirbúningsstarfi um breytingar á lögum eða flutning á frumvörpum sem varða flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Í bréfi sem er dagsett 10. apríl sl. frá verkefnisstjórn tilkynnir hún mér um lyktir á störfum sínum en þessi verkefnisstjórn var skipuð af mér 26. júní 1995. Ég vil með leyfi, herra forseti, lesa þetta bréf þannig að þingmönnum sé ljóst hvernig málið stendur núna að mati verkefnisstjórnarinnar. Það er svohljóðandi:

,,Verkefnisstjórn um flutning grunnskólans til sveitarfélaga telur að hún hafi lokið þeim verkefnum sem henni voru falin með erindisbréfi hinn 26. júní 1995.

Verkefnisstjórnin hefur í starfi sínu lagt sig fram við að tryggja að áætlanir um flutning grunnskólans samkvæmt lögum nr. 66/1995, um flutning grunnskóla, stæðust. Verkefnisstjórnin hefur komið saman á alls 39 formlegum fundum þar sem aðilar hafa rætt álitamál, leyst úr ágreiningi samræmt aðgerðir og gengið frá tillögum um meðferð mála sem eru forsenda fyrir því að verk- og tímaáætlanir gangi upp. Undirnefndir hafa skilað skýrslum og tillögum. Nauðsynleg lagafrumvörp vegna flutningsins eru komin fram. Reglugerðir sem snerta flutninginn beint eru ýmist frágengnar eða komnar til umsagnar. Sveitarfélög hafa skipulagt sérfræðiþjónustu við grunnskóla og eru að ráða starfsfólk á skólamálaskrifstofur og ýmsum framkvæmdamálum varðandi flutninginn hefur verið komið í ákveðinn farveg.

Eitt þeirra verkefna sem verkefnisstjórn var falið var að fjalla um ágreiningsefni sem næðist ekki samkomulag um í undirhópum. Verkefnisstjórn telur sig hafa leyst úr öllum slíkum málum á viðunandi hátt. Sá ágreiningur sem varð kennarasamtökum tilefni til að draga sig út úr samstarfi um undirbúning flutningsins er hins vegar þess eðlis að verkefnisstjórn telur ekki á hennar færi að leysa hann. Ljóst er að enn þarf að fylgja ýmsum málum eftir en verkefnisstjórnin telur eðlilegt að það sé gert á þeim vettvangi sem eðli máls krefst hverju sinni. Þeir aðilar sem fulltrúa hafa átt í verkefnisstjórninni geta hver um sig átt frumkvæði að frekara samstarfi og myndað nýjan samstarfsvettvang innbyrðis og við aðra ef þörf krefur.

Verkefnisstjórnin lítur svo á að undirbúningur að flutningi grunnskólans sé kominn á það stig að ekki verði aftur snúið. Verkefnisstjórnin er sammála um að komið sé að þáttaskilum í vinnunni við flutning grunnskólans og telur því rétt að hún láti af störfum.``

Þetta bréf er dagsett 10. apríl og undir það skrifa Hrólfur Kjartansson, Húnbogi Þorsteinsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Steingrímur Ari Arason. Á þessum tíma tók fulltrúi kennara ekki þátt í verkefnisstjórninni en Eiríkur Jónsson gekk til samstarfsins eftir 10. apríl og ritar undir bréfið með dagsetningunni 26. apríl 1996. Allir aðilar, sem koma að málinu, eru því sammála um hvernig að þessum lyktum er staðið, hvernig málið stendur núna, herra forseti, þegar þetta frv. er kynnt og það verður nú verkefni menntmrn., sveitarfélaganna og kennara að vinna áfram saman að einstökum málefnum þótt þessi verkefnisstjórn hverfi frá störfum. Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri á Alþingi að þakka þessum mönnum fyrir ákaflega vel unnin störf. Ég tel að án þeirra framlags og án þeirrar miklu vinnu sem unnin hefur verið í verkefnisstjórninni hefði málið ekki komist á það stig sem það er á nú og við stöndum frammi fyrir á Alþingi þegar öll frumvörp liggja fyrir og samkomulag hefur náðst um alla meginþætti málsins og lausn á öllum þeim atriðum sem upp hafa komið á þessu ferli sem við höfum unnið að frá því að frv. var samþykkt í febrúar á sl. ári.