Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 18:19:39 (5515)

1996-05-02 18:19:39# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[18:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að í þessum efnum þyrfti hver maður að líta í sinn eigin barm. Ég þarf ekki að horfa til sósíaldemókratíska vina minna á Norðurlöndunum til þess að komast að minni eigin niðurstöðu. Þetta mál er nánast allt siðferðilegt og siðfræðilegt jarðsprengjusvæði. Mér þótti hv. þm. takast vel upp að ýmsu leyti þegar hann var að reifa hér ýmis siðferðileg álitaefni. Ég var ekki sammála öllum niðurstöðum hans og ekki þeirri sem mestu skiptir. Ég komst, eftir að hafa skoðað minn eigin huga, að annarri niðurstöðu en hann. En það má vel vera að þar skipti miklu máli mín eigin reynsla og reynsluheimur vegna þess að ég þekki þetta af annarri raun heldur en hv. þm.

En áður en ég kem að því, herra forseti, þá tók ég eftir því að hv. þm. fjallaði um ýmis siðferðileg álitaefni sem tengdust erfðafræðilegum rannsóknum. Hann taldi að því er mér fannst að frv. tæki ekki nægilega vel á rannsóknum á fósturvísum. Ég er honum ekki sammála um það. Hann benti á að sömuleiðis væri lítið fjallað um rannsóknir á kynfrumum en ég tek eftir því að hans eigin breytingartillögur taka ekki á þessu vandamáli. Þegar hann kom hins vegar að því að túlka það hvernig hann komst að niðurstöðu sinni um það að einungis mætti nota eigin kynfrumur parsins, þá fannst mér honum bresta röksemdafærslan. Ég velti því fyrir mér hvort skýringarinnar kunni að vera að leita í því að í upphafi máls þegar hann var að tala um erfðafræðilegar rannsóknir, þegar hann var að tala um hina nýju veröld sem Aldous Huxley lýsti einu sinni. Er það staðan sem hann óttast? Hefur hann ekki meiri trú á mannkyninu en svo að hann heldur að við munum, vegna þessarar tækni, fara að vasast í okkar eigin erfðum og búa til fólk, jafnvel með staðlað útlit? Þetta taldi hann að kynni að verða jafnvel upp úr aldamótunum. Er það ástæðan? Ég velti því fyrir mér.

Hann sagði réttilega að hagsmunir barnsins ættu að skipta miklu máli. En veltum því fyrir okkur hvert hans eigin tillaga leiðir okkur. Samkvæmt henni verður e.t.v. í langflestum tilvikum ekkert barn til vegna þess að það má ekki nota gjafakynfrumur. Hvernig geta þau sem ekki geta eignast barnið gætt hagsmuna þessa sama barns í slíku tilviki? Það er auðvelt að uppfylla skilyrði sem þessi vegna þess að barnið verður aldrei til. Það þarf aldrei að gæta hagsmuna þess.