Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:33:04 (5534)

1996-05-02 21:33:04# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:33]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt út af ræðu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég hef áður flutt ítarlegar ræður um þetta mál og vil ítreka að það er mjög vel unnið af hálfu allshn. Það er ljóst að það er að mörgu að hyggja í þessu sambandi og því kannski ekkert sérstakt að þingmenn sem hafa ekki sett sig því betur inn í málin kynni sér þau og þurfi að ræða þau. Þó vill svo til að hv. þm. á einmitt sæti í heilbr.- og trn. sem fór sérstaklega yfir þetta mál að beiðni allshn. sem óskaði eftir umsögn þaðan. Hún skrifar ásamt öðrum undir nefndarálitið sem allshn. fékk í sínar hendur. Allshn. féllst einmitt á þær tillögur sem heilbr.- og trn. gerði.

Ég tel rétt að það komi alveg skýrt fram að Íslendingar hafa hingað til þótt standa ákaflega góðan vörð um mannréttindamál og ekki síst mannréttindi barna. Ég hef reyndar ekki heyrt þetta erindi sem hv. þm. var að vitna til þó að vafalaust komi margt merkilegt þar fram. Ég vil líka rifja það upp sem sem ég hef sagt áður að þegar barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var saminn kom fram tillaga frá einu aðildarríkjanna um að sett yrði ákvæði inn í samninginn um að barn ætti rétt á að vita um líffræðilegan uppruna sinn. Þessari tillögu var hafnað. Eftirlitsnefndin sem fylgist með framkvæmd sáttmálans hefur ekki treyst sér til að segja það beint út við þjóðir sem hafa algjöra nafnleynd í löggjöf sinni að það væri andstætt sáttmálanum þó vissulega hafi komið fram athugasemdir.

Það var líka vikið að ættleiddum börnum. Það hefur að vísu komið fram að þau börn geta líka átt við erfiðleika að stríða við að leita uppruna síns vegna þess að einfaldega er ekkert um það að ræða, sérstaklega þegar börn koma erlendis frá. Hins vegar hafa þau allan rétt á því hér á landi í gegnum dómsmrn. Það sem gleymist í þessu máli er bara það að börn sem eru tilkomin á þann hátt sem frv. um tæknifrjóvgun gerir ráð fyrir þau eiga foreldra, bæði föður og móður. Það er ekkert lagalegt samband við þann aðila sem gefur kynfrumuna sem verður til þess að barnið verður til.