Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:33:56 (5544)

1996-05-02 22:33:56# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir gerði það að umtalsefni hvort að þeir sem vildu aflétta nafnleynd vildu þá beita sér fyrir því að það yrði fært í lög að það væri skylda mæðra sem ekki hefðu feðrað börn sín að gefa börnunum upplýsingar um uppruna sinn. Nú er það svo að ef nafnleynd ríkir varðandi sæðisgjafa þá veit móðirin ekkert um sæðisgjafann annað en það að hann er líklega einn og níutíu með blá augu og ljóst hár af því að það var óskin varðandi föður. Ef við göngum út frá því að móðirin í hinu tilfellinu viti hver faðirinn er að barninu sem hún ber undir belti, þótt hún ákveði á þeim tíma að feðra ekki barnið, þá á barnið þó alltaf möguleika á því þegar það vex úr grasi að ganga eftir því við móðurina, sem veit hver barnaði hana, hver uppruni þess er. Og á þessu tvennu er grundvallarmunur. Annars vegar er möguleikinn fyrir hendi fyrir hinn unga mann eða hina ungu konu að knýja á um það við móðurina að hún ljóstri upp leyndarmálinu. Nú er ekki einu sinni víst að leyndarmálið sé gagnvart barninu, það getur fyrst og fremst verið leyndarmál gagnvart umheiminum. Í hinu tilfellinu veit móðirin ekki sjálf um sæðisgjafann vegna þess að það var bara pantað sæði með ákveðnum einkennum. Þetta er munurinn, virðulegi þingmaður.