Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 15:48:30 (5612)

1996-05-03 15:48:30# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[15:48]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Mikil vinna og góð vinna hefur farið fram og liggur að baki frv. til laga um framhaldsskóla sem hér er til umræðu og meðferðar. Ég stend að frv. og styð framgang þess. Hér hefur margt borið á góma á þessum degi eins og svo oft áður þegar menntamál hafa verið til umræðu. Það er vissulega vel því nauðsynlegt er að ræða menntamálin frá öllum hliðum og láta ekkert órætt í þeim efnum. Það má ábyggilega ræða þessi mál meira og betur sem og önnur. Það má líka segja eins og hér hefur verið sagt að allt orki tvímælis þá gert er en hitt getur varla nokkur maður sagt að ekki séu hér skýr lög, heildarlög um framhaldsskóla, sem vissulega ber að fagna þegar þau eru orðin að lögum. Þá er þess að geta að áhersla er mikil á starfsnám. Það er vel. Það hefur vissulega legið eftir og ástæða til að sinna því betur en verið hefur. Framkvæmdin á lögunum mun svo að sjálfsögðu skipta miklu svo rúm sem þau eru. Það mun líka velta mjög á frumkvæði heimamanna við skólana og í sveitarfélögunum hvernig til tekst. Ég vil aðeins gera að umtalsefni skipan skólanefnda og mikilvægi þess að þeir sem standa að rekstrinum eigi fulltrúa í skólanefndinni sem víðast af hverju svæði. Það er mikilvægt í hinum dreifðu byggðum. Skólastarfið á framhaldsskólastigi er víðast hvar stærsta samstarfsverkefni sveitarfélaganna og eitt það sem mest og best sameinar þau. Því er mikilvægt að fulltrúar í skólanefndum og við stjórn skólanna séu af sem víðustu svæði, þ.e. alls staðar að úr öllum þeim héruðum sem standa að hverjum skóla í dreifðu byggðunum. Það má líka segja metnaðarmál byggðanna, sveitarfélaganna, að búa vel að sínum skóla, hlúa vel að sínum framhaldsskóla eða skólum.

Þá er þess að geta að einnig liggur fyrir hér á þskj. brtt. frá þremur hv. þm., Ragnari Arnalds o.fl., um breytingu á lögunum varðandi kostnað við uppbyggingu heimavista. Það er alkunna að um alllanga hríð hefur sveitarfélögum verið mismunað í uppbyggingu á skólamannvirkjum eftir því hvort framhaldsskólinn hefur verið menntaskóli eða fjölbrautaskóli. Nú er útlit fyrir að breyting verði á. Þó má segja að mismunun verði áfram en með öðrum hætti, þ.e. við að koma upp heimavistum. Annars vegar eru þeir sem hafa byggt upp heimavistirnar, sumir fyrir fjármagn frá ríki, hins vegar þeir sem eru að hefjast handa við heimavistarbyggingarnar eða stækkun heimavista. Og það eru einkum þrír skólar sem ég veit um og hafa verið nefndir hér fyrr í dag, á Akranesi, Sauðárkróki og Húsavík, sem eru í þessari stöðu. Þessir skólar hafa fengið upphafsfjárveitingu til teikni- og hönnunarvinnu en stækkanir eða byggingar heimavista bíða þeirra laga sem hér liggja nú fyrir. Það er vissulega réttlætismál að allir sitji við sama borð, allir skólarnir og þeir sem að þeim standa. Það er, eins og ég sagði, réttlætismál. Ég bendi á að á Norðurl. v. er tiltölulega stutt þróun í málum framhaldsskóla og hefur þó gengið býsna vel að koma þar upp skólanum. En margt er ógert, margt er óunnið sem vissulega bíður framtíðar.

Annað mál þessu mjög skylt sem ég vildi koma að eru svonefndir dreifbýlisstyrkir. Þeir voru hér í umræðunni áðan. Þeir heyra reyndar undir önnur lög, lög um jöfnun námskostnaðar. Ég sit í úthlutunarnefnd fyrir þann sjóð og veit vissulega að það munar um fjárstyrk til að jafna aðstöðu ungs fólks til að stunda framhaldssnám þegar það þarf að fara að heiman frá sér og kosta sig í skóla fjarri sínum heimahögum. Það er áhyggjuefni sem mér er allvel kunnugt, svo sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gat um áðan, að vegna búháttabreytinga og samdráttar í tekjum í mörgum sveitum verður erfitt um vik að kosta unga fólkið til framhaldsnáms. Slíkt má ekki viðgangast og við því verður að bregðast með einhverjum hætti. Þróunin varðandi sumarstörfin er sú að tekjur fara minnkandi. Uppgripavinna, vel borguð, mikil vinna var fáanleg áður fyrr og þannig gátu margir kostað stóran hlut af sínu námi, í síldarvinnu eða einhverju öðru sem gaf góðar tekjur. Þetta þekkjum við sjálfsagt einhver eða mörg hér inni og þeir sem mál mitt heyra. Ég tel að námsstyrkirnir, hinir svonefndu dreifbýlisstyrkir þyrftu að hækka verulega um hríð meðan verið væri að finna aðra lausn. Það mundi jafna aðstöðu landsmanna meira en 100 millj. kr. fjárveiting í margt annað sem þó er lagt fram til jöfnunar innan og á milli landsmanna og landshluta.

Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur ásamt fleirum af sínu húsi flutt, eins og ég nefndi áðan, brtt. um kostnað við byggingu heimavista. Hana þarf vissulega að skoða og gaumgæfa og í öllu falli að finna og ræða kostnaðarskiptinguna. Ég vænti þess að hann standi á bak við mig í öðru því sem hér er gert að umtalsefni, standi eða sitji eftir því sem við á.