Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:12:54 (5617)

1996-05-03 16:12:54# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:12]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þm. Stefáni Guðmundssyni um að allt sem er umfram svokölluð norm, sem er stærðarviðmiðun og verðmiðun við byggingu þessara skólahúsa, er auðvitað á ábyrgð þess sem tekur ákvörðun um að byggja stærra eða dýrara en hin svokölluðu norm segja til um. En það sem ég var að segja er það að ef ríkið borgar 100% þá tekur ekkert sveitarfélag ákvörðun um að byggja stærra en eigandinn sem greiðir ákveður. Um það snýst málið. En með því að ríkið og sveitarfélögin byggi þetta með þessum hætti saman þá koma þarna að tveir aðilar sem báðir bera u.þ.b. jafna ábyrgð á kostnaði og framkvæmd. Það held ég að skipti miklu máli, ekki síst þegar verið er að byggja heimavistarhúsnæði. Mér er ljóst að það er víða um landið þörf á að byggja upp heimavistarhúsnæði. Ég tel að hér á Alþingi þurfi að fjalla um það. Ég treysti hæstv. menntmrh. til þess að láta fara fram ítarlega og vandaða úttekt á því hver þörfin er fyrir heimavistarhúsnæði við framhaldsskólana. Hún er sannarlega fyrir hendi eins og t.d. á Akranesi og Sauðárkróki, það er mér kunnugt um. Það þarf að skoða þörfina, meta hana í ljósi þess upptökusvæðis sem hver skóli hefur og meta það á grundvelli íbúafjölda og námsframboðs sem viðkomandi skóli hefur upp á að bjóða þannig að á vönduðum og faglegum nótum sé að þessu unnið og heimavistarbyggingar séu byggðar þar sem þörf er fyrir þær og þær byggðar þannig að þær nýtist sem best og séu vandaðar og vel búnar fyrir nemendur og aðra sem ætlað er að nýta þær.