Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:15:07 (5618)

1996-05-03 16:15:07# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ætli ég taki ekki upp þráðinn þar sem honum var sleppt hér í orðaskiptum hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Ég ætla sérstaklega að svara því sem hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði um brtt. okkar þingmanna Alþb. Ég fór ekki í andsvör við hv. þm. því ég var næstur á mælendaskrá. Ég vona að hv. þm. hafi ekki brugðið sér frá. Ég er algjörlega ósammála hv. þm. um mat hans á því að það séu sérstök sanngirnisrök fyrir því eða efnisrök að sveitarfélögin auki kostnaðarþátttöku sína í byggingu heimavista. Ég held að hv. þm. hafi horft þar algjörlega fram hjá einum mjög veigamiklum hlut í þessu sambandi í sinni röksemdafærslu. Það er að kostnaður vegna framhaldsskólahaldsins hlýtur að leiða til mismunandi útkomu sveitarfélaganna ef þessi þáttur er alfarið færður yfir á þau einfaldlega vegna þess að hann er til staðar í sumum sveitarfélögum við suma framhaldsskóla en annars staðar ekki. Það er enginn vafi á því að það mun verka letjandi á komandi árum gagnvart uppbyggingu heimavista við þá framhaldsskóla þar sem slíkt er eftir. Það mun í besta falli koma þannig út að það verður síður ráðist í byggingu heimavista þar sem þeirra er þörf. Þar af leiðandi verkar það letjandi á þá þróun eða þá uppbyggingu. Í versta falli og langlíklegasta falli mun þetta beinlínis mismuna sveitarfélögunum. Þau sem eru þannig sett landfræðilega eða standa fyrir skólahaldi sem þjónar stærri skólum lenda í viðbótarútgjöldum af þessum sökum. Og það er heldur ekki með neinum hætti gert ráð fyrir þeirri mismunun sem upp kemur einfaldlega í tíma og er vel þekkt fyrirbæri þegar breytingar verða með verkefnatilflutningi eða á kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þegar slíkt kemur til framkvæmda. Nærtækt dæmi er mismunandi staða sveitarfélaganna hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja þegar þau verkefni færðust alfarið yfir á sveitarfélögin.

Ég held að það séu engin rök þótt heimavistarhúsnæði sé í sumum eða jafnvel velflestum tilvikum nýtt eitthvað yfir sumartímann til annarrar starfsemi, til reksturs í ferðaþjónustu. Það má alveg eins snúa því við og segja að einmitt vegna þess að ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein fyrir alla landsmenn, ekki bara viðkomandi sveitarfélög, séu það alveg sérstök rök fyrir því að ríkið styðji við þá uppbyggingu. Eða hvernig halda menn t.d. að uppbyggingin hjá Ferðaskrifstofu ríkisins og uppbygging og rekstur Eddu-hótelanna hefði orðið eins og raun ber vitni ef ekki væri vegna þess að ríkið stóð fyrir henni? Og byggði þar af leiðandi gistiaðstöðu jafnvel í fámennum sveitarfélögum við héraðsskóla og heimavistarskóla sem ekki væri til staðar ella en er mjög mikilvægur hlekkur í þeirri keðju hringinn í kringum landið sem er nauðsynleg til þess að hægt sé að skipuleggja hópferðir stærri hópa. Það er alveg þveröfugt að mínu mati. Ef við skoðum reynsluna var einmitt þessi skipan mála, að ríkið kostaði uppbyggingu heimavistanna, mjög mikilvægur hluti af uppbyggingu í ferðaþjónustunni. Vægi þessa þáttar er reyndar orðið minna í dag en það var á sínum tíma. Þegar best lét var sá hluti ferðaþjónustunnar sem byggði á hinum stóru skipulögðu hópferðum og nýtti sér þjónustu Eddu-hótelanna geysilega stór og veigamikill hluti af okkar ferðaþjónustu. Það skapar engin vandamál þótt menn vilji leggja meira í þetta húsnæði í einhverjum tilvikum heldur en felst í þeim samþykktu stöðlum eða normum sem uppbygging á vegum ríkisins eða ríkis og sveitarfélaga grundvallast á. Þau vandamál eru vel þekkt og hafa þegar verið leyst ýmist með því að viðkomandi aðili, sveitarfélag eða jafnvel rekstraraðili í ferðaþjónustu, tekur á sig viðbótarkostnaðinn með því að betur búið húsnæði er byggt í tengslum við slíka aðstöðu. Við þekkjum orðið nokkur dæmi þess að í tengslum við heimavistarskóla eða gistiaðstöðu við skóla eru byggðar álmur sem sjálfstæð rekstrarfélög standa fyrir með betur búnum herbergjum sem fullnægja öllum kröfum. Þar með er hægt að bjóða upp á þá þjónustu fyrir þann hluta gestanna vilja betur búin herbergi. Þessi sambúð gengur það ég best veit prýðilega. Dæmi t.d. á Kirkjubæjarklaustri og við Stórutjarnarskólann í Ljósavatnsskarði. Þetta eru því ekki vandamál sem þurfa að vefjast fyrir mönnum og eru ekki rök fyrir því að mínu mati að velta þessum kostnaði alfarið yfir á sveitarfélögin. Ég er á móti þessu ákvæði og ég harma að það skyldi ekki koma tillaga um að kippa þessu til baka út úr hv. menntmn. Það eru engin rök í málinu að vegna þess að ekki kom út úr menntmn. einhver tillaga um þetta þá sé óeðlilegt að flytja brtt. um málið við 2. umr. Þetta var gert að umtalsefni við 1. umr. málsins, m.a. af þeim sem hér talar. Ég hvatti menntmn. til að fara ofan í saumana á þessu ákvæði og batt satt að segja vonir við að þessu yrði breytt. Reyndar batt ég vonir við það að fleiru yrði breytt og fleira yrði lagfært í þessu frv. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að þegar ég fór í gegnum brtt. meiri hlutans til undirbúnings þessari umræðu olli hún mér vonbrigðum. Ég hafði vonast til að frv. tæki meiri breytingum og yrði lagfært í fleiri tilvikum en brtt. meiri hlutans fela í sér.

En aðeins almennt að efni frv., herra forseti, og kringumstæðum við afgreiðslu þess. Ég vil endurtaka það sem ég sagði við 1. umr. málsins. Það má vissulega taka undir mörg jákvæð og göfug markmið sem sett eru fram í fyrstu greinum frv. og koma fram í hástemmdum yfirlýsingum í greinargerð um það sem standi til að bæta í skólastarfinu. Hins vegar spyr maður sig að því hvar þess sjái stað í efni frv. sjálfs að það séu innstæður fyrir þessum fullyrðingum og háleitu markmiðum. Hvar sér þess stað? Hvar sér þess stað að með þessu sé verið að gera skólann sjálfstæðan svo dæmi sé tekið? Ég finn það ekki, hvorki í frv. eins og það lítur út né í brtt. Ég get bara undir engum kringumstæðum séð að skólinn verði t.d. sjálfstæðari við þær breytingar á skólanefndunum sem hér er verið að gera. Ég held að þvert á móti sé þarna um afturför að ræða að ýmsu leyti. Það er ýmislegt fleira sem þarna á að gera, t.d. efla verkmenntunina. Ekki sé ég þess stað þegar betur er að gáð að það leiði sjálfkrafa af samþykkt þessa frv. Ég held því miður að hér sé á ferðinni eitt af þessum tilvikum þar sem menn safna saman háleitum markmiðum og skreyta sig með þeim en þegar betur er að gáð þá eru í raun og veru engar innstæður fyrir því að þær breytingar sem þarna er verið að gera feli slíkt í sér. Þvert á móti er ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum ákvæðum sem þarna eru á ferðinni. Það er að mínu mati dapurlegt að ekki skyldi koma út úr hv. menntmn., eftir þó þetta langan tíma því málið var hér til 1. umr. í byrjun nóvembermánaðar sl., meiri breytingar á frv. en raun ber vitni.

Í öðru lagi, herra forseti, er ekki hægt annað en staldra við þær aðstæður við afgreiðslu þessa máls að hér er á ferðinni enn eitt tilvikið þar sem verið er að afgreiða frv. um ný lög, nýja lagasetningu, um sjálfan framhaldsskólann eða framhaldsskólastigið í andstöðu við þá sem eiga að starfa samkvæmt lögunum. Og maður spyr sig að því, herra forseti, er þetta orðin einhver tíska, einhver regla hjá hæstv. ríkisstjórn að það skuli helst ekki setja meiri háttar löggjöf nema með illu, í andstöðu við þá sem eiga að búa við hana og starfa samkvæmt henni? En það er staðreyndin hér. Það lá fyrir strax í haust að kennarasamtökin voru á móti fjölmörgu í þessu frv. en þau óskuðu eftir því að fá að koma til viðræðna um breytingar á því og endurskoðun á frv. Við þessu hefur ekki verið orðið. Nú liggur fyrir við afgreiðslu málsins andstaða kennarasamtakanna. Kennarasamtökin harma að þau skuli ekki hafa verið höfð með í ráðum og að ekki var orðið við óskum þeirra og tilmælum frá því fyrr í vetur um að endurskoða frv. í samráði við samtök kennara. Þarna er á ferðinni því miður sem sagt enn eitt dæmið um að það á að beita afli. Það á að beita meiri hlutanum hér á Alþingi algjörlega í trássi við ríkjandi sjónarmið í þjóðfélaginu á meðal þeirra stétta sem málið varðar mest. Auðvitað er það þannig að það þýðir ekkert að fara að reka einhverja skólastefnu í landinu í andstöðu við starfsfólkið í skólunum. Eða heldur ríkisstjórnin að hún geti haldið uppi skólastarfi hér á landi án kennara? Eða að hún geti rekið þjónustu hins opinbera án opinberra starfsmanna? Það mætti ætla það eins og hér er gengið fram í hverju málinu á fætur öðru. Telur hv. ríkisstjórn virkilega gæfulegt að ganga svona fram í hverju málinu á fætur öðru? Er þetta hin nýja starfsmannastefna, herra forseti, sem mikið er látið af í skerðingarfrv. og hér í skólafrv. og ætlunin er að móta? Er það svona sem menn hyggjast vinna að henni? Ég tel það, herra forseti, ekki mjög gæfulegt.

Það liggja fyrir nýjar samþykktir frá kennarasamtökunum sem ástæða er til að minna á hér í þessum umræðum, t.d. í kennarablaðinu sem er nýkomið út, 4. tölublaði þessa árs. Þar liggur fyrir að framhaldsskólafrv. er til afgreiðslu á Alþingi í andstöðu við samtök kennara. Það er nýkomin ályktun frá Hinu íslenska kennarafélagi þar sem tekið er af skarið algjörlega með það að HÍK er andvígt ýmsum grundvallarákvæðum þessa frv. Það telur þar í mörgum tilvikum um afturför að ræða, skref afturábak í skólamálum, og harmar að ekki skuli hafa verið orðið við óskum kennarasamtakanna um samráð um meðferð þessara mála. Það blasir við okkur, herra forseti, að þessi nýja tíska er hér í heiðri höfð eins og í sambandi við málefni vinnumarkaðarins, þetta á að knýja í gegn í andstöðu við samtök kennara. Það er ekki gæfulegt. Satt best að segja held ég að hæstv. ríkisstjórn sé hér á mjög háskalegum villigötum og eigi að fara að hugsa sinn gang og þeir sem að henni standa eða bera ábyrgð á henni. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla að ganga svona fram í hverju málinu á fætur öðru. Það liggur í hlutarins eðli að ekki verður starfsandinn skemmtilegur meðal framhaldsskólakennara á komandi hausti ef hvort tveggja á yfir þá að ganga á þessu vori að hér verði þröngvað í gegn í andstöðu við þá löggjöf um þeirra skólastig sem þeir eiga að starfa eftir og síðan verði komið að hinni hliðinni á þeim með þvingunarlagasetningu af því tagi sem felst í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stéttarfélög og vinnudeilur. Það eru aldeilis kveðjur sem kennarastéttin fær svo dæmi sé tekið á þessu vori frá hæstv. ríkisstjórn. Hefði maður þó haldið að ef eitthvað væri þá væri ástæða til að reyna að vinna að því að bæta starfskjör kennara á Íslandi og gera þeim lífið léttara, ef svo má að orði komast. Fáir bera á móti því að kennarar á Íslandi eru undir ríkari vinnuskyldu fyrir lakari laun en starfsbræður þeirra í nálægum löndum. Um það er tæpast deilt að ég hygg.

Um ýmis önnur efnisatriði frv., herra forseti, mætti auðvitað margt segja. Ég ætla aðeins að staldra við fáein mikilvæg atriði en vísa að öðru leyti til þeirrar ræðu sem ég flutti við 1. umr. þessa máls. Ég ætla ekki að endurtaka það sem þar var sagt. Í fyrsta lagi staldra ég á nýjan leik við ákvæði 15. gr. um inntökuskilyrði. Ég er tortrygginn á orðalag þeirrar greinar og varð fyrir vonbrigðum að sjá að í brtt. menntmn. er ekki gert ráð fyrir neinum lagfæringum á þeim ákvæðum. Mér sýnist þar glitta í hugsunarhátt í skólamálum sem ég er ekki par hrifinn af. Ég fæ ekki betur séð en að í raun og veru felist í þeirri grein algjör opnun á það að einstakir skólar taki upp inntökuskilyrði. Það gerist meira að segja þannig að þau geta orðið mismunandi. Það er beinlínis um það fjallað í greininni. Það er að vísu sagt í upphafi 15. gr. að allir sem lokið hafi grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skuli eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla. En svo koma en-in. Næst kemur að því að inntaka nemenda á einstakar námsbrautir framhaldsskólans ákvarðast af þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi og í reglugerð skal kveða á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun, þar sem hennar er krafist.

Þarna er verið að opna með beinum hætti fyrir inntökuskilyrði og að þau geti orðið mismunandi. Svo kemur grein sem kemur í stað þeirrar sem áður tryggði öllum sem voru 18 ára eða eldri sjálfkrafa rétt til að spreyta sig á framhaldsskólanámi. Hún er orðin þannig að það er orðið heimildarákvæði skólameistara að undangengnu mati að veita nemanda sem orðinn er 18 ára gamall inngöngu á einstakar námsbrautir framhaldsskóla þótt hann uppfylli ekki lágmarkskröfur um námsárangur í lok grunnskóla og standist þar með ekki hin nýju inntökuskilyrði. Svo er sagt: ,,Nemendum, sem ekki hafa náð tilskildum árangri við lok grunnskóla, skal standa til boða fornám eða nám í sérstökum deildum á framhaldsskólastigi.`` Ef þetta er allt lesið saman og við hugsum okkur að þróunin yrði slík að alls staðar yrði um þessi inntökuskilyrði að ræða þá stendur ekki annar réttur eftir til handa nemendum sem jafnvel eru orðnir 18 ára en sá einn að komast í þetta fornám. Í reynd gæti það gerst í framkvæmdinni á grundvelli lagagreinarinnar svona orðaðrar. Ég er ekki að segja að það verði, það er að sjálfsögðu ekki ljóst að allir skólar taki upp inntökuskilyrði. Og það er ekki ljóst hvernig einstakir skólameistarar mundu beita heimildarákvæðinu. En það gæti gerst að eini sjálfstæði rétturinn sem menn hefðu til að fara inn í framhaldsskóla, reyna við framhaldsskólanám, ef þeir hefðu nú tekið út aukinn þroska og væru orðnir 18 ára eða meira og vildu reyna þetta á nýjan leik hafandi þó ekki náð lágmarksskilyrðum til inntöku eins og þau kunna að verða upp úr grunnskóla, væri sá að fá að setjast í þetta fornám. Þetta finnst mér ekki rétt. Ég er á móti því að þroski manna sé orðinn slíkur við lok grunnskólanáms að það sé réttlætanlegt að dæma endanlega með þessum hætti eins og hér er opnað fyrir um framtíð þeirra hvað frekari menntun snertir. Það er ógeðfelldur hugsunarháttur að mínu mati. Ég vil halda mig við þann skóla heimspekinnar eða skólapólitíkurinnar í þessum efnum sem lokar engum leiðum fyrir einstaklinginn til að auka þroska sinn hvar og hvenær sem hann vill láta á það reyna að bæta hann.

[16:30]

Ég held líka að þessar mismunandi kröfur, sem þarna er farið að gefa í skyn að menn geti farið að setja, séu mjög hættulegar. Hvað getur falist í því annað en að það verður farið að tala um fyrsta flokks og annars flokks skóla og fyrsta flokks, annars flokks og þriðja flokks námsgreinar og námsbrautir? Með öðrum orðum yrði farið að búa til einhverja tossafarvegi, tossafarvegi fyrir lélegustu nemendurna inn í slökustu skólana. Mér finnst brydda hér á hugsunarhætti af þessu tagi og ég er ekki sáttur við hann, herra forseti. Menn geta svo komið hér og sagt að þetta sé allt gert af umhyggju fyrir þeim sem erfiðast eiga uppdráttar í skólunum og það sé mikið fall og hér andi góðvildinni í garð þeirra sem erfiðast eiga uppdráttar í skólakerfinu út úr hverri setningu og ætlunin sé að auka við þá stuðning og guð má vita hvað. En hafa menn eitthvað í hendi um það? Hafa menn eitthvað í hendi að það sé meiri trygging í slíkum óskrifuðum hlutum en fortakslausu ákvæði sem tryggir mönnum t.d. aðgang að skólastiginu þegar þeir hafa náð vissum aldri? Ég hef ekki trú á því miðað við það hvernig við höfum staðið að þessum málum á undanförnum árum upp sé að renna slík tíð að mönnum verði betur borgið þannig. Margar þjóðir hafa í sinni löggjöf ákvæði sem tryggir öllum þegnum rétt til þess að hefja háskólanám án tillits til undirbúnings eftir að þeir hafa náð vissum aldri kannski í gegnum tiltekinn farveg sem þannig er opnaður inn í nám á háskólastigi. Ég þekki þess dæmi úr löggjöf margra þjóða að svoleiðis er það. Hvað þá um framhaldsskólann sem tekur við mönnum að jafnaði miklu yngri og óþroskaðri en háskólinn.

Um sjálfstæði skólanna, herra forseti, vil ég líka aðeins fjalla á nýjan leik og skólanefndirnar. Ég er ákaflega ósáttur við þessa breytingu á skólanefndunum. Ég tel hana stórkostlega afturför og kannski eitt það versta í þessu frv., líka vegna þess að ég hef engin haldbær rök heyrt flutt fyrir því að henda fulltrúum kennara og nemenda út úr skólanefndunum. Ég geri ekki mikið með það að einhvers konar hagsmunaárekstrar eða togstreita í skólanefndum verði svo erfið viðureignar ef fulltrúar kennara eru þar að það sé ekki við það búandi. Þegar komin eru stjórnsýslulög í landinu og hæfnisákvæði eru fyrir hendi bæði þar og annars staðar til að styðjast við ef um einhverja slíka beina hagsmunaárekstra eða hagsmunatengsl er að ræða þá bið ég um rökin fyrir því að kennarar eigi að vera sviptir þeim réttindum að geta setið þarna inni og haft áhrif á sínum vinnustað. Jafnvel þótt menn kæmust að þeirri niðurstöðu að það gæti verið erfitt fyrir skólanefndirnar og skólameistarann þar með að hafa fulltrúa kennara inni í skólanefndunum, hver eru þá rökin gagnvart nemendunum? Ekki ráða þeir menn til starfa í skólunum. Það eru engin rök af þessu tagi fyrir því að henda fulltrúum nemenda út. Að minnsta kosti eru þau ekki flutt með þessum hætti. Ég held að þetta geti haft slæm áhrif á starfsandann í skólunum. Ég held að þetta sé til hins verra. Mér finnst það fráleit miðstýring að láta menntmrh. einan velja meiri hluta fulltrúa í skólanefndinni. Mér finnst fráleitt að hæstv. menntmrh. suður í Reykjavík fari að handvelja meiri hluta allra skólanefnda í framhaldsskólum hringinn í kringum landið. Það er vitleysa. Það er arfur að ég hélt frá löngu liðnum tíma. En nú á þessum nýjustu og mestu miðstýringartímum eftir að Sjálfstfl. komst á nýjan leik inn í menntmrn er hafin þar miðstýring sem áður var helst samjöfnuður fundinn við mun austar á jarðarkringlunni. En svona er þetta nú merkilegt, herra forseti.

Fleira mætti til taka af efnisatriðum í frv. sem því miður er ekki farið í að lagfæra eða breyta í tillögum hv. menntmn. Um sjálfstæði skólanna og skólana sem vinnustað var líka nokkuð rætt við 1. umr. og þá kom í ljós dálítið merkilegur misskilningur þegar verið var að ræða þetta. Ég og hv. þm. Hjálmar Árnason áttum hér orðaskipti og ég leyfði mér að nefna hugtakið atvinnulýðræði í sambandi við þetta mál. Hv. þm. hélt að ég væri að tala um atvinnulýðræðið úti á vinnumarkaðnum og fékk því ekki heim og saman komið hvað það kæmi skólunum við. Ég var auðvitað og er að tala um skólann sem vinnustað. Skólinn er vinnustaður. Skólinn er yfirleitt einn stærsti ef ekki stærsti vinnustaður í hverju byggðarlagi. Skólarnir til samans eru stærstu vinnustaðir á Íslandi og skólinn er mjög mikilvægur vinnustaður bæði þeirra sem þar fást við kennslu og stjórnun og önnur störf og auðvitað líka nemendanna. Nemendur eru þar með vissum hætti ,,í vinnu``. Og það á að huga að þessum þætti málsins, skólanum sem vinnustað, sem vinnuumhverfi og því andrúmslofti sem þar er og þar ríkir. Ég er sannfærður um að í því tilliti eru þessar breytingar á skólanefndunum óheppilegar. Ég leyfi mér að segja að ég tali þar af reynslu, ég sat um tíma sem fulltrúi nemenda í gagnmerkri skólanefnd eða skólastjórn eða hvað það nú hét á þeim tíma í Menntaskólanum á Akureyri. Ég fullyrði að það að hafa sem stystar boðleiðir af því tagi með sjónarmið og hagsmunamál nemenda inn í stjórnsýslu skólans er skynsamlegt. Það er oft hægt með því að leysa mál sem ella gætu orðið enn þá erfiðari viðfangs. Það er ekki síst gott fyrir skólastjórnendurna að eiga þess kost að fá þannig milliliðalaust beint inn þau vandamál sem uppi eru og sjónarmið nemenda í sambandi við þau. Sama að mínu mati á við um kennarana.

Að lokum, herra forseti, vil ég hverfa aftur að því að hæstv. ríkisstjórn er hér að knýja fram afgreiðslu á þessu máli við þær aðstæður sem ég gerði hér að umtalsefni fyrr, þ.e. í andstöðu við þá sem við þetta eiga að búa og eftir þessu eiga að starfa. Það er að mínu mati mjög heimskulegt. Ég undrast það nokkuð að hæstv. menntmrh. skuli ekki sjálfur a.m.k. sjá að sér í þessum efnum svo ég segi nú ekki leggja metnað sinn í það að reyna að koma fram sinni fyrstu löggjöf af þessu tagi við aðrar og ánægjulegri kringumstæður. Er það virkilega svo að hæstv. menntmrh. sé sáttur við þetta? Það er búið er að baksa við og puða við þetta framhaldskólafrv. af tveimur hæstv. menntmrh. Sjálfstfl. og starfa að því í næstum fjögur ár ef ég man rétt, ætli það hafi ekki verið á árinu 1992 sem hin fræga 17+1 nefnd lagði af stað með 17 sjálfstæðismönnum og einum krata, eins og stundum er sagt. Svo hefur það verið borið til baka, sagt að verið sé að vísa til þess að í nefndinni hafi verið 17 menn úr Reykjavík eða af höfuðborgarsvæðinu og einn af landsbyggðinni. Það má vel vera og kannski er hvort tveggja rétt. En þetta nudd hjá Sjálfstfl. byrjaði víst fyrir þrem, fjórum árum. Það hefur verið reynt þrátt fyrir að þetta hafi tekið miklum breytingum að slá þessu upp sem einhverju flaggi fyrir nýja menntastefnu í anda sjálfstæðismanna. Það vantar svo sem ekki fagurgalann hér í greinargerðum og öðru slíku. Við erum búin að ræða hversu miklar innstæður séu fyrir því öllu. En einu þýðir ekki að mótmæla og það er að kringumstæðurnar við afgreiðslu málsins eru þær að kennarasamtökin, sem eiga að starfa eftir þessari löggjöf, eru á móti frv. Er þá hæstv. menntmrh. hreykinn af því? Eru þetta þær aðstæður sem hann vill hafa þegar hann fer að draga upp flaggið sitt, nýja framhaldsskólafrumvarpið eða nýju framhaldsskólalögin? Að vísu tókst svo neyðarlega til að þetta eru ekki fyrstu lögin sem hæstv. núv. menntmrh. fær afgreitt því að bautasteinninn, minnismerkið stóra sem hæstv. menntmrh. er búinn að reisa sér í gegnum sín fyrstu lög á sviði skólamála, eru skólagjöldin. Það eru lög um skólagjöld sem hér voru knúin í gegn fyrir fáeinum dögum og gerð að lögum.

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að sjá að sér í þessum efnum. Það hafa komið fram óskir um að málið verði tekið til nefndar á nýjan leik milli 2. og 3. umr. Það voru stjórnarliðar meðal annarra sem báru fram þær óskir, hv. þm. Stefán Guðmundsson og fleiri. Þannig að í sjálfu liggur að við því hlýtur að verða orðið. Ef réttmætar og rökstuddar óskir um slíkt koma fram þá ber að verða við þeim. Þar af leiðandi gefst tækifæri til þess að fara á nýjan leik yfir ýmsa þætti málsins og ég hvet til þess að síðast en ekki síst verði þar farið yfir tilboð kennarasamtakanna um að fresta afgreiðslu málsins og hefja viðræður við kennarasamtökin um breytingar á frv. þannig að hægt sé að afgreiða þessi mál í samstöðu eða í samkomulagi við kennarana í landinu.