Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:26:24 (5625)

1996-05-03 17:26:24# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa engar kjaraviðræður farið fram vegna þessa frv. Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir að dagarnir yrðu 150, þeir verða 145. Ég tel að miðað við það að starfsdagar í skólanum eru samkvæmt kjarasamningum 175 þá eigi að vera unnt að koma þessu fyrir innan kjarasamninganna. En það hafa engar kjaraviðræður farið fram um þessi mál í tilefni af frv. Menn hafa verið að fjalla um aðra þætti er lúta að starfi skólanna. Ef kennarafélögin telja að samþykkt frv. sé tilefni kjaraviðræðna verða þær vafalaust teknar upp og menn munu líta á það. En kjarasamningar eru í gildi eins og við vitum út þetta ár og menn hljóta að skoða þau mál í því ljósi að standa við gerða samninga.

Að því er varðar spurninguna um afstöðu kennarafélaganna þá er það rétt að þau hafa lýst andstöðu sinni við málið. Eins og fram kemur hefur verið komið til móts við ýmis sjónarmið þeirra. Ég tel að það sé skólastarfinu fyrir bestu og það sé samdóma álit allra þeirra sem líta á þetta mál hlutlægum augum með hagsmuni skólanna í huga að það sé fyrir bestu að þetta frv. nái fram að ganga á þeim forsendum sem nú liggja fyrir.