Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:31:41 (5629)

1996-05-03 17:31:41# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. las, þá stóð í þessu plaggi að af ýmsum er þessu haldið fram. Þetta er alls ekki skoðun ráðuneytisins. Það segir: ,,Af ýmsum er þessu haldið fram ...`` þannig að það er algerlega úr lausu lofti gripið að gera þetta að stefnu eða skoðun menntmrn. Hins vegar er plaggið skrifað til þess að svara þessum ,,ýmsu`` sem kunna að halda þessu fram og leita leiða til að menn haldi ekki slíkri vitleysu fram að það sé verið að skipta skólum í fyrsta og annars flokks skóla. Ein leiðin til þess er m.a. sú sem við erum að leggja til, þ.e. að menn auki samstarf og átti sig á því hvernig þeir geta starfað saman. Tveir skólar á framhaldsskólastiginu, Framhaldsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hafa t.d. ekki leyfi til að útskrifa stúdenta. Þeir sækja mjög fast að fá það leyfi. Ég tel að það beri að verða við þessum óskum frá skólunum svo framarlega sem það verður samvinna á milli þeirra og annarra framhaldsskóla í kjördæmunum þar sem þeir starfa. Ég held að það sé nauðsynlegt að gefa skólunum tækifæri til að útskrifa stúdenta en það verði jafnframt að gera ákveðnar kröfur um samstarf þannig að breiddin í náminu sé fyrir hendi. Því miður er það staðreynd að í þessum skólum ef ég nefni þá, t.d. á Laugum, er brottfallið mjög mikið eftir fyrsta árið. Við viljum koma í veg fyrir það og efla þessa skóla. Það er alls ekki stefna menntmrn. að draga skóla í dilka heldur þvert á móti að gera alla skóla jafngóða. Ekki að draga þá niður.