Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:46:50 (5639)

1996-05-03 17:46:50# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:46]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 628 er till. til þál. um umboðsmann aldraðra. Hún hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna forsendur fyrir stofnun embættis umboðsmanns aldraðra sem sinni gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra.``

Í greinargerð segir m.a. svo:

,, Með hliðsjón af þeim staðreyndum að Íslendingar verða elstir allra þjóða, að 26.300 Íslendingar eru 67 ára og eldri (31. desember 1995) og að hlutfall aldraðra af heildaríbúafjölda fer vaxandi er mikil nauðsyn á að stjórnvöld taki tillit til hagsmuna aldraðra þegar teknar eru ákvarðanir sem þá varða.

Mikinn hluta starfsævi sinnar eru einstaklingar að búa sig undir áhyggjulaust ævikvöld og taka þá mið af gildandi lögum og reglum um aldraða þegar lagt er í sameiginlega sjóði almannatrygginga og séreignarsjóði lífeyrissjóðanna. Því er nauðsynlegt að stöðugleika sé gætt í hvívetna hvað varðar fjárhagslega afkomu aldraðra. Í vaxandi mæli eru byggðar fyrir aldraða sérstakar íbúðir sem verða að fullnægja ákveðnum skilyrðum. Á því hefur því miður orðið misbrestur enda þótt löggjafinn hafi reynt að hafa þar nokkur áhrif á.

Fjöldi aldraðra á lögheimili sitt á dvalar- og hjúkrunarheimilum þar sem félagsleg og persónuleg vandamál geta skapast, jafnvel deilumál milli nánustu ættingja um fjármál og eignir. Oft þurfa forstöðumenn og starfsfólk að blanda sér í slík mál til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna og því væri augljóslega léttir fyrir þá að geta vísað þeim til umboðsmanns.``

Herra forseti. Dæmi eru um að aldrað fólk á dvalarheimilum hafi gengist undir skuldbindingar vegna ættingja sinna sem hafa síðar leitt til þess að þeir sem fjárkröfur eiga hafa gengið svo hart að þeim öldruðu að ellilífeyrir þeirra hefur jafnvel verið tekinn til mánaðarlegra afborgana vegna þeirra skuldbindinga sem þeir hafa gert.

,,Umboðsmanni aldraðra væri ætlað að vinna að málum sem snerta sérstaklega hagsmuni aldraðra, fylgjast með því að stjórnvöld og einkaaðilar tækju fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna aldraðra og setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur í málum er snerta hag aldraðra á öllum sviðum samfélagsins.

Einnig væri umboðsmanni aldraðra ætlað að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra og stuðla að úrbótum á réttarreglum og stjórnsýslufyrirmælum er snerta aldraða.``

Herra forseti. Hér væri vissulega full ástæða til að hafa mun fleiri orð og framsöguna lengri. En ég tel ekki ástæðu til þess nú tímans vegna. Ég legg til að að loknum þessum umræðum verði málinu vísað til síðari umr. og heilbr.- og trn.