Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:59:43 (5663)

1996-05-06 15:59:43# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:59]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að við úthlutun starfsleyfa fiskmjölsverksmiðja þarf að standa við ströng ákvæði mengunarvarnareglugerðar og flestar verksmiðjur eða líkega allar hafa fengið starfsleyfi eingöngu á þeim forsendum hingað til. Það er hins vegar ljóst að borgin vill ganga lengra. Það er mjög eðlilegt vegna þess að hún er þar studd af einni undirstofnun umhvrn. og mér finnst það því mjög eðlilegt að borgarfulltrúar hafi áhyggjur af þessu máli ef undirstofnun umhvrn. telur að það þurfi að fara í umhverfismat. Ég skil því ekki af hverju ekki er hægt að verða við þeirri beiðni og ég held að allir hljóti að óttast að verið sé að setja málið í þá stöðu að það fari að velkjast á milli skrifborða. Ég held að það sé nefnilega ekki rétt sem segir í bréfi ráðherrans að verksmiðjan muni ekki hafa áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Mér finnst ekki óeðlilegt þó að borgaryfirvöld hafi áhyggjur af því að hún kunni að hafa áhrif á samfélag. Það er stutt frá þessum stað í þann stað þar sem skemmtiferðaskip koma að, þannig að það skiptir verulegu máli. Það skiptir líka máli hvort þessi verksmiðja verður stækkuð eða ekki með tilliti til framtíðar loðnufrystingar í borginni og þeirrar miklu atvinnuþátttöku sem hefur orðið vegna hennar. Mér finnst ekki óeðlilegt þó að borgaryfirvöld vilji fá að vita bæði skjótt og örugglega hvað þeim er óhætt að ganga langt í þessum efnum. Það skiptir sem sé verulegu máli varðandi áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi í borginni að niðurstaða komi í þessi mál. Ég tek því undir með þeim sem hvetja til þess að það verði farið í umhverfismat og að málið verði ekki látið flækjast á milli skrifborða. Úr því verði skorið skjótt og örugglega.