Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:23:37 (5672)

1996-05-06 16:23:37# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:23]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir hæstv. forsrh. enda er hann ekki hér staddur en ég vek athygli á því að mál sem leiddi m.a. til samningar þessa frv. fór til umboðsmanns Alþingis og hann sagði að nauðsynlegt væri að Hagstofan setti verklagsreglur til þess að það yrði samræmd skráning og jafnræðis yrði gætt á skráningu á nöfnum í Hagstofunni. Ég held að Hagstofan verði að horfast í augu við það. Ég get auðvitað skilið að það geta komið upp einhver sérstök dæmi og erfiðleikar því að við vitum að tölvukerfið hjá þeim er ekki tilbúið. En ég man ekki betur en fulltrúar þeirra hafi lýst yfir á fundi allshn. að það hafi yfirleitt verið hægt að semja um skráningu nafna og ég vona svo sannarlega að það verði áfram.