Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:32:58 (5675)

1996-05-06 16:32:58# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:32]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað fjöldamargt sem ég vil mótmæla í ræðu hv. þm. en ég tel ekki ástæðu til þess að eyða tíma í það.

En það er eitt atriði sem ég gleymdi að koma á framfæri áðan sem er mikilvægt. Einn af þeim aðilum sem hefur óskað eftir frestun á þessu máli er Íslensk málnefnd. Það þarf geysilega þung rök til þess að hafna þeirri ósk. Þau rök hef ég ekki enn þá heyrt.

Það er líka merkilegt, hæstv. forseti, að núna kemur hv. þm. með nýja lögskýringu, við lok 3. umr., sem gengur út á að það megi ekki nota merkingarlausar stafarunur af því að þær brjóti í bága við anda laganna. Hér er um að ræða allt annan hlut en undirbúningsnefndin sagði meðan hún var að semja drögin að frv. Það er því mjög sérkennilegt að skjóta hér inn nýrri lagaskýringu við lok málsins. Spurning mín til hv. þm. er síðan í framhaldinu: Er meira í pokahorninu? Er það fleira sem hann ætlar að draga til baka úr frv.? Mér væri þökk í því.