1996-05-06 18:29:47# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[18:29]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði áðan í upphafi máls síns að nauðsynlegt hefði verið að sýna fram á að Íslendingar gætu samið. Ég tel, herra forseti, að það sem hafi verið sýnt fram á í þessum samningum sé að Íslendingar geti samið af sér. Ég vil rökstyðja það með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir að þessi samningur er gerður á þeim grundvelli að Íslendingar og Færeyingar beygja sig. Hæstv. ríkisstjórn hefur ávallt sagt að hún væri tilbúin að slaka á kröfum Íslendinga varðandi síldveiðikvóta ef aðrir gerðu slíkt hið sama. Þannig hefur málið ávallt verið kynnt fyrir alþingismönnum og fyrir þjóðinni en aðrir gera ekki það sama. Norðmenn eru með tvö og hálf-faldan kvóta á við Íslendinga eða voru með það samkvæmt einhliða ákvörðunum umræddra ríkja. Íslendingar og Færeyingar skera niður sína kvóta um tvö og hálf-falt meira en Norðmenn þurftu að gera. Samningarnir eru alfarið leystir á grundvelli þess að Íslendingar og Færeyingar fórna. Það skiptir ekki máli þó Norðmenn séu með tvö og hálf-falt meiri kvóta en þessar tvær þjóðir samanlagt, Íslendingar og Færeyingar verða að fórna tvö og hálf-falt meiri kvóta en Norðmenn.

Hvað fáum við í staðinn fyrir þessa fórn? Það er sagt: Við fáum m.a. það í staðinn að það er samkomulag um það að Rússar stundi ekki smásíldarveiðar í efnahagslögsögu sinni. Í samningunum í íslenskri þýðingu í lið 2.1 stendur orðrétt, með leyfi forseta:

,,5.000 lestir af aflahlutdeild Rússlands eru teknar frá fyrir veiðar í efnahagslögsögu Rússlands.`` Hvaða síld er veidd í efnahagslögsögu Rússlands? Það er smásíld. Vissulega hefur verið ákveðið eins og segir að þessi tonn, sem eru 10 þúsund þegar saman er lagt, verði látin óveidd í verndunarskyni, en Íslendingar eru búnir að skrifa undir og ljá samþykki sitt því að þessar þjóðir taki sameiginlega ákvörðun um það að heimila Rússlandi veiðar á smásíld innan efnahagslögsögu Rússlands þó það sé samkomulag um það að þessi kvóti verði ekki notaður á yfirstandandi ári. Þetta kalla ég ekki að fá það í sinn hlut að Rússar hafi samþykkt að halda sér frá þessum veiðum á hinni viðkvæmu smásíld innan efnahagslögsögu Rússlands.

Það kemur líka fram í þessari sömu grein að þegar árinu lýkur eiga Norðmenn og Rússar samanlagt óveiddan 10 þús. tonna kvóta af síld sem þeir geta væntanlega gert kröfu um að geta sótt á næsta fiskveiðiári þegar þessu lýkur.

Í öðru lagi var sagt að það sem við fáum í staðinn fyrir það samkomulag sem við höfum gert um fórnir á kvóta Íslendinga og Færeyinga sé að við náum stjórn á síldveiðum. Nú eru allar horfur á því að Efnahagsbandalagið haldi fast við sitt og vissulega hefur Efnahagsbandalagið alla möguleika til þess að sækja þær 150 þúsund lestir af síld sem þeir hafa ákveðið að taka sér. Þá erum við að tala um veiðar á u.þ.b. 25--30% meira magni af síld en fiskifræðingar hafa ráðlagt. Er það þannig sem við náum tökum á veiðunum?

Í þriðja lagi er sagt hér að það sem við fáum í aðra hönd fyrir þetta samkomulag sé að við séum búnir að fá viðræðuaðila okkar til þess að fallast á hvaða vinnuferli eigi að nota við framtíðaráætlanir og framtíðaráform um skiptingu síldveiðikvótans á milli þjóðanna. Það hljóðar svo í íslenskri þýðingu, með leyfi forseta:

,,Aðilar skulu nota niðurstöður vinnuhópsins sem grundvöll samningaviðræðna í framtíðinni um verndun stofnsins, skynsamlega nýtingu hans og stjórnun veiða úr honum, m.a. vegna hugsanlegra breytinga á leyfilegum heildarafla og aflahlutdeild aðila að svo miklu leyti sem dreifing stofnsins réttlætir breytingar á gildandi fyrirkomulagi. Við sérhverja endurskoðun skal tekið tilhlýðilegt tillit til dreifingar allra hluta stofnsins.``

Það er ekki alveg ljóst hvað fyrir mönnum vakir. Það er ekki mikil vissa sem menn fá með þessu samningsákvæði. En það er þó eitt sem menn skulu hugleiða í þessu sambandi. Þessi ákvæði og ýmis önnur ákvæði þessarar bókunar hafa framtíðargildi, þ.e. þetta eru ekki tímabundin ákvæði. Það er ekki eins og með kvótaúthlutunina fyrir árið 1996 verið að gera samning sem er tímabundinn. Þetta er ótímabundið ákvæði sem við höfum ákveðið og samþykkt að lúta, svona eigum við og ætlum okkur að fara að með framtíðarákvörðun um heildaraflakvóta á síld og skiptingu á honum milli þjóðanna. Við erum búin að festa okkur í þessu fari. Og ég spyr hvað gerist að árinu 1996 liðnu? Þá erum við búnir að undirrita í samningi milli þjóðanna hvernig sú ákvörðun á að byggjast upp og það er ótímabundið. Þessari spurningu hefði verið hægt að kasta fram ef hæstv. ráðherra hefði látið svo lítið að hafa samráð við t.d. sjútvn. þingsins áður en þessi ákvörðun var tekin. Og ég spyr: Getum við t.d. á árinu 1997 tekið þá ákvörðun að úthluta sjálfum okkur einhliða síldveiðikvóta eða erum við búin að binda okkur með þessum ótímabundna samningi í ákveðið ákvarðanaferli sem við verðum að nýta til þess að brjóta ekki það samkomulag sem við höfum gert? Erum við með þessum samningi að afsala okkur þeim rétti sem við höfum haft? Ef við erum ekki sáttir við samkomulag það sem hugsanlega gæti tekist við aðrar þjóðir, getum við þá ákveðið einhliða okkar kvóta? Getum við ákveðið einhliða okkar kvóta á árinu 1997 ef við erum ekki sáttir við niðurstöðu af því vinnuferli sem hér er verið að samþykkja eða erum við í framtíðinni bundnir af því að ákvörðunin eigi að ganga með þessum hætti fram? Það er auðvitað meginatriðið í málinu og það liggur ekki ljóst fyrir ef menn lesa samninginn eins og hann hefur verið kynntur okkur alþingismönnum.

Þá vil ég taka undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Það er ekkert smámál að opna íslenska fiskveiðilögsögu fyrir öðrum þjóðum. Sú ákvörðun hefur aldrei verið kynnt, hvorki í sjútvn., sem ekkert hefur verið rætt við, né í utanrmn., né á hv. Alþingi, né meðal þjóðarinnar að það stæði til af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að opna íslenska fiskveiðilandhelgi fyrir öðrum þjóðum. Hvað þá heldur að kynnt hafi verið að það standi til án gagnkvæmni, án þess að við fáum þá rétt til fiskveiða í fiskveiðilögsögu annarra ríkja á móti. Við opnum landhelgi okkar fyrir Rússum til veiða á 5 þúsundum tonnum af síld. Hvar er gagnkvæmnin í því samkomulagi? Hvaða heimildir fáum við á móti til að veiða í rússneskri fiskveiðilandhelgi? Enga. Við opnum okkar fiskveiðilandhelgi fyrir Norðmönnum svo þeir geti veitt þar 130 þúsund tonn af síld á næsta ári. Hvaða aðgang fáum við að norskri fiskveiðilandhelgi á móti? Og ég er ekki að tala um landhelgina á Jan Mayen svæðinu sem sérstakt samkomulag var gert um hvernig með skyldi fara þann 13. júní árið 1980. Ég er ekki að tala um það. Ég er að tala um fiskveiðilögsögu Noregs þar sem Norðmenn sjálfir veiða mestallan sinn síldarafla. Hvar er gagnkvæmnin þar, herra forseti? Hver er okkar réttur til þess að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Noregs sem við ættum að fá um leið og við afhendum þeim réttinn til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Mönnum kann að yfirsjást að þetta er sennilega stærsta málið af því öllu saman því að þarna eru Íslendingar að setja fordæmi um að opna fiskveiðilögsögu sína án þess að nokkur gagnkvæmnisréttur sé veittur á móti. Við opnum hana fyrir Rússum, við fáum ekki að veiða í rússneskri landhelgi á móti. Við opnum hana fyrir Norðmönnum. Við fáum ekki að veiða í norskri fiskveiðilögsögu á móti heldur við Jan Mayen þar sem Jan Mayen samkomulagið opnaði hvort eð var möguleika Íslendinga til veiða þar.

Það eru þrír til fjórir sólarhringar eftir þar til íslenskir útgerðarmenn halda til síldveiða. Þeim er tilkynnt það núna með þessum skamma fyrirvara að hæstv. sjútvrh. ætli sér að úthluta aflakvóta á komandi veiðar. Og ég spyr: Með hvaða hætti hyggst hann gera það? Ætlar hann að gera það á grundvelli veiðireynslu? Ætlar hann að gera það með einhvers konar jöfnunarúthlutun á milli allra þeirra sem sótt hafa um leyfi eða ætlar hann að gera það með blöndu af hvoru tveggja? Það hefur ekkert samráð verið haft við Alþingi um þessi mál. Það hefur lítið samráð verið haft við hagsmunaaðila. En þegar aðeins þrír til fjórir sólarhringar eru eftir þar til þessi stóri floti hefur veiðar er það frumkrafa að hæstv. ráðherra svari svo einfaldri spurningu sem þessari.