Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:13:09 (5718)

1996-05-07 14:13:09# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:13]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í ræðum annarra ræðumanna sem hafa talað á undan að það ber nauðsyn til að bjarga starfsemi Íslenska menntanetsins sem er merkilegt fyrirtæki. Ég ætla ekki að ræða það nánar efnislega. Ég vil aðeins geta um hvernig málið bar að fjárln. af því að það hefur komið til umræðu. Það kom til fjárln. erindi varðandi þetta mál þrem dögum eftir að samningurinn var gerður. Nú er það ekki einsdæmi út af fyrir sig. Við höfum samt eigi að síður rætt það hvernig mætti bæta þessi vinnubrögð, hafa samband við fjárln. eða samráð á frumstigi, ekki síst vegna þess að nú situr fjárln. og hefur umboð eins og aðrar nefndir þingsins allt árið. Það er verið að herða á þeim ákvæðum með nýrri löggjöf um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Ég vil taka það fram að auðvitað vill fjárln. hafa slíkt samráð á frumstigi og ég held að það sé gott fyrir viðkomandi mál og framgang viðkomandi mála. Þetta dæmi er ekkert einsdæmi, þ.e. að það hafi verið haft samráð við fjárln. eftir á um fjárgreiðslur. Sennilega er þetta að þokast í rétta átt frá því sem áður var meira að segja. Eigi að síður vil ég taka fram að það er rétt að hafa samráð við fjárln. um mál af þessari stærðargráðu á frumstigi þegar samningur er gerður og áður en hann er undirritaður.

Ég vildi taka þetta fram vegna þess að þetta hefur komið til umræðu varðandi málið. En það breytir því í engu að ég tel að þetta sé skynsamleg ráðstöfun út af fyrir sig og málið er í sjálfu sér ekki einsdæmi eins og ég hef tekið fram.