Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 17:15:56 (5742)

1996-05-07 17:15:56# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[17:15]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt í stuttu andsvari að fara yfir ræðu hv. þm. sem var reyndar nokkuð löng. Það gefst tími til þess síðar í umræðunni að fara yfir allar þær rangtúlkanir og misskilning sem kom fram í ræðu hans og kemur reyndar fram í minnihlutaálitinu. Ég vil þó segja strax hér og nú að það hefur hvergi komið fram neitt sem bendir til þess að þetta frv. taki á réttindum eða skyldum sem um hefur verið samið í kjarasamningum. Það hefur enginn maður nokkurs staðar sýnt fram á það, hvorki í minnihlutaálitinu né í ræðu hv. þm. En hv. þm. reyndi að gera mál úr því að ég hafi ekki komið á fund hv. nefndar. Ástæðan er tvíþætt. Önnur er sú að ég átti ekki kost á því tímans vegna en hins vegar finnst mér líka alveg ófært að gera mál úr því að ráðherrar mæti á þingnefndarfundi þegar ljóst er að þeir taka þátt og geta tekið þátt í þremur umræðum í þinginu og í nefndinni sitja fulltrúar stjórnarmeirihlutans. Sannleikurinn er sá að sá sem hér stendur hefur ávallt verið tilbúinn til þess að koma til fundar við opinbera starfsmenn um þessi mál. Ástæðan fyrir því að samráðið var ekki meira í upphafi var ósköp einfaldlega sú að fulltrúar opinberra starfsmanna kusu að fara með frumvarpsdrög og kynna þau fyrir sínu fólki. Við því er ekkert að segja. Þá kaus ég að leggja frv. fram til þess að allir gætu séð hvað í frv. væri en sagði í leiðinni að við værum tilbúin til þess að ræða við opinbera starfsmenn hvenær sem er. Og sama daginn, (ÖJ: Í sumar?) hv. þm. Ögmundur Jónasson, og þessi nefndarfundur var haldinn var ég á fundi hjá BSRB til þess að taka þátt í umræðum um þetta mál þannig að það hefur aldrei staðið á því að ég kæmi og ræddi við opinbera starfsmenn um frv. sem hér er til umræðu.