1996-05-08 00:17:58# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[24:17]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri gott ef það dygði að skýra þessar ágætu lagagreinar fyrir mér. En það vill svo til að skýringar við lagagreinar í frv. og nefndarálit eru lögskýringargögn. Og þó að höfundar þessa margumrædda frv. hafi skýrt fyrir efh.- og viðskn. hver þeirra meining er með frv., þá þarf það að vera alveg skýrt af textanum hver meiningin er og hún er það ekki. Það er hægt að misskilja þetta. Það var hjakkað í þessu fram og aftur í hv. efh.- og viðskn. vegna þess að nefndarmenn áttu erfitt með að átta sig á því hvað þetta þýddi. Þetta er mjög óljós texti og ég hygg að það verði hægt að teygja hann og toga.

Ég get sannfært hv. þm. um það að ég hef engan áhuga á því að ganga í Evrópusambandið og hef aldrei haft. Reyndar skal ég viðurkenna að ég gekk með mjög opnum huga á sínum tíma í að skoða það mál. En niðurstaða mín eftir mikla lesningu varð sú að ég vil ekki sjá Ísland í því sambandi. (Gripið fram í: En Kvennalistinn er með því.) Hins vegar hef ég alltaf viðurkennt að þar er margt gott og margar ágætar tilskipanir hafa verið samþykktar innan Evrópusambandsins og afstaða þeirra til vinnumarkaðarins og vinnandi fólks er miklu jákvæðari og betri en það sem við þurfum að búa við af hálfu Sjálfstfl.