Nýting innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:37:38 (5771)

1996-05-08 13:37:38# 120. lþ. 133.1 fundur 378. mál: #A nýting innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:37]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og þær athugasemdir sem hann lét fylgja með henni. Það ber að fagna því að verið sé að reyna að nýta auðlind til atvinnusköpunar, ekki síst í sveitum þar sem þrengst hefur verulega um á undanförnum árum vegna samdráttar í framleiðslu og mikilvægt að menn noti sér þá möguleika sem fyrir hendi eru en það þarf auðvitað að gera með þessa auðlind eins og aðrar að nýta þær í samræmi við það hvað þær þola og fylgjast vel með því sem er að gerast. En það hafa komið fram vísbendingar um að ásókn í innlendar plöntur til iðnaðarframleiðslu hafi farið mjög vaxandi á seinustu árum.

Samkvæmt 23. gr. náttúruverndarlaga, nr. 47/1971, með síðari breytingum, getur Náttúruverndarráð friðlýst jurtir eða dýr sem miklu skiptir frá náttúrufræðilegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt. Friðunin getur ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls. Með vísun til þessa ákvæðis var t.d. gefin út auglýsing nr. 184/1974, um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Samkvæmt 32. gr. laganna koma engar friðlýsingar Náttúruverndarráðs til framkvæmda fyrr en umhvrn. hefur lagt á þær samþykki sitt. Ráðuneytinu hafa ekki borist tillögur frá Náttúruverndarráði um friðun íslenskra plantna vegna meintrar aukinnar ásóknar í þær vegna iðnaðarframleiðslu. Að tilhlutan umhvrn. gerði Náttúruverndarráð hins vegar könnun á þessu máli fyrir hálfu öðru ári, sem er þá líklega frá tíð fyrrv. umhvrh., og benda niðurstöður sem byggðar eru á upplýsingum frá Iðntæknistofnun og Útflutningsráði til vaxandi ásóknar sem virðist bundin við algengustu tegundir háplantna og lágplantna. Telur Náttúruverndarráð hins vegar ekki ástæðu til þess að beita 23. gr. náttúruverndarlaga og friða þær heldur leggur til breytingar á 14. gr. laganna þannig að taka villtra plantna í atvinnuskyni verði bundin leyfi ráðherra.

Fyrir Alþingi liggur nú frv. til nýrra náttúruverndarlaga þar sem fjallað er um stjórnskipun innan málaflokksins þar sem m.a. er að finna ítarlegri ákvæði um eftirlit með náttúru landsins en er að finna í núgildandi lögum. Ætlunin er að hefja fljótlega endurskoðun laganna með sérstöku tilliti til efnisþátta þeirra og er ætlunin að tillaga Náttúruverndarráðs að breyttri 14. gr. verði tekin þar til gaumgæfilegrar skoðunar eins og fjölmörg önnur atriði sem bent hefur verið á að þarfnist lagfæringar en er ekki fyrir þinginu nú í því frv. sem liggur fyrir til umræðu.

Eftir því sem best verður séð leikur grunur á að aukin ásókn í innlendar plöntur sé fyrst og fremst tilkomin vegna snyrtivöruframleiðslu eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi sem sennilega á sér skýringar í því að plönturnar eru ekki friðaðar hér á landi og að um er að ræða ódýrt hráefni. Það eru helst fjallagrös sem talin eru verða fyrir barðinu á aukinni ásókn en auk þess mætti nefna fleiri plöntur, svo sem blóðberg. Engar áreiðanlegar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um magn þeirra plantna sem hér um ræðir, hvorki til innlendrar framleiðslu né til útflutnings og þá hvort hér kunni að vera um að ræða rányrkju af einhverju tagi. Hér má skjóta inn að mér hafa reyndar borist nýlega upplýsingar sem vöktu athygli mína og hefur verið fjallað um, bæði í umhvrn. og landbrn., þar sem er gert ráð fyrir því að ákveðið fyrirtæki hyggist þurfa um 5 tonn af jurtum í sumar til framleiðslu og útflutnings og ef það væru t.d. fjallagrös þá er það ekki lítið magn af plöntu sem er svo létt í sér, en nú skal ég ekki fullyrða að það sé. En þetta er sannarlega vísbending um að það þurfi að huga að málinu.

Til þess að hægt sé að setja reglur um nýtingu einstakra tegunda þurfa að liggja fyrir upplýsingar um útbreiðslu þeirra og magn. Útbreiðsla háplanta er allvel þekkt og sama er að segja um hluta lágplantna svo sem mosa og sumar fléttutegundir. Upplýsingar um magn einstakra tegunda á hverju svæði eru hins vegar mjög takmarkar svo sem dæmi má nefna að um fjallagrös eru ekki til nauðsynlegar grunnupplýsingar, þar á meðal um vöxt og endurnýjunargetu plantnanna en hv. fyrirspyrjandi nefndi jafnvel 7--12 ár. Erfitt getur því reynst að setja reglur um nýtingu þeirra sem byggjast á vísindalegum grunni.

Til þess að hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu villtra plantna hér á landi er nauðsynlegt að efla grunnrannsókn á gróðurríki Íslands en til þess hefur tilfinnanlega skort fé. Flutningur gróðurkortagerðar til Náttúrufræðistofnunar Íslands og aukning þeirrar starfsemi er spor í rétta átt þótt meira þurfi til. Fyrstu opinberu útbreiðslukort fyrir íslenskar plöntur munu koma út á þessu ári. Einnig er gert ráð fyrir því að á árinu verði birtir válistar fyrir íslenskar háplöntur og fléttutegundir.

Með vísun til þess sem ég hef sagt, hæstv. forseti, tel ég nauðsynlegt að gerð verði nú þegar athugun á nýtingu innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu og til matvælaframleiðslu, einnig til þess að fyrirbyggja rányrkju einstakra stofna og tegunda. Ég hef því ákveðið að setja á fót starfshóp skipaðan fulltrúum frá umhvrn., Náttúrufræðistofnun, Náttúruverndarráði og landbrn. til þess að gera úttekt á málinu í samráði við hlutaðeigandi aðila og koma með tillögur til úrbóta.

Skoðun mín er sú að nægilega vel sé búið að lögum til þess að hægt sé að hafa afskipti af þessum málum sé þess talin þörf, ekki síst nái það frv. sem ég hef áður minnst á fram að ganga, en eftirlitið yrði að sjálfsögðu í höndum nýrrar stofnunar, Náttúruverndar ríkisins.

Að lokum þakka ég hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo þarfa máli um leið og ég fullvissa hann og aðra hv. þingmenn um vilja minn til þess að sporna gegn rányrkju einstakra plöntustofna og plöntutegunda í flóru Íslands.