Sala íslenskra hesta til útlanda

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:11:59 (5782)

1996-05-08 14:11:59# 120. lþ. 133.3 fundur 495. mál: #A sala íslenskra hesta til útlanda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi GÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svar hans og þær upplýsingar sem hann hefur gefið um hvað landbrn. og yfirdýralæknir hafa verið að aðhafast í málinu og fleiri aðilar reyndar líka. Ég held að það sé mjög mikilvægt --- nú gengur hæstv. utanrrh. í salinn --- að þessir aðilar taki saman á þessu máli. Auðvitað þarf einhvern tíma að koma að því að við gerum formlegar kröfur. En eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá hefur það ekki verið gert.

Við björguðum þessum hesti og fluttum hann til Íslands þegar við flúðum Noreg. Mér finnst það nú að Norðmenn verði sér hálf til skammar í því að vera með þessar hindranir gagnvart sínum forna hesti.

Eins er það, hæstv. ráðherra, hvað snertir íslenska hestinn að þá eru það líka aðgerðir heima fyrir sem skipta máli. Ég vil minna á að það er ör þróun í sæðingum og fósturvísaflutningum úti í Evrópu. Það er eitt atriði sem við þurfum verulega að huga að og koma til móts við hestamenn.

Eitt atriðið er enn. Ég nefni stóðhestastöðina. Þar var hæstv. ráðherra á laugardaginn var og flutti ágætt erindi og sá þann mikla fjölda sem fylgist með framgangi íslenska hestsins. Ég hygg að erlendum hestamönnum sem hingað koma beri saman um að það væri glópska ef við stæðum ekki að þeirri stöð og næðum því fram að hún yrði rekin með einhverjum ráðum eins og ráðherra ræddi reyndar um á þeim degi.

Ég vil að lokum segja að ég held að hesturinn sé mjög mikilvægur til þess að skapa atvinnutækifæri. Hann skapar þau um íslenskar sveitir og er góð aukabúgrein. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að vinna að framgangi þessa máls, þ.e. að auðvelda sölu á íslenskum hestum og fá erlend ríki til þess að koma til móts við þá áhugamenn í sínum löndum sem vilja að tollar og hindranir séu felldar úr vegi.